Húsfrúin | 28. mars 2010 - kl. 12:04
Tilhlökkun

Það er svo góð tilfinning að hlakka til einhvers. Ég hlakka að öllu jöfnu til einhvers – alltaf. Ef það er ekki afmælið mitt eða einhvers annars þá er það einhver skemmtilegur viðburður; árshátíð, tónleikar, sýning, frí, vinafundur... Það er bara endalaust hægt að láta sig hlakka til einhvers.

Ég gæti ekki hugsað mér líf án tilhlökkunar, held að þannig tilvera væri ansi daufleg. Mér er afar minnisstætt hvenær þessari hugsun skaut niður í kollinn á mér. Það var fyrir nokkrum árum síðan. Ég var stödd í Englandi með manninum mínum, mági og svilkonu. Við höfðum farið á fótboltaleik með uppáhaldsliðinu, ferð sem við höfðum öll hlakkað mikið til lengi og var svo orðin að veruleika. Ferðin var búin að vera hreinn draumur í dós frá upphafi til enda, leikurinn fór vel, við borðuðum góðan mat og kíktum í búðir – alveg eins og góð fótboltaferð á að vera...

Í þessari ferð var meðal annarra maður og u.þ.b. 11-12 ára sonur hans.  Maðurinn þekktur úr viðskiptalífinu í Reykjavík, hafði þar byggt upp tískuverslanakeðju með spúsu sinni og gengið vel. Sonurinn var greinilega mikill fótboltaáhugamaður því hann gerði ekki annað en að telja upp fótboltavelli sem hann hafði heimsótt víða um Evrópu – og séð öll helstu stórliðin keppa. Þá erum við að tala um Meistaradeildarleiki, deildarleiki, bikarleiki og ég veit ekki hvað og hvað í Englandi, Ítalíu og á Spáni. Allt þetta hafði hann upplifað á sinni stuttu æfi.

Í ferðinni voru líka tveir æskuvinir. Annar þeirra var nýorðinn þrítugur og var þarna í sinni fyrstu fótboltaferð, hafði safnað fyrir ferðinni og gefið sér hana í afmælisgjöf. Félagarnir voru alsælir enda búnir að skemmta sér vel – líkt og aðrir í ferðinni. Sá eini sem ekki samgladdist þeim þrítuga innilega var litli guttinn. Það hnussaði í honum þegar hann sagði með ákveðnum tón: „Ertu í alvöru þrítugur og ert að fara í fyrsta sinn á fótboltaleik á Englandi!“

Gorgeirinn í drengnum var farinn að fara svolítið í taugarnar á fólkinu í ferðinni, sem eftir besta mætti reyndi að leiða hann hjá sér, en steininn tók úr á flugvellinum á heimleiðinni. Þegar á flugvöllinn kom var löng, löng biðröð að skráningarborðinu og hún mjakaðist afar hægt áfram.  Fólk gat ekkert annað gert en að bíða í röðinni, ýtt töskunum sínum á undan sér þegar þörf krafði og spjallað. Flestir voru að rifja upp leikinn, tala um góða matsölustaði og annað skemmtilegt sem á daga þess hafði drifið þessa ánægjulegu helgi í Englandi. Kemur þá ekki litli stubburinn uppað hópnum og glottir ógurlega á meðan hann sýnir skráningarspjaldið sitt. Hann hafði sko ekki þurft að bíða í langri röð, hann flaug nefnilega á Saga-Class...

Það var akkúrat þarna sem þessari hugsun sló niður í huga mér – þessi drengur á aldrei eftir að hlakka til neins. Hann fær allt um leið og hann langar... Og tilfinningin var ekki góð, eitthvað sem ég gæti ekki hugsað mér þrátt fyrir að vera illilega sýkt af „núna-veikinni“ sem krefst þess iðulega að ég fái þörfum mínum fullnægt „núna“ – eða í það minnsta mjög fljótlega eftir að þörfin vaknar!  

Ég veit nefnilega að tilfinningin að fá eitthvað eða upplifa eitthvað eftir að hafa hlakkað til þess í einhvern tíma er afar ljúf og góð – tala nú ekki um að öllum er hollt að þurfa að bíða svolítið eftir því sem þá langar í. Ekki bara fá allt upp í hendurnar áreynslulaust.

Reyndar held ég, og veit líka, að þannig er þetta hjá flestum okkar og líka eins gott. Annars væri lífið svo dauft og óspennandi.

Góðar stundir – og finnið ykkur nú eitthvað til að hlakka til. Það er bara svo gaman.

Húsfrúin

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga