Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 19. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:03 0 0°C
Laxárdalsh. 01:03 0 0°C
Vatnsskarð 01:03 0 0°C
Þverárfjall 01:03 0 0°C
Kjalarnes 01:03 0 0°C
Hafnarfjall 01:03 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bæjarstæðið á Hnjúkum
Bæjarstæðið á Hnjúkum
Pistlar | 17. júní 2022 - kl. 18:29
Þættir úr sögu sveitar: Fátækir dómarar
26. þáttur. Eftir Jón Torfason

Í síðasta þætti var sagt frá því að Gísli Gíslason á Hnjúkum hefði á hörðu vori stolið tveimur sauðum og hagnýtt sér kjötið. Réttað var yfir honum og Sigríði Gunnlaugsdóttur konu hans á Torfalæk 21. maí 1792. Sýslumaður stjórnaði yfirheyrslum og mótaði dóminn yfir þeim hjónum og ekki verður betur séð af rithöndinni í dómabók[1] sýslunnar en hann hafi líka fært dómabókina, þ.e. verið dómritari, þannig að hann var í margs konar hlutverki í þennan dag.

Sýslumaðurinn, Ísleifur[2] Einarsson (1765-1836), hafði lokið góðu lagaprófi við Kaupmannahafnarháskóla vorið 1790 og var þá þegar skipaður sýslumaður í Húnavatnssýslu en því embætti gegndi hann í 10 ár. Eftir það varð hann dómari við landsyfirréttinn og fékk orð fyrir að fara stíft eftir hinum harðasta lagabókstaf og dæma hart. Hann reyndist hins vegar röggsamur sýslumaður, virðist hafa haft góða reglu á embættisfærslu sinni og beitti sér talsvert fyrir að laga verslunina í héraðinu en á henni var margs konar ólag á þessum árum. Þarna er hann enn ungur maður, setur reyndar dómþingið á afmælisdaginn sinn, þegar hann varð 27 ára. Þess má geta að hann byggði hús, sem síðar hýsti yfirréttinn í Reykjavík, og hefur verið endurgert myndarlega eftir stórbruna árið 2007. Það er nr. 22 við Aðalstræti og er eitt af fáum húsum í Reykjavík sem heldur að mestu upprunalegu svipmóti á ytra byrði innan um groddalegu steinsteypukumbaldana sem hafa risið þar á síðari árum.

Í svona stórri sök, sauðaþjófnaði, þurfti fjölskipaðan dóm því, eins og segir í dómabókinni um hina göfugu sauðkind: „Engin skepna þarf hjá oss Íslendingum meiri helgi eða laga verndan en sauðkindin á mörkinni.“[3] Sýslumaður skipaði því 8 dánumenn úr sveitinni í dóm með sér.

Málið sjálft var að fullu upplýst, kjöt af sauðunum og húðir fannst á Hnjúkum og Gísli og Sigríður meðgengu greiðlega, svo í rauninni þurfti ekki annað að gera en ákvarða refsinguna. Til greina komu lagagreinar um þjófnað frá 1786 og frá 1789 en gerður var munur á þjófnaði á fénaði í haga og stórgripum, það kom þannig til álita hvort dæma ætti Gísla í árs fangelsi í tugthúsinu í Reykjavík eða ævilanga þrælkun í Kaupmannahöfn. Sækjandinn, sem var Erlendur Guðmundsson hreppstjóri á Torfalæk, taldi að verkið væri stórþjófnaður og krafðist ævilangs þrældóms yfir Gísla. Ísleifur sýslumaður var einnig á þeirri skoðun og mótaði dóminn með þeim hætti að Gísli „skal kagstrýkjast og erfiða í Kaupmannahafnar þrældómi sína lífstíð“ en Sigríður kona hans fyrir meðvitund og að hafa borðað af kjötinu „skal vinna í tugthúsinu á Arnarhóli 6 mánuði.“[4] Málinu var skotið til lögþingisréttar á alþingi þar sem hann var mildaður og skyldi Gísli sitja eitt ár í fangelsi í tugthúsinu en Sigríður einn mánuð. Var þar dæmt eftir hinni vægari lagagrein, að sauðastuldurinn hefði ekki verið stórgripaþjófnaður, og líka tekið tillit til fátækar hinna bjargþrota hjóna. Að sjálfsögðu fóru allar eigur þeirra síðan í skaðabætur fyrir sauðina og málskostnað, þannig að þau stóðu eftir örsnauð og áttu fyrir höndum auma ævi á lægsta þrepi þjóðfélagsins, eins og nefnt var í síðlasta þætti.

Við lestur á dómum frá þessum árum, frá átjándu öld og langt fram eftir þeirri nítjándu, fæst sú tilfinning að sýslumaðurinn, dómarinn, hafi ráðið mestu og mótað dómana eftir sínu höfði, þótt bændur í héraði hafi oft verið meðdómarar, og einnig bæði sækjendur í máli og verjendur sakborninga. Sýslumaðurinn var lærður maður, hafði lagagreinarna á takteinum, oft vel efnum búinn, vel klæddur og geislaði af valdi og hroka. Þótt stöku bændur ættu talsvert undir sér vegna auðs eða virðingar í samfélaginu þá voru þeir ómenntaðir, þ.e. ekki skólagengnir, og stóðu höllum fæti gagnvart valdi og lagaþekkingu sýslumannanna. Allur þorri bændanna stóð enn lakar, þeir voru fátækir leiguliðar, margir örsnauðir og þjakaðir af glímu við hungurvofuna, og átti það ekki síst við þorra bænda á þessum árum í kjölfar móðuharðindanna.

Það er rétt að virða fyrir sér nöfn þeirra manna sem Ísleifur sýslumaður kvaddi með sér í dóminn. Þeir voru Gísli Einarsson á Orrastöðum, Hannes Jónsson í Holti, Jakob Egilsson í Hamrakoti, Jón Árnason á Akri, Jón Gíslason á Húnsstöðum, Jón Sveinsson í Sauðanesi, Magnús Hálfdanarson í Holti og Þórður Helgason á Torfalæk. Enginn þessara manna átti af miklu að má ef metið er í þeim gæðum sem mölur og ryð fá grandað. Það mætti kannski segja að Magnús Hálfdánarson og Jón Gíslason hefðu átt eitthvað undir sér, ef miðað er við framtal þeirra til tíundar, sem gefur nokkra hugmynd um hlutfallslega efnalega afkomu manna, en á þeim mælikvarða voru Gísli Einarsson og Hannes Jónsson hins vegar einfaldlega öreigar, Þórður Helgason var orðinn aldraður og farinn að kröftum og Jakob Egilsson bjó við mjög örðugar heimilisaðstæður. Það vekur því athygli að frá því segir í dómabókinni, sem sýslumaður færði sjálfur, að þegar kom að því að fella dóminn reis upp ágreiningur með sýslumanni og sumum meðdómsmönnunum.

Skal fyrst rakið það sem Sigurður Gíslason hreppstjóri á Reykjum, sem var verjandi Hnjúkshjónanna, hafði fram að færa. Hann benti á að þau, „ekkert hafi getað fengið af mat keypt né lánað, hvorki í kaupstaðnum né sveitinni, ekki heldur sé við þá nýgjörðu uppskrift á búinu á Hnjúkum fundin nein lífsbjörg af matvælum nema 1 horkroppur og mjög lítt af spaði þau hafi átt, að þau hafi strax góðviljuglega meðkennt sína yfirsjón. Sigríði, konunni, færir hann sér í lagi það til afsökunar, að hún ekki hafi verið í verkinu heldur langt í burt í annarri sveit og þó að hún eftir á, [nær] hún fékk að vita manns síns illvirki, ekki hafi strax hlaupið með það til yfirvaldsins, vonar hann réttur[inn] sé svo nærgætinn að fella ekki harðan dóm yfir hana þar fyrir, heldur svo framt hún verði ei ...[5] fríkennd, þá dæmist upp á 1 eða 2 mánuði í tugthúsið.“[6] Síðan leggur hann til að Gísli sé ekki dæmdur í ævilanga refsivist eftir ströngustu lagagreininni, heldur í eins árs fangelsi. Sækjandinn, Erlendur, bendir þá m.a. á að Gísli hafi skorið báða sauðina en ekki aðeins annan, sem hefði komið að líku gagni fyrir þau hjón, þannig að ásetningur hans hafi verið alveg skýr og því skuli fara eftir þyngri lagagreininni.

Hér um segir í dómabókinni, eftir að ítrekað er að ekki sé vafi á um sökina, að um lagastafinn „er meir ágreiningur milli dómsmanna. Nokkrir af meðdómendum vilja fylgja þeirri mildu og allareiðu viðteknu meining, að reskript af 24. mars 1786 sé með forornding af 20. febrúar 1789 aldeilis upphafið, og að delinqventen Gísli eigi að dæmast eftir hennar 1 &, sérdeilis þar sá 4di sem hljóðar um qvalificeraðan þjófnað útþrykkilega tiltaki stórgrip.“[7] Þetta merkir með öðrum orðum að nokkrir dómaranna, fátæku bændurnir nágrannar Gísla og Sigríðar, hafa viljað dæma þau í þá mildustu refsingu sem völ var á, vísast hafa þeir sjálfur þetta vor ─ og höfðu á fyrri árum ─ fengið að kenna á viðlíka matarskorti, kulda og vesöld og kom Gísla til að skera sauðina.

Sýslumaður samþykkir ekki þetta sjónarmið, sem varla var von, en skrifar langt mál í dómabókina um illvirki Gísla og vitnar stýft í lagagreinar máli sínu til stuðnings og bætir svo við: „Á þetta fallast nú og hinir meðdómsmennirnir.“ Þ.e. hann hefur knúð meðdómsmenn sína til að fallast á sitt sjónarmið um hörðustu refsingu. Eins og framar var nefnt þá mildaði yfirrétturinn dóminn svo hann varð á endanum nálægt því sem meðdómararnir höfðu lagt til.

Því miður er þess ekki getið hvaða menn það voru, sem vildu fara mildari leiðina, aðeins sagt „nokkrir.“ Það þýðir þó að fleiri en einn hafa reynt að malda í móinn en engum getum skal leitt að því hvaða menn það voru. Þótt Ísleifur sýslumaður væri enn ungur að aldri mun hann hafa borið með sér sterkt valdsmannsfas og menn dirfðust að jafnaði ekki að andæfa honum. Erlendur hreppstjóri, sem mun hafa verið einna mestur valdamaður í hreppnum, fylgdi honum líka sem saksóknari í þessu máli.

Það sem er athyglisvert við þessa umræðu um strangan eða mildan dóm er að meðdómararnir, tötrum búnir bændur, skyldu yfirleitt áræða að andæfa sýslumanninum, með valdið og lagaþekkinguna. Þótt kannski væri ekki mikið mark tekið á sjónarmiðum þeirra á þeim vettvangi þá hlýtur maður að virða kjark þessara löngu horfinna sveitunga sinna, að einhverjir þeirra skyldu dirfast að standa þannig upp í hárinu á yfirvaldinu.[8]


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 133-147.
[2] Íslenskar æviskrár II, bls. 400-401.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 144.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 144.
[5] Eitt orð ólæsilegt.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 141-141.
[7] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 144.
[8] Nokkrar þingræður Ísleifs Einarssonar á manntalsþingum eru prentaðar í Nýjum félagsritum árið 1857 og er af þeim hægt að fá nokkra hugmynd um þjóðfélagslegar skoðanir hans. Hægt er að lesa þær á vefsíðunni „timarit.is.“ Slóðin er: https://timarit.is/page/4984233?iabr=on#page/n93/mode/2up/search/.
Meðfylgjandi mynd: Byggðasafn Skagfirðinga 2008. Fornleifaskráning Blönduósbæjar II Enni-Hnjúkar-Sölvabakki-Breiðavað. Bryndís Zoëga, Guðmundur St. Sigurðarson, Guðný Zoëga. Bæjarstæðið á Hnjúkum. Bærinn stóð fyrir miðri mynd þar sem birkitrén eru og lágur hóll er hægra megin þeirra, hugsanlega öskuhóll. Horft er til suðurs.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið