Húsfrúin | 19. desember 2010 - kl. 15:18
Föst í viðjum vanans?

Ég hef komist að ýmsu um mig í gegnum tíðina, góðu og slæmu. Ég er til dæmis afar vanaföst. Þetta birtist í klefanum í íþróttamiðstöðinni þar sem ég fer iðulega á sama stað til að hengja upp fötin mín eða vel skáp á svipuðu svæði. Í búðinni versla ég yfirleitt alltaf sömu vörumerkin, ég vel mér sömu drykkina, sama grænmetið og sama nammið svo eitthvað sé nefnt. Ég sest á sama stað í kaffitímunum í vinnunni, geng svipaða leið í gönguferðum, fer að sofa á svipuðum tíma á kvöldin. Þegar ég fer til borgarinnar versla ég í sömu búðum og venjulega - svona mætti lengi telja. Ég er, held ég, mjög fyrirsjáanleg manneskja þegar ég horfi á þetta á prenti...

 

Eitt er það þó sem ég hef nýlega tekið uppá sem ekki var í minni daglegu rútínu þar til fyrir stuttu – og það sem kom mér hvað mest á óvart var að þessi breyting á lífi mínu og annarra fjölskyldumeðlima var svo til áreynslulaus. Við fórum að flokka ruslið heima hjá okkur.

 

Ég er náttúrlega þeim ósköpum búin, ef þannig er hægt að tala um fólk, að ég elska að flokka og raða og því var þetta verkefni kannski frekar tilhlökkunar- en kvíðaefni. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru þó ekki alveg eins forritaðir og því átti ég alveg eins von á að verkefnið myndi lenda á mér einni, en sú er raunin alls ekki. Með samhentu átaki skolum við, flokkum og skilum í endurvinnslutunnuna sem við fengum okkur þegar þær buðust hér á Blönduósi.

Við höfum farið ófáar ferðirnar upp á gámasvæði til að skila því sem ekki kemst í tunnuna (eða á ekki að fara í hana) og alltaf fengið frábærar móttökur hjá starfsfólkinu þar, sem er boðið og búið að aðstoða okkur við að losa úr kerrunni – allt á rétta staði.

 

Núna er þetta orðið okkur svo ósjálfrátt að við skiljum bara ekki hvernig okkur datt í hug að henda til dæmis skyrdósunum bara beint í ruslið – eða mjólkurfernunum sem alltaf fylltu ruslapokann strax!

 

Í kjölfar þessarar flokkunar allrar hef ég farið að lesa allt mögulegt um umhverfismál. Ég keypti mér afar forvitnilega bók á bókamarkaði sem heitir „Konur geta breytt heiminum með nýjum lífsstíl“. Höfundur hennar, Guðrún Bergmann, er einmitt pistlahöfundur á www.mbl.is og í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún heldur úti vefsíðunni www.graennlifstill.is þar sem hún skrifar um allt mögulegt tengt grænum lífsstíl.

 

Fyrir þá sem óar við flokkun þá er rétt að benda á að líklega er enginn sem fleygir gosdósum eða flöskum í ruslið lengur. Og við fundum stað á heimilinu til að geyma umbúðirnar þar til við skilum þeim. Af hverju? Jú, við fáum peninga fyrir að skila þessum umbúðum í endurvinnslu.

Ég lít þannig á að með því að flokka ruslið sé ég líka að fá pening því Blönduósbær þarf ekki að borga fyrir urðun þess. Vissulega kostar eitthvað að flytja sorpið til endurvinnslu – en þetta er mun umhverfisvænna en að grafa ruslið í jörðina.

 

Ég las frábæra setningu í bæklingi sem heitir „Skref fyrir skref“ og var gefinn út af Landvernd og Umhverfisráðuneytinu fyrir nokkrum árum:

 

Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.

 

Ég hef haft þessa setningu að leiðarljósi í umhverfis-“pælingum“ mínum. Það munar um allt. Svo ef þú ert ekki farin/-inn að flokka þá langar mig til að hvetja þig til að taka eitt skref, fara til dæmis að skola mjólkurfernur og fara með í endurvinnslu. Eða fara með pappír; dagblöð, pakka utan af morgunkorni, auglýsingapésa og annan pappír sem fellur til á heimilinu. Það myndi muna mjög miklu þegar til langs tíma er litið.

 

Ég keypti spilastokk um daginn af vef Guðrúnar. Þetta eru ekki hefðbundin spil heldur eru þau með ýmsum kærleikskornum, það heita spilin einmitt - Kærleikskorn. Eitt þeirra segir „Hið gamla verður að víkja svo hið nýja komist að.“

 

Allt sem þarf er að stíga fyrsta skrefið og koma sér þannig upp nýjum venjum.

 

Góðar flokkunarstundir

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga