Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Þriðjudagur, 23. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 15:57 0 0°C
Laxárdalsh. 15:57 0 0°C
Vatnsskarð 15:57 0 0°C
Þverárfjall 15:57 0 0°C
Kjalarnes 15:57 0 0°C
Hafnarfjall 15:57 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Stefán Sveinsson. Mynd: HAH
Stefán Sveinsson. Mynd: HAH
Pistlar | 04. nóvember 2021 - kl. 08:55
Sögukorn: Ánægjan mér aldrei hvarf
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

I

Að fara árla morguns í fjós og fjárhús, leysa hey, troða í poka, bera fram á garðann, sópa jötur, moka flór og stíur, vatna innistöðugripum, henda moðsalla í rakar sauðakrær eða fóðra fugl á fjárhúshlaði. Hér birtast verkefni dalabændanna og sauðamanna öld fram af öld. Þeir ungu og einhleypu fóru suður til róðra fram á daga Jónasar Illugasonar í Brattahlíð og fyrr á öldum sóttu Norðlendingar vestur undir Jökul til útróðra – en aflinn var löngum óviss, gæftir sömuleiðis og sjósóknin gat tekið vendingum á fáum árum eða áratugum.

Frásagnir af útgerð á Skaganum mikla, heimaskaga Húnvetninga og Skagfirðinga ná einnig langt aftur, s. s. til Hraknings-Erlendar á Holtastöðum f. 1749, landnámsmannsins Þorbjarnar Kólku, Björns á Auðólfsstöðum og smiðsins Klemensar Klemenssonar sem einnig kom utan frá Höfnum, eignaðist heimsætuna Ingibjörgu frá Stóradal og kirkjustaðinn Bólstaðarhlíð eftir daga sr. Björns. Valgerður Klemensdóttir, systir nýja Hlíðarbóndans, hafði verið seinni kona sr. Björns, þau barnlaus en dætur hans margar af fyrra hjónabandi, þ.e. Bólstaðarhlíðarættin, voru giftar prestum vítt um land.

Bátarnir smáu fluttu dýrmætan afla að landi en urðu leiksoppar Ægis og feigðarfleytur þegar stórviðri og hríðar gengu yfir héruð.

En vísnasmiðurinn og söguhetja þessa spjalls, Stefán Sveinsson, er tæpum þrjátíu árum yngri en vermaðurinn og sagnaþulurinn Jónas í Brattahlíð, fæddist fram á Efribyggð í Skagafirði, í Brekkukoti þann 16. jan. 1893, var tíu ára þegar hann missti föður sinn úr lungnabólgu og systkinahópurinn flutti þá vestur að Vatnshlíð með móður sinni.

Tveir bræður og tvær systur lifðu til fullorðinsára: Sölvi, tveim árum yngri en Stefán, varð síðar bóndi í Valagerði og systurnar Ingibjörg og Lilja Kristín sem voru eldri. Þessi fjögur komust upp af alls sjö börnum þessara hjóna, sem fluttu frá Brekkukoti að Álftagerði 1893 og húsbóndinn lést svo tíu árum seinna.

Ekkja hans, Þórunn Elísabet, hafði fengið slag nokkru fyrr og varð rúmföst upp frá því. Hún dvaldi hjá Þuríði systur sinni og Guðmundi manni hennar og síðar syni þeirra, Pétri í Vatnshlíð og Herdísi Grímsdóttur konu hans af Diðriksætt úr Árnesþingi. 

Félagi Stefáns frá vegavinnuárunum á Vatnsskarðinu 1940 - 46, Sigurjón Björnsson prófessor, skrifaði skemmtilega og ítarlega grein um Stefán og gleðisprottnar vísur hans. Hann segir:

„Hann var orðinn fullorðinn vel þegar hér var komið sögu og eitthvað var giktin farin að hrjá hann. En hann lét það ekki á sig bíta, en var allra manna glaðastur og fjörugastur. Oft var mannkvæmt í tjaldi Stefáns á síðkvöldum og um helgar og ekki fyrir að synja að tappi hrykki úr stút.“

„Og þannig liðu vegavinnusumrin. Við strákarnir komum á vorin eins og farfuglarnir og undum okkur sumarlangt og fyrr en varði var vegurinn kominn niður í byggð, hópurinn sundraður og sumarævintýrin endurminning ein . . .“

Nýja og lifandi lýsingu skrifar prófessorinn þegar Stefán birtist honum á efri árum sínum, fluttur suður til borgarinnar, kominn með fjölskyldu en er þá orðinn illa farinn af gikt og kölkun: 

„Rúmum hálfum öðrum áratug síðar rakst ég inn á fornbókasölu á horni Hverfisgötu og Snorrabrautar í Reykjavík. Þetta var lítil kompa og gífurlegir bókahlaðar hvarvetna. Ekki aðeins í hillum frá gólfi til lofts, heldur einnig í kössum, haugum og stöflum svo að varla varð fæti niður drepið. Þetta var sannarlega girnileg búð, margt að gramsa í og skoða, lykt af gömlum blöðum og neftóbaki.

Mitt í öllum þessum býsnum grillti í grátt höfuð. Hver skyldi það þá vera annar en Stefán minn, orðinn fornbóksali í Reykjavík. Er nú skemmst sagna að með okkur endurnýjuðust gömul kynni, sem treystust og urðu smám saman að vinarböndum. Um skeið mátti sá dagur heita mikill annadagur, ef ekki var tími til að staldra við á horninu hjá Stebba, fá korn í nefið, spjalla stundarkorn og líta yfir nokkrar skræður og handleika. Ýmsir eigulegir hlutir fluttust úr horni Stefáns yfir í mitt bókaskot og það var ekki allt dýru verði keypt. Fastur varð og sá siður að líta inn á Þorláksmessu og mynnast ögn við vasapela Stefáns. Þá komu stundum fleiri vinir og áttu góða stund.“

II

Bæirnir Vatnshlíð, Botnastaðir og Æsustaðir eru nágrannabæir í Bólstaðarhlíðarhreppi, svona 3-4 km milli þeirra en við þessa bæi tengdust ár og dagar Stefáns lengi vel eða fram til 1946.

Á fyrsttalda bænum – hjá frændfólkinu í Vatnshlíð – bauðst skjól fyrir fjölskylduna þegar systkinin misstu föður sinn.

Að Botnastöðum flutti Stefán um þrítugt þegar Ingibjörg frænka hans varð ekkja og fór ekki þaðan fyrr en yngsta barn hennar varð fermt.

Til prestshjónanna á Æsustöðum réði Stefán sig 1935, ílentist þar í ellefu ár, eignaðist þar Huldu sína og þaðan fluttu nýju hjónin suður.

Þessum bæjum eða samkomunum í sveitinni tengdust vísur hans, s.s. á réttareyrinni innst í Svartárdal:

Á Stafnsréttareyri við stöndum í dag
og strákarnir eru með galsa.
Og heyra má hvarvetna ljóð eða lag
og líka nýmóðins valsa.

Þar á eyrinni gæti landastakan hans líka átt heimkynni og þó – kannski ætti frekar að skáka henni inn í tjald upp á Víðivörðuási/Vatnsskarði, t.d. í húmi ágústkvölds:

Ef ég ykkur satt skal segja
þó sennilegra væri hitt
Í dag er enginn yngismeyja
á við landaglasið mitt.

Kvenfélag var í Bólstaðarhlíðarhreppi „eins og vera ber“ segir sögumaðurinn Sigurjón: „Hjá þeim félagsskap kom Stefán mikið við sögu. Á kvenfélagsskemmtunum annaðist Stefán oft dyravörslu og vann konunum mörg vel þegin viðvik. Þá var það ekki síst metið, að stundum setti hann saman gamanbragi, sem farið var með á skemmtunum félagsins. Loks kom svo að því, að Stefán fékk „laun“ fyrir trúa og dygga þjónustu: hann var gerður að heiðursfélaga kvenfélagsins. Þótti það einsdæmi og varð frægt um sveitina.

Að sjálfsögðu greiddi Stefán fyrir sig með vísu:

Áður þótti ég gáskagjarn
í glaumi réttardagsins
en nú er ég orðinn besta barn
á brjóstum kvenfélagsins.

Ekki skal ég um það segja“ segir Sigurjón vinnufélagi Stefáns „hvort það var aldurinn eða inngangan í kvenfélagið sem olli því, að hugarfar Stefáns fór að breytast. En um fimmtugsaldurinn kvað hann“:

Áður fyrri ungar drósir
yndi vöktu í sálu minni.
Nú tek ég ást við tóbaksdósir
tíminn breytir hugsuninni.

Hjá Stefán gægðist líka heimspekin fram –  jafnframt galsanum sem löngum reyndist loða við vísur hans, hann dvelur í gluggasmárri stofu og skyggnist út um skjáinn:

Lífsins fennir ljóra á
ligg ég enn og stari
í mér brennur óljós þrá
eftir kvennafari.

Nýja stéttin vegamannanna þar á Vatnsskarðinu naut orðsnilldar þessa lífsglaða hagyrðings:

Vekjum hlátur, eyðum enn
öllum gráti og trega.
Við erum kátir vegamenn
og vinnum mátulega.

Það vita flestir vegamenn
að vín á best við sönginn.
Ég á nesti óeytt enn
þó aðra bresti föngin.

Og lausamenn í sveitinni komu og fóru, þó þeir heimagrónu færu hvergi fyrr en dauðinn kallaði þá:

Ég yrki ljóð fyrir enga borgun
illar fréttir berast enn
Guðný fór frá Gili í morgun
gráta flestir vegamenn.

Snjalla vísu orti Stefán um ást og vín, þessi algengustu yrkisefni allra tíma en úr huga skáldsins okkar hverfa samt ekki málaverkin sem sinna þarf hvern virkan dag – sumum hverjum alla daga ársins eins og mjöltum og matargerð tengdum þeim.

Ástin brýnir ungra þrótt 
en eldri svínin finna,
að eftir vín og vökunótt,
verður grínið minna.  

III

Um verkefni Stefáns á Botnastöðum skrifar Sigurjón félagi hans:

„Er Stefán hafði verið tvö ár í Vatnshlíð, andaðist Gunnar bóndi á Botnastöðum, þ. e. vorið 1924, frá miklum skuldum og þremur börnum í ómegð. Var þá ekkjan, frænka Stefáns, illa stödd, eins og nærri má geta. Þá reyndist Stefán betur en ekki því að hann tók Botnastaði á leigu, tók við búinu með þeim skuldum sem á hvíldu og forðaði heimilinu frá upplausn. Má vera, að hann hafi þá minnst þess er varð þegar faðir hans dó og hann sjálfur og systkini hans urðu að hrökklast burtu. Er skemmst af því að segja, að Stefán skildi ekki við frændfólk sitt á Botnastöðum fyrr en yngsta barnið var fermt.

Stóð hann fyrir búi þar í áratug. Ekki mun hann hafa reitt mikinn auð úr þeim garði, því að aleiga hans var 70 kindur, en frá drógust töluverðar skuldir. En þá er og þess að geta, að ég hygg að Stefán hafi aldrei lagt neitt sérstakt kapp á auðsöfnun.

Eftir þetta var Stefán eitt ár vinnumaður á Fjósum en árið 1935 réðst hann til séra Gunnars Árnasonar á Æsustöðum og konu hans Sigríðar Stefánsdóttur. Átti hann þar heimili til ársins 1946, er hann fluttist suður.“

Prestur segir: „Á þeirri krossmessu sem hann kom til mín – en þá var hann um fertugt, átti hann góðan hest sem honum var einkar kær og mjög til upplyftingar. Annars átti hann lítið annað nema allmikið af bókum – langt um meira en þá tíðkaðist á flestum heimilinum. Þessar bækur geymdi hann ekki niðri í læstu kofforti sem hann sat á – heldur í skáp nærri rúmi sínu. Og sjaldan átti hann svo skamma hvíldarstund að hann gripi ekki bók eða blað til lestrar – hvað þá að hann gengi svo til náða að kvöldi að hann læsi ekki áður.“

Og þessi trúi ráðsmaður sveitunga sinna og ættingja orti vísu um hestinn sinn þegar æviárin töldust 50:

Ánægjan mér aldrei hvarf
ást og gleði þjóna
en eftir fimmtíu ára starf
á ég bara hann Skjóna.

En á fimmtugsafmæli Stefáns, sem haldið var upp á heima á Æsustöðum í Langadal, eignaðist hann unga brúði, giftist Huldu Aradóttur, myndarkonu og uppfæddri þar í sveitinni þeirra. Þau eignuðust saman 23 ár og þrjú börn – og Stefán lagaði til afmælisvísuna sína:

Ánægjan mér aldrei hvarf
ást og gleði þjóna
eftir fimmtíu ára starf
á ég Huldu og Skjóna.

En Stefán var kvaldist af kölkun síðustu æviárin – og þó mun lengur – eins og Sigurjón prófessor nefnir í sögum sínum af vegagerðinni á Skarðinu og kátum verkamönnum þar á fimmta áratugnum.

Ljúka skal nú þessu sögukorni framan úr dölunum með alvöru- og bjartsýnisvísu þessa skáldmælta og raungóða bókamanns:

Þrautahrelling þyngir spor
þjakað ellin getur:
Um andans velli er eilíft vor
enginn fellivetur.

IV

Hann lá ekki í hveiti . . . kaflar úr útfararræða sr. Gunnars Árnasonar

Stefán Sveinsson fornbóksali 16.1.1893 – 17.7.1966

Ljóst er – þótt hér sé stiklað á stóru – að Stefán lá hvorki í hveiti í barnæsku né átti sérstaklega margar frjálsar stundir eftir að hann var fær um að gera nokkurt handarvik. – kafli úr útfararræðunni.

Himneski faðir!
Gef oss sjón út yfir hinn þrönga hring hversdagsins
og vissu þess að þó holdið sjálfu sér hverfi sýn
þó hismið vinni sér dánarlín
er lífið sannleikur, dauðinn draumur
og vér allir óhultir í þinni hendi. Amen

Í þeirri trú felum við þig góðum Guði. Hann láti þig nú fagna nýjum degi, sem ekki rennur að kvöldi – og launi þér trúmennsku þína ríkulega með þeim viðfangsefnum er verði þér til ævinlegs fagnaðar. Í Jesú nafni. Amen

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér.

Þarna er verið að tala um Guð, föður lífsins og herra dauðans.

Þetta – svo fagurt sem það er – hlýtur þó aðeins að vera dauf mynd af kærleika hans. Hversu miklu er hann ekki hverjum mannlegum hirði meiri.

Kristur hefur líka sagt það og sýnt.

Og hann fullyrðir að vér þurfum ekki að æðrast þótt moldin hverfi aftur til jarðarinnar – þó að andinn fari til Guðs, sem gaf hann.

Og að í húsi föðurins séu mörg híbýli og eflaust óendanlegt að læra, . .  að starfa, víðar dyr munu ljúkast upp – því finnst oss hér gott til þess að hugsa að:

Hin langa þraut er liðin
nú loksins hlaustu friðinn
og allt er orðið rótt
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.

Hann var einn af þeim – eins og vera ætti um oss öll – að hann var glaður yfir því að hann fékk að lifa.

Hitt má ekki heldur liggja í láginni – svo vel sem hann naut þess – að Stefán var sívakandi eljumaður og vel verki farinn.

Hann var því hinn mesti erfiðismaður en jafnframt gagnsmaður frá unga aldri og lengi framan af, a.m.k var það vegna ýmissa aðstæðna öðrum enn meiri hagnaður en honum sjálfum.

Á þeirri krossmessu sem hann kom til mín – en þá var hann um fertugt, átti hann góðan hest sem honum var einkar kær og mjög til upplyftingar. Annars átti hann lítið annað nema allmikið af bókum – langt um meira en þá tíðkaðist á flestum heimilinum. Þessar bækur geymdi hann ekki niðri í læstu kofforti sem hann sat á – heldur í skáp nærri rúmi sínu. Og sjaldan átti hann svo skamma hvíldarstund að hann gripi ekki bók eða blað til lestrar – hvað þá að hann gengi svo til náða að kvöldi að hann læsi ekki áður.

Hann var að vonum rótfastur í dölunum – á meðan það var

Ég er viss um að sólstafaóður Guðmundar Inga átti bergmál í huga hans:

Sólstafir glitra um sumardag.
Sælt er á grund og tindi.
Algróið tún og unnið flag
ilmar í sunnanvindi.
Kveður sig sjálft í ljóð og lag
landsins og starfans yndi.

Annir og fegurð augað sér
yfir er sólarbjarmi.
Léttklætt til vinnu fólkið fer
fölbrúnt á hálsi á armi.
Sumarsins gleði í svipnum er
sólstafir innst í barmi.

Þessa er vert að gæta, bæði þegar minnst er uppvaxtar hans – og hugsað til hins hvernig örlög hans réðust þegar frá leið.

Stefán Sveinsson var fæddur 16. janúar 1893 í Brekkukoti í Skagafirði. Fyrsta áratuginn naut hann ástríkis og skjóls foreldranna, hjónanna Sveins Sölvasonar og Þórunnar Elísabetar Stefánsdóttur, sem að vísu voru ekki rík af jarðneskum munum.

Á ellefta ári missti Stefán föður sinn. Fékk Sveinn lungnabólgu í læknisferð sem hann fór til hjálpar þessum syni sínum.

Leystist þá heimilið upp. Fór Stefán að Vatnshlíð á Vatnsskarði. Þar er opið fyrir næðingum og snjóþungt, erfið jörð. Um tvítugt var Stefán 1-2 ár í Valadal og get ég þess sakir þess að ég veit að til fárra var honum hlýrra um dagana en Guðríðar húsfreyju þar.

Þegar Stefán var liðlega þrítugur missti Ingibjörg Lárusdóttir, húsfreyja á Botnastöðum mann sinn. Voru þá börn þeirra hjóna – þrjú enn í ómegð. Skömmu síðar réðst Stefán til hennar og aðstoðaði hana uns börnin voru komin  upp.

Ljóst er – þótt hér sé stiklað á stóru – Stefán lá hvorki í hveiti í barnæsku né átti tiltölulega margar frjálsar stundir eftir að hann var fær um að gera nokkurt handarvik. En þótt hann væri alvörumaður þegar djúpt var grafið, var honum gefið mikið glaðlyndi. Hann hafði gjarnan tiltækt spaug og tók fúslega undir ef sungið var og kveðið.

En ég dylst þess ekki að mér fannst mest til um Stefán Sveinsson – undir lokin – síðustu æviárin. Hvernig hann þá bar þrautir sínar – og háði helstríðið að endingu.

Enginn veit hve mikið hann tók út vegna kölkunarinnar, sem gerði þennan fjallfæra? mann næstum gangvana og píndi hann dag og nótt – meira og minna.

Og þó minntist hann ekki – svo að ég muni – á það óspurður og greip fljótt til gamanmála ef að því var vikið.

Í meir en ár barðist hann síðan við dauðann harðri baráttu – og æðrulausari veit ég engan hafa staðið á þeim hólmi.

Hann vissi fullvel hvað framundan var, en talaði til hinstu stundar um daginn og veginn líkt og ekkert væri í veði.

Stephan G. kvað:

Sé hvíldin uppynging þess krafts sem ég á
og kvaddur til starfa ég verð:
Þér, morgunn, er óhætt að ætla mér þá
ögn örðugri og jafnlengri ferð.  

. . .  sárt að fá ekki ungur að njóta neinnar skólavistar að ráði – og síðan um langa hríð oft aðeins að geta gripið niður í bækur, líkt og á hlaupum, en þann veg tókst honum samt að lesa talsverðan hluta þeirra bóka sem út komu árlega og verða því allkunnugur íslenskum ritum.

Þetta gerir það skiljanlegt að Stefáni Sveinssyni hugkvæmdist að gerast fornbóksali er hann komst hingað til Reykjavíkur. Kom hann furðu fljótt fyrir sig fótunum á þeim vettvangi. Varð á skömmum tíma vel að sér í þessum málum og eignaðist marga góða viðskiptavini. Hve mikið hann bar frá borði efnalega veit ég ekki.

En mér fannst hann þarna vera á eins réttri hillu og unnt var í hinum nýja og gerólíka umhverfi. Og hann undi hlut sínum vel – eins og komið var.

1943 kvæntist Stefán eftirlifandi konu sinni, Huldu Aradóttur, eignuðust þau þrjú börn sem enn eru í uppvexti.

Áður hafði Stefán – þá ungur maður – eignast son sem búsettur er á Siglufirði.

Þau hjónin lögðust bæði á þá sveifina að halda uppi heimilinu og búa sem best að börnum sínum og allir kunnugir vita með hvílíkum ágætum þeim hjónum hefur tekist að ala önn fyrir börnunum. Og hitt hversu annasamt hefur verið á heimilinu. Þar hefur í fjölda  ára verið matsala og má segja að straumur fólks hafi farið þar út og inn um dyrnar daglega.

Og staðið hefur húsið opið venslamönnum, fornum vinum og mörgum nauðleitarmönnum árið um kring.

Þessa verður að geta hér – því að þess munu nú margir minnast og vilja þakka af heilum hug hinum glaðsinna húsbónda ógleymanlega góða kynningu.

Og jafnframt því sem ég þakka honum, sem kveður í nafni ástvina hans og okkar allra vina hans og kunningja, þakka ég í nafni hans, allt sem honum var gert til gleði um ævina – því ég veit að það vildi hann ekki láta gleymast:

Allt til hins hinsta skal hugur vor nýr
Og heimur og sannleikur fagur.

Ég hef sagt hér sem satt er, að aldrei var troðin slóð fyrir Stefán Sveinsson. Hann varð að brjóta hana sjálfur. Og þótt hann gengi ekki að jafnaði á grjóti, var oftast einhver arða í skónum hans. En hann lét það lítt á sig fá. Hann hugsaði eins og Bergmann:

Látum aldrei þjakast þótt
þrengist stundarhagur.
Eftir kalda klakanótt
kemur sólardagur.

Stundum kastaði hann sjálfur  að gamni fram stökum í líkum anda.

En þar er fyrst og mest – já langmest að þakka konu hans – yfir umönnun hennar ná ekki orð – og ekki verður hún vegin – jafnvel á gullvog endurgjaldsins . . .

Þar hefur sannast – að þar sem er hjartarúm er og húsrúm.

V

Meira efni:

Dagsetur – brot
Mig varðar það litlu hvort langt eða skammt
mér leiðin sé ákvörðuð hér.
En hitt er mér kappsmál, að komast það samt
sem kraftar og tíð leyfa mér.
Sé hvíldin uppynging þess krafts sem ég á
Og kvaddur til starfa ég verði:
Þér, morgunn, er óhætt að ætla mér þá
ögn örðugri og jafnlengri ferð. Stephan G. Stephansson

Stafnsréttarbragur

1.

Á Stafnsréttareyri við stöndum í dag
og strákarnir eru með galsa.
Og heyra má hvarvetna ljóð eða lag
og líka nýmóðins valsa.
:/: Hæ, hó, hæ, hó, ansi er það gaman :/:
Þetta er eina vísan í ár
sem við Aðalbjörn kveðjum saman.

2.

Við tökum úr flöskunum tappa í kvöld
og tæplega lögin það banna.
Því þetta hefur viðgengist öld fram af öld
og eldri og reyndari manna.
:/: Hæ, hó, hæ, hó, ansi er það gaman :/:
Það skeður ekki oftar í ár
að við drekkum og kveðum saman.

3.

Við lifum hér saman á líðandi stund
og létt er nú sorgum að gleyma.
Ég lengi hef þráð þennan fagnaðarfund
og fúllyndið varð eftir heima.
:/: Hæ, hó, hæ, hó, ansi er það gaman :/:
Við klingjum og kveðum vort lag
og klárunum hleypum saman.

4.

Ef þjakar oss sultur og þorsti er til meins
er þyrpst heim að veitingatjaldi
því útlát og viðmót og allt er þar eins
það ei verður borgað með gjaldi.
:/: Hæ, hó, hæ, hó, ansi er það gaman :/:
Þau gefa okkur bæði gleði og yl
Gilshjónin bæði saman.

5.

Lifið þið heilir ég lengi ekki brag
ykkur lukkan og farsældin geymi.
En hér vil ég eiga minn afmælisdag
meðan er ég í þessum heimi.
:/: Hæ, hó, hæ, hó, ansi er það gaman :/:
Ef kvenfólkið kæmi á minn fund
ég kyssti þær allar saman.

Heimildir:
Líkræður Gunnars Árnasonar prests á Æsustöðum, ljósrit á Héraðsskjalasafni A-Hún.
Sigurjón Björnsson: Af Stefáni Sveinssyni í Skagfirðingabók nr. 8 árið 1977.
Nokkrar vísur Stefáns Sveinssonar: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=17863
Giftingahringar komu í pósti: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17129

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið