Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 20. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 13:38 0 0°C
Laxárdalsh. 13:38 0 0°C
Vatnsskarð 13:38 0 0°C
Þverárfjall 13:38 0 0°C
Kjalarnes 13:38 0 0°C
Hafnarfjall 13:38 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Sigurðar Gíslasonar
Bréf Sigurðar Gíslasonar
Pistlar | 04. júní 2022 - kl. 08:04
Þættir úr sögu sveitar: Harmleikur fátæks fólks á Hnjúkum
25. þáttur. Eftir Jón Torfason

Veturinn 1791-1792 var harður og jarðlaust á einmánuði. Á vori þessu hratt hungrið og vesöldin ungum hjónum á Hnjúkum, Gísla Gíslasyni og Sigríði Gunnlaugsdóttur, út í megna ógæfu. Mánudaginn 30. apríl hröktust þangað heim tveir sauðir utan af Skaga, eign Jóns Sveinssonar á Keldulandi ─ Jón þessi bjó síðar lengi á Strjúgi og gjarna kenndur við þann bæ ─ þannig að sauðirnir höfðu hörfað ótrúlega langa leið undan veðrinu. Gísli tók sig til, skar sauðina báða og matbjó. Sigríður kona hans var ekki heima þann dag en þegar hún kom heim gekk hún í það með honum að koma kjötinu í lóg.

Upp komst um sauðastuldinn og var réttur settur 21. maí 1792 á Torfalæk, þingstað sveitarinnar.[1] Bú Sigríðar og Gísla var skrifað upp og fannst þar fátt matarkyns, nema nokkrir bitar af horfallinni rollu og svo sauðaketið. Sækjandi í málinu var hreppstjórinn Erlendur Guðmundsson á Torfalæk og krafðist þyngstu refsingar, en verjandi var hinn hreppstjórinn, Sigurður Gíslason á Reykjum, sem taldi þeim hjónum ýmislegt til afsökunar og mælti með mildari refsingu. Þeir Erlendur og Sigurður voru meðal efnuðustu bændanna í hreppnum.

Svo fór að Ísleifur Einarsson sýslumaður dæmdi eftir ströngustu lagagreinum sem finna mátti, Gísla í ævilangt fangelsi í Kaupmannahöfn en Sigríði í 6 mánaða fangelsisvist. Málið fór til lögþingdóms á Þingvöllum um sumarið og þar var dómurinn linaður í eins árs fangavist fyrir Gísla en eins mánaðar fangelsi Sigríði til handa og sátu þau bæði af sér í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu í Reykjavík þar sem tugthúsið var þá. Skaðabætur fyrir sauðina voru 4 ríkisdalir. Ítarlega er sagt frá þessu máli í ritgerð Hannesar Péturssonar: Gleymd kona og geldsauðir tveir í bókinni: Misskipt er manna láni I. Reykjavík 1982. Einnig má benda á ritgerð eftir Eirík Hermannsson: Vonskuverk og misgjörningar, sem er aðgengileg á fróðlegum vef: skemman.is.[2]

Sigríður Gunnlaugsdóttir, oft kölluð Sigga skálda, var fædd 1761, ættuð úr Skagafirði. Gísli Gíslason mun ættaður vestan úr sýslu, hann býr með eða er ráðsmaður hjá Rannveigu Helgadóttur á Skinnastöðum árið 1786 og 1787 en hverfur úr hreppnum næstu tvö ár. Sumarið 1789 setjast þau Gísli og Sigríður að á Hnjúkum, gifta sig 18. ágúst og sama dag fæðist elsta dóttir þeirra Elín og er skírð daginn eftir. Séra Rafn Jónsson á Hjaltabakka (Rafn rauði) átti Hnjúka, eða öllu heldur Kristín Eggertsdóttir kona hans, þannig að hann hefur þess vegna haft töluverð afskipti af nýju hjónunum þar og ekki síður sem prestur þeirra því næstu ár lagðist Sigríður nokkuð reglulega á sæng og það þurfti að skíra börnin. Hún ól soninn Sigurð 1790 og síðan tvær dætur, Ingibjörgu 1791 og Sigríði 1792. Þau Gísli munu ekki hafa átt fleiri börn.

Gísli afplánaði sína vist í tugthúsinu og þau Sigríður höfðu síðan ofan af fyrir sér næstu árin í vinnumennsku eða hokruðu á hinum aumustu kotum í Skagafirði, í átthögum Sigríðar. Þau virðast ekki hafa getað haft börn sín hjá sér nema Sigríði, yngstu dótturina, og Elínu að einhverju leyti eftir að hún var farin að stálpast. Þannig eru Sigríður og Elín hjá þeim í manntalinu 1801, þau þá til heimilis á Réttarbakka í Glaumbæjarsókn. Aldrei síðan voru þau Gísli og Sigríður kennd við óráðvendni en orðsporið fylgdi þeim alla ævi. Þau skildu samlag sitt á endanum, óljóst hvenær, en árið 1835 er Sigríður til dæmis sögð „barnfóstra“ á Auðnum í Sæmundarhlíð og hún er enn á lífi í manntalinu 1845. Gísli var fæddur 1759 og jarðsettur 31. júlí 1834 í Reynistaðarsókn (dáinn einhverjum dögum áður).

Sigríður var vel skáldmælt og eru til nokkrar stökur eftir hana. Gísli Konráðsson yrkir hins vegar svo um hana:[3]

Kvæða þróttar kerskni hér
kölluð vön að sálda,
Gunnlaugsdóttir orðfim er,
önnur Sigga skálda.

Þá er að víkja að afdrifum barna hjónanna sem voru fjögur að tölu. Frá fornu fari voru í gildi reglur um ábyrgð ættingja á munaðarleysingjum og sjúkum ættingjum, sem ekki voru formlega afnumdar fyrr en 1834 að mestu leyti. Aðstoð sem þau Sigríður og Gísli fengu frá sínum nánustu mun hafa verið takmörkuð, þó getur verið að ættingjar í Skagafirði hafi stutt þau eitthvað í basli sínu með Sigríði, yngstu dótturina.

Ingibjörg Gísladóttir (1891-1857) er komin til föðurbróður síns, Jóns Gíslasonar (1761-1821) á Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1794, og elst þar upp, er fermd í Tjarnarkirkju 1807, þá 15 ára, og fer upp úr því í vistir. Hún er í húsvitjunarbókum jafnan sögð vera „bróðurdóttir bónda.“ Þótt það komi ekki glöggt fram í opinberum gögnum virðist hún hafa verið fósturbarn og að Jón á Illugastöðum hafi ekki tekið neitt meðlag með henni. A.m.k. greiðir Torfalækjarhreppur ekki með stúlkunni. Jón virðist hafa verið með fátækari bændunum í Kirkjuhvammshreppi þannig að honum hefði sjálfsagt ekki veitt af slíku meðlagi. Ingibjörg giftist síðar Guðmundi Guðmundssyni á Neðri-Þverá í Vesturhópi og eignaðist afkomendur.[4]

Tvö börnin lentu á Torfalækjarhreppi, þ.e. Elín og Sigurður. Elín Gísladóttir virðist hafa verið á Húnsstöðum frá 1793-1800, er þó komin í Hjaltabakkakot 1800-1801, en þá fer hún norður í Skagafjörð á vit foreldra sinna. Hún fermdist í Glaumbæjarkirkju 1803, er sögð „tornæm“ og sagt um lesturinn „minnir sig á,“ þ.e. hún hefur líklega stautað. Eftir það verða heimildir götóttar en líklegt er að hún hafi farið í vistir næsta áratuginn, annað hvort í Skagafirði eða Húnaþingi. Víst er að hún er skráð „vinnukind“ á Reykjum á Reykjabraut 1812 og þar deyr hún árið eftir, er þá talin 23 ára og bætt við: „Lá veik hér um 11 vikur af gulu meinlætum.“ Eins og nefnt hefur verið fyrr en mjög líklegt að „gula“ eða „gulumeinlæti“ sé vitnisburður um sullaveiki.

Örlagaþráður Sigríðar, yngstu dótturinnar, teygðist nokkrum árum lengur en Elínar. Hún mun hafa verið vinnukona sín fáu fullorðinsár, en lést 9. september 1822 á Stóra-Vatnsskarði, sögð 28 ára, „vinnukona gift“ og dáin úr „meinlætum.“ Skv. kirkjubók Glaumbæjar var Sigríður að vísu gift „en vegna fátæktar skilin við mann sinn.“[5] Segir ekki meira af henni.

Sigurður Gíslason er tveggja ára þegar hann lendir á sveitinni. Hann er fyrstu árin á Torfalæk og Hjaltabakka, síðan á Beinakeldu og í Köldukinn en eftir 1794 virðist hann vera alfarið á Torfalæk allt til 1802 þegar hann verður 13 ára. Hann vex sum sé upp í skjóli Erlendar bónda, þess sem var saksóknari í máli foreldra hans. Sigurður er væntanlega fermdur 1803 eða 1804 en það vantar í kirkjubækur Hjaltabakka frá þeim árum. Síðan er í raun lítið um hann vitað, en hann hefur væntanlega farið í vinnumennsku og séð fyrir sér sjálfur eftir ferminguna. Nafninu bregður fyrir í sóknarmannatali Tjarnar á Vatnsnesi 1810, en þá er Sigurður Gíslason vinnumaður á Krossanesi. Hann finnst hins vegar ekki í manntalinu 1816 þannig að líklega hefur hann ekki orðið langlífur. Ég hef leitað að þessu nafni í dánarskrám í vesturhluta Húnaþings og á Suðurnesjum, ef hann hefði farið í verið sem líklegt mætti telja, en ekki fundið hann dáinn.

Í sambandi við þjófnaðarmál óknyttapilts að nafni Jens Jensson, stundum kallaður Valinnglaðsson, bregður Sigurði stuttlega fyrir. Rannsóknin á stuldum Jens þessa varð langæ og teygðist í ýmsar áttir og verður á það drepið síðar.[6] M.a. var ýjað að því að Þórdís Illugadóttir, sem lengi hafði búið á Torfalæk í tvíbýli, hefði stolið heyi frá Guðrúnu Skúladóttur sambýliskonu sinni, eiginkonu Erlendar hreppstjóra. Nú var Sigurður kallaður til að vitna um hegðun og breytni Þórdísar þessarar og lagði þá fram eftirfarandi yfirlýsingu, sem er býsna vel skrifuð með hans eigin hendi að ætla má:[7]

Eftir mér auglýstri stefnu af 7. janúar 1812, að gefa minn vitnisburð um ráðvendi Þórdísar Illugadóttur, þann tíma ég var henni samtíða á Torfalæk, gef ég undirskrifaður hér með til vitundar, að þá ég fór frá Torfalæk var ég þrettán vetra og ei til altaris fyrr en tveim árum síðar[8] og þar fyrir ei vitnisbær, en þó til hlýðnis gef ég vitanlegt undir minn sáluhjálpareið, hefði ég verið viðurheftugur hann af að leggja, að ég aldrei sá né heyrði annað en nefnd Þórdís væri fróm og ráðvönd til munns og handa þann tíma ég á Torfalæk dvaldi henni samtíða, og þar ég eftir ofanskrifuðu þekki ei skyldu mína að mæta á Stóru-Giljá þann 10. þessa mánaðar í þessari[9] sök læt ég hér með duga. Til merkis mitt nafn, datum Krossanesi d. 7. janúar 1812.

Sigurður Gíslason

Framlagt og lesið fyrir extrarétti að Giljá þann 10. janúar 1812, markað litr. N, testerar S. Snorrason.[10]

Sigurður ritar þetta í Krossanesi en mætir ekki við réttarhaldið. Hann er ekki skráður til heimilis í Krossanesi þetta ár í húsvitjunarbókinni. Þarna er hann 21 árs gamall og er þetta síðasti vitnisburður um tilveru hans.

Þetta er allt saman óskaplega dapurlegt, augnabliks freisting Gísla bónda, að sálga tveimur sauðum í sæmilegum holdum, steypir honum, konu hans og börnum í botnlausa ógæfu. Börnin verða niðursetningar og þau hjón hrekjast af einu kotinu í annað eða eru í vinnumennsku og komast aldrei upp úr þeirri stöðu. Eina barnið sem öðlast það sem kalla má „eðlilegt líf“ og eignast afkomendur, er Ingibjörg sem „bjargaðist,“ ef svo má segja, í fóstur til föðurbróður síns.

Loks má líta á fjárhagshlið málsins. Það litla sem Sigríður og Gísli á Hnjúkum áttu var selt á uppboði fyrir um 30 rd. Skaðabætur fyrir sauðina voru 4 rd., en til viðbótar kom málskostnaður sem var um 20 rd. Torfalækjarhreppur gerði kröfu í búið vegna framfæris Elínar og Sigríðar og fékk í sinn hlut 6 rd., 66 sk. og var þar með öllu ráðstafað úr búi þeirra hjóna.[11] Það er athyglisvert að skoða framfærslukostnað systkinanna. Með Sigurði er greitt í 11 ár en 10 með Elínu. Styrkurinn er yfirleitt reiknaður í fiskum sem er ekki verri gjaldmiðill en hver annar. Meðlagið er svolítið misjafnt eftir árum en er oftast frá 192 fiskum upp í 240 fiska. Síðustu árin lækkar meðlagið með Elínu úr 240 fiskum árið 1799 í 200 fiska árið 1800 og í 54 fiska árið 1801, enda hefur hún þá verið farin að vinna fyrir sé að mestu leyti. Meðlagið með Sigurði þessi 11 ár var 2354 fiskar og með Elínu 2003 fiskar, samanlagt 4358 fiskar. Verðlag var býsna sveigjanlegt á þessum árum en reikna má með að 40 fiskar hafi lagt sig á 1 ríkisdal, þannig að með hæfilegri nálgun má ætla að heildarframlag Torfalækjarhrepps með þessum tveimur börnum hafi verið milli 110 og 120 ríkisdalir.

Sauðirnir voru metnir á 2 ríkisdali hvor þannig að framfærslukostaður þessara tveggja barna hefur jafnast á við verðgildi 60 sauða, líka hefði mátt kaupa part úr jörð fyrir þessa peninga. Það á vissulega að halda uppi aga í hernum, eins og góði dátinn Zveig sagði, og refsa fyrir afbrot en hér eins og oftar var refsingin ógnarlega þung miðað við brotið og kostnaðurinn lagðist ekki síður á samfélagið en brotamennina, að ekki sé talað um hinar mannlegu þjáningar hjónanna og barna þeirra sem voru að miklu leyti svipt möguleikum til að leita sér hamingjuríks lífs.


[1] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk. Dómabók 1788-1796, bls. 133-146. 
[2] Slóðin á grein Eiríks er þessi: https://skemman.is/handle/1946/24241.
[3] Hannes Pétursson: Gleymd kona og geldsauðir tveir. Misskipt er manna lána I. Reykjavík 1982.
[4] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga I, bls. 161.
[5] Eiríkur Hermannsson: Vonskuverk og misgjörningar. Ritgerð á skemman.is.
[6] Talsvert er um Jens þennan í bók Vilhelms Vilhelmssonar: Sjálfstætt fólk (Reykjavík 2017).
[7] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/2, örk 6 (dómsskjöl 1812). Réttarhaldið yfir Jens er í dómabók Húnavatnssýslu GA/5. Dómabók 1807-1812.
[8] Þ.e. hann hefur ekki verið fermdur þegar þetta var, hefur þá væntanlega fermst 15 ára.
[9] Verður helst lesið svo. Líka vantar eiginlega að botna setninguna.
[10] Þ.e. Sigurður Snorrason sýslumaður.
[11] Héraðsskjalasafn Austur-Húnvetninga. Hreppsbók Torfalækjarhrepps 1790-1834.

 

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið