Húsfrúin | 08. janúar 2010 - kl. 13:21
Að sofa og vakna

Ég fékk örlítinn sting í hjartað um daginn þegar ég, samkvæmt venju, fór og smellti kossi á börnin mín áður en ég fór að sofa. Ástæðan var ekki sú að eitthvert þeirra vantaði, nei, þvert á móti það var orðið svo mikið af þeim. Þá meina ég að þau voru orðin svo stór - ekki fleiri en venjulega...

 

Þar sem þau lágu steinsofandi tók ég allt í einu eftir því hvað þau náðu langt enda á milli í rúmunum sínum. Mér finnst ekkert svo langt síðan þau voru í litlum barnarúmum – og satt að segja er bara hreint ekki langt síðan síðasta barnarúmið var stækkað upp í fullorðins lengd. Sérstaklega stakk það mig náttúrlega hvað yngsta barnið á heimilinu gat teygt sig ótrúlega langt – rétt nýfætt fyrir sex árum síðan...

 

Mér virðist vera tíðrætt um svefn og svefnvenjur – kannski er það vegna þess að mér finnst afar notalegt að sofa! Ástæðan í þetta sinn gæti líka kannski verið vegna þess að yndislegir jóladagar eru rétt nýliðnir og mér finnst ég ekki fá nægan svefn nú þegar ég rembist við að snúa sólarhringnum á rétt ról aftur.

 

Svefni fylgir óneitanlega sú staðreynd að þurfa að vakna og ég hef reyndar líka oft spáð í hvað það HVERNIG við vöknum er fljótt að breytast.

 

Ungbörn vakna og bíða þess að vera tekin upp – vegna þess að þau geta náttúrlega ekki annað. Smábörn vakna og geta bókstaflega hlaupið af stað um leið og þau opna augun – þegar þau eru sloppin úr rimlarúmunum. Börn á grunnskólaaldri skiptast eiginlega í tvo hópa því óneitanlega verður mikil breyting á líkamsstarfsemi þeirra á þessum aldri. Í fyrstu er ekkert mál að vekja þau, að því gefnu að þau hafi fengið nægan svefn. Svo þegar unglingsárin hellast yfir þau þarf að vekja þau afar varlega og jafnvel margoft áður en morgunfúlir og krumpaðir kropparnir birtast við morgunverðarborðið í stanslausu „hormóna-rússi“.

 

Fullorðnir kroppar virðast svo lúta öðrum lögmálum. Fyrstu skrefin fram úr rúminu virðast vera ótrúlega erfið og það er ekki af því að viðkomandi sé ekki vaknaður heldur virðist líkaminn ekki vera það... Stirðlega er staulast um, stuttum skrefum, þar til allir liðir eru vaknaðir og allt farið að virka eins og til er ætlast.

 

Sumir fara alveg heilan hring og enda á sama stað og þeir byrjuðu, rúmliggjandi og geta ekki annað – en þess óskar maður engum.

 

Ég hef annars undanfarið tekið eftir því og hlegið með sjálfri mér – kannski upphátt stundum – að þegar ég hef þurft að beygja mig eftir einhverju á gólfinu eða jörðinni fylgir því oft eitthvert hljóð; stuna, andvarp, einhvers konar loftþrýstingur... Ég hef heyrt þetta sama frá öðrum fullorðnum – en aldrei frá börnum. Þau virðast ekki hafa neina þörf fyrir að láta svona hljóð frá sér nema auðvitað þegar þau þurfa að gera eitthvað sem þau alls ekki vilja – og þá heyrist þetta hljóð mjög greinilega og jafnvel án þess að þau þurfi að beygja sig.

 

Mér leiðist þetta hljóð, bæði þegar það kemur frá mér og öðrum og er nú markvisst að vanda mig þegar ég beygi mig eftir einhverju – að gera það alveg hljóðalaust. Þetta er samt ekki áramótaheit – bara nokkuð sem ég ætla að stefna að. Alveg eins og að reyna að segja „heyrðu“ sjaldnar í upphafi setninga.

 

Það er svo ótrúlega margt sem hægt er að hafa fyrir stafni og stytt sér stundir við á milli þess að sofa vært.

 

Góðar stundir

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga