Fréttir | 02. júní 2023 - kl. 13:33
Sjómannadagurinn á Skagaströnd

Sjómannadagshelgin er framundan og verða hátíðarhöld víða um land í tilefni sjómannadagsins 4. júní. Á Skagaströnd hófst hátíðin í gær og má finna fjölbreytta og glæsilega dagskrá helgarinnar á vefnum Hetjur hafsins. Í dag verður m.a. fiskasýning í Fiskmarkaðinum, myndlystarsýning á Horbour restaurant & bar og barnavagnasýning í Bjarmanesi. Sjómannadagshlaupið hefst klukkan 17 við félagsheimilið Fellsborg og þar verður froðurennibraut. Þá verður hægt að fara í útsýnissiglingu um Húnaflóa í kvöld.

Á morgun verður skemmtun á planinu við Bjarnabúð klukkan 14-16 með sirkussýningu, leikjum, andlitsmálningu og blöðrudýrum. DJ Selma verður í portinu á Harbour restaurant & bar klukkan 16-18 og Guðlaugur Ómar trúbador spilar um kvöldið. Dansleikur verður í Fellsborg þar sem hljómsveitin Steinliggur heldur uppi fjörinu.

Á sjómannadaginn 4. júní hefst skrúðganga frá hafnarsvæðinu 12:30 og verður gengið til Sjómannadagsmessu í Hólaneskirkju. Kaffisala verður í Fellsborg klukkan 14-17 en hún er á vegum Björgunarsveitarinnar Strandar. Karamellufjör verður á íþróttavellinu klukkan 14:30-15 og Hestamannafélagið Snarfari sér um að teyma undir börnum klukkan 15-16.

Allt um hátíðina má finna hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga