Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 19. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:12 0 0°C
Laxárdalsh. 23:12 0 0°C
Vatnsskarð 23:12 0 0°C
Þverárfjall 23:12 0 0°C
Kjalarnes 23:12 0 0°C
Hafnarfjall 23:12 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Jói í Stapa
Jói í Stapa
Pistlar | 02. nóvember 2020 - kl. 10:55
Stökuspjall: Loga ský í loftsins eldi
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Nýr er kominn nágranninn
sem nú er fjarri sorg
vertu Sigfús velkominn
í Varmahlíðarborg.

Rétt sem fiðrildi væru, flögruðu vísur Jóa í Stapa frá honum, kviknuðu á stundinni þegar tilefnið birtist og vísnasmiðurinn fann orð sem hæfðu. Jói flutti í Varmahlíð fyrir sextán árum, tók fljótt nokkurn þátt í starfi eldri borgara, söng með kórnum sem æfði í Ljósheimum í Borgarsveit, rifjaði upp gömul tengsl við sveitunga í Skagafirði, Sigvalda skólabróður á Húsavík, Hallgrím í Vopnafirði, Hvanneyringa vítt um land og vísnasmiði að iðja í túni Braga og hittust á árlegum samkomum víðs vegar um land frá 1989.

Stefán ekur allt um kring
eftir grjóti hörðu.
Þarna mætti hann Þingeying
þó er logn á jörðu.

Fyrri vísuna orti Jói um flutning Sigfúsar tenórs og félaga okkar í Álftagerði sem flutti heimili sitt fáeina kílómetra að Mánaþúfu í Varmahlíð þar sem fyrir var skáldið undir Reykjarhólnum og fagnaði gömlum Rökkurkórsfélaga og nágranna með nýrri vísu, smárri en hnittinni sköpun sem kætti hug í sveit og bæ.

Stefán í Tungunesi fékk næstu vísu, hann átti frambyggðan rússa og ók nokkrum Norðlendingum suður yfir Kjöl á landbúnaðarsýninguna á Selfossi 1978. Við höfðum tjöld og suðugræjur, prest og skáld og vísurnar flögruðu upp í tjaldhimininn og stöldruðu þar við meðan þær voru skráðar í kompur ritaranna.

Finn ég vakna dáð og dug
sem djúpum svefni varnar
meðan þokast mér í hug
morgunhendingarnar.

Á heimleiðinni norður Sprengisand var áð við Laugarfell:

Raular lindin rökkurblá
rísa í skyndi og falla
kynjamyndir ýmsar á
efstu tindum fjalla.

Jóa var flest vel gefið, eitt var listmálun, annað að tálga þó smíðar yrðu aðalverkefni hans um ævidagana. Hann málaði líka oft með orðum:

Loga ský í loftsins eldi
leitar skuggi í drögin lágu
þegar sól á sumarkveldi
sest á bak við fjöllin háu.

Skýjaslæðan gullnu letri grafin.
Glæsilegur birtist fjallahringur.
Tignarlegum töfraljóma vafin
Tindafjöllin, Hekla og Þríhyrningur.

Þessar vísur gerði hann upp í Landssveit þar sem hann átti vinum að fagna eins og svo víða um Suðurland sem og í borginni þangað sem hann flutti 1986, en hvarf frá búsýslu í Stapa og smíðum á húsum Norðlendinga, flutti smíðatól sín suður yfir heiðar til borgarinnar. Á þeim misserum kom hann til liðs í hestamannafélaginu Gusti í Kópavogi, hirti hross sín í þeirra húsum og kom stundum til þeirra á árshátíðar þó fluttur væri austur fyrir fjall. Stundum birtust þar aðeins vísur hans.

Hann orti á félagsfundi í Gusti:

Gusti vil ég gefa stöku.
Gustur kætir sprund og hal.
Gustur tendrar gleði á vöku.
Gustur fer um þennan sal.

Eins og flestir firðar sjá
í fríi og mestu önnum.
Aldrei brestur yndi hjá
okkur hestamönnum.

Við hestamenn í borginni átti Jón bóndi í Skollagróf stundum erindi og þar leiddi frú Lukka þessa höfðingja saman, sennilega var sá fundur einhvers staðar í hesthúsum borgarbúa fremur en niður á Lækjartorgi. Þessi kynni urðu til þess að Jói fór austur í sveitir, til Sigurðar og Fjólu í Skollagróf að byggja fjós og dvaldi meðal Sunnlendinga mest upp frá því þar til hann rak hross sín norður Sprengisand 2004 og settist að í Varmahlíð.

Og Jói fann vísnaefni í ferðinni:

Áfram ríð ég ótrauður
öllu hafna grandi
yndi er að vera áttræður
uppi á Sprengisandi.

Af æskuglóðum ennþá brenn
þó um mig napurt svelji.
Ég er raunar ungur enn
árin mörg þó telji.

Æskufjör í æðum leynist
enn má þungum huga lyfta.
Meðan andinn ungur reynist
árin litlu máli skipta.

Jóa búnaðist vel í Varmahlíð, skrapp til aðdrátta í Krókinn eða niður í verslunina á staðnum, vinir hans að norðan og sunnan lærðu að rata til hans á Norðurbrúnina, hann hafði litla íbúð í kjallara hjá þeim góðu hjónum Margréti og Stefáni söngstjóra, átti vin og nágranna í Gísla húsasmið Björnssyni, sem kom jafnan til hans í morgunsopa kl. 8 þegar hann var heima hjá sér í Varmahlíð.

Jói starfaði – eins og áður sagði - talsvert að félagslífi eftir að hann kom norður, tók þátt í kórsöng eldri borgara, kvað stundum vísur sínar og annarra á góðum stundum út í Glaumbæjarsafni, lagði skáldbróður Sigurði Hansen lið við byggingu Kakalaskála undir Glóðafeyki, sinnti ráðsmannsstörfum hjá læknishjónunum í Stokkhólma, gaf út ljóðabækur sínar, Axarsköft 2006 og Ný axarsköft 2011.

Nú yrkir Jói ekki fleiri vísur því hann lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki á þriðjudagsmorguninn 20. okt. - um sexleytið. Hjá honum sat sr. Halla Stefánsdóttir, en þau feðgin, Stefán söngstjóri og Gísli nágranni hans skiptust á að sitja hjá sjúkrabeði hans síðustu dagana.

En þennan sama morgun, kl. 6.04 vaknaði Gísli nágranni hans og vinur við létt bank á dyrnar, þrjú högg á hurðina eins og Jói var vanur að banka. Enginn sást við dyrnar en hringt var til hans, um hálfátta að nú þyrfti hann ekki að koma til að taka við að vaka yfir Jóa, því hann hefði látist um sexleytið.

Útför Jóhanns var gerð frá Löngumýrarkapellu laugard. 31. okt. og hann var jarðsettur í Víðimýrarkirkjugarði.

Að ósk hans var útförin í kyrrþey.

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið