Fornleifagröftur á Höfnum á Skaga. Mynd: fornleif.is
Fornleifagröftur á Höfnum á Skaga. Mynd: fornleif.is
Mynd: fornleif.is
Mynd: fornleif.is
Fréttir | 04. júní 2023 - kl. 17:35
Fornleifarannsókn hafin á Höfnum á Skaga

Fornleifarannsókn hófst á dögunum á Höfnum á Skaga þar sem stór verstöð var á miðöldum. Ýmsir forvitnilegir gripir hafi komið í ljós við rannsóknina eins og gnótt hvalbeina. Fornleifafræðingur bindur vonir við að fleiri gripir eigi eftir að koma í ljós á næstu vikum. Sagt er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins.

Þar er rætt við Lísabetu Guðmundsdóttur fornleifafræðing og segir hún að svæðið sem verið er að rannsaka sé líklegast allt frá miðöldum, alla vega eftir 1104. „Þetta eru verbúðir og öskuhaugar. Ástæðan fyrir því að við erum hérna er að hluta til sú að þetta er að hverfa í hafið. Það kvarnast mjög mikið af þessu á ári hverju og ef við gerum ekki neitt þá hverfur þessi þekking alfarið með,“ segir Lísabet og líkir uppgreftrinum við björgunarleiðangur.

Rannsóknin stendur yfir næstu þrjár vikur. Á fyrsta degi fannst hárkambur frá 13. öld og fjöldi hvalbeina sem Lísabet segir að styðji þá kenningu á hvaða tímabili þetta var. „Á þessu svæði er líka svakalega mikið af hvalbeinum sem er ástæðan fyrir því að við völdum þennan stað. Við erum bæði með hálfkláraða gripi og óunnin bein og mjög mikið af hvalbeinsspónum, þá úrgang eftir vinnsluna. Það er eitthvað sem við þekkjum ekki neitt, hvað þá á svona stöðum þar sem var árstíðabundin búseta,“ segir Lísabet í samtali við Ríkisútvarpið.

Sjá umfjöllun Ríkisútvarpsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga