Frá samráðsfundinum á Blönduósi. Mynd: Aðsend
Frá samráðsfundinum á Blönduósi. Mynd: Aðsend
Fréttir | 22. mars 2024 - kl. 09:13
Samstarfsyfirlýsing um öruggara Norðurland vestra undirrituð

Samstarfsyfirlýsing um samvinnu gegn ofbeldi og öðrum brotum, og um bættrar þjónustu fyrir jaðarsetta hópa, undir heitinu Öruggara Norðurland vestra, hefur verið undirrituð af Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sveitarfélögunum Húnaþingi vestra, Húnabyggð, Skagabyggð Skagaströnd og Skagafirði, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastdæmi, Heilbrigðisstofnunum Norðurlands og Vesturlands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og ungmennasamböndunum USAH, USVH og UMSS. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Með samstarfsyfirlýsingunni hafa ofangreindir aðilar ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum brotum og að stuðla að bættri þjónustu fyrir jaðarsetta hópa. Nýverið fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi samráðsfundur undir heitinu Öruggara Norðurland vestra og tóku tæplega 1% íbúa á svæðinu þátt. Þátttakendur fengu kynningu á verkefnum einstakra samstarfsaðila og lögðu línur um áherslur verkefnisins næstu mánuðina en þær snúa að farsæld barna og ungmenna, ofbeldi í nánum samböndum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu. Þá var skipað framkvæmdateymi um verkefnið í heild sinni ásamt því að tilnefndir voru verkefnastjórar áhersluverkefna.

„Vinnustofan er hluti af afbrotavarnaáætlun embættisins en afbrotavarnir eru einn þáttur löggæslu. Afbrotavarnir þurfa að vera skipulagðar, markvissar og byggja á vísindum og gögnum. Þá þurfa afbrotavarnir einnig að vera aðgengilegar og unnar í samstarfi við hagsmunaaðila,“ að því er segir í tilkynningunni.

Sjá má samstarfsyfirlýsinguna hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga