Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 25. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 18:15 0 0°C
Laxárdalsh. 18:15 0 0°C
Vatnsskarð 18:15 0 0°C
Þverárfjall 18:15 0 0°C
Kjalarnes 18:15 0 0°C
Hafnarfjall 18:15 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Sveins Halldórssonar
Bréf Sveins Halldórssonar
Pistlar | 03. júlí 2022 - kl. 08:37
Þættir úr sögu sveitar: Þröngt setið á Hnjúkum
27. þáttur. Eftir Jón Torfason

Ekki tók langan tíma að leiga Hnjúkajörðina á nýjan leik eftir að Gísli Gíslason og Sigga skálda hröktust þaðan vorið 1792. Umráðamaður jarðarinnar var séra Rafn Jónsson á Hjaltabakka en upphaflegur eða raunverulegur eigandi var kona hans, Kristín Eggertsdóttir ríka Þorsteinssonar í Sléttárdal, eða Stóradal, en hann var vel fjáreigandi.

Vorið 1792 gerðust leiguliðar á Hnjúkum ung hjón, sem urðu afar kynsæl í Húnaþingi, þau Guðmundur Sigurðsson (1762-15. apríl 1820) og Elín Helgadóttir (1765-6. október 1839) og var „sjáleg kona,“ að sögn.[1] Guðmundur var hálfbróðir Erlendar Guðmundssonar hreppstjóra á Torfalæk sem oft er nefndur á þessum blöðum.

Gísli Konráðsson segir Guðmund og Elínu hafa verið mesta þrifnaðarfólk og lýsir búháttum þeirra: „Svo var þeim börnum þeirra vel haldið til vinnu að hverju einu var þegar ætluð klára og hrífa, er þau voru sex og sjö vetra, og svo sveinunum orf og ljár og þó enn fyrri vanin við tóvinnu inni, þrifnað og sparnað, svo að allt slíkt þótti fágætt.“[2]

Elín og Guðmundur höfðu búið í Glaumbæ handan Blöndu litlu framar en móts við Hnjúka á árunum 1790-1792, þannig að ekki var flutt langt. Búskapurinn gekk þeim vel á Hnjúkum, þótt vísast hafi ekki verið mikill auður í búi fyrstu árin. Þau tíunda 6 og 7 hundruð árin 1792 og 1793, sem er í lægri kantinum, en 1794 er tíundin komin upp í 10 hundruð, sem er nálægt meðallagi, og smá hækkar í 15 hundruð árið 1800, en þá fluttu þau sig að Móbergi í Langadal þar sem þau bjuggu upp frá því. En árið 1800 hafa þau verið meðal efnaðri bænda í Torfalækjarhreppi ef marka má tíundarframtalið.

Árferði á síðustu árum 18. aldarinnar mátti teljast nokkuð gott þannig að með dugnaði sínum hafa þau hjón sýnilega komist bærilega af. Væntanlega hefur Guðmundur treyst mjög á vetrarbeit því túnið á Hnjúkum var lítið. Þannig var jörðunni lýst í jarðamati um miðja 19. öld og mun sú lýsing einnig eiga við aðstæður þegar Guðmundur og Elínu bjuggu þar:

Túnið greiðfært, liggur vel við, sæmilega grasgott og grasgefið, fóðrar rúmlega 2 kýr. Slægjur reytingslegar, heyslæmar, innan um bithaga en nærtækar, fremur votar. Sumarhagar nærtækir og nægilegir fyrir jarðarinnar peningshald, fremur léttir. Vetrarbeit einkum þrautseig og snapasöm, víðlend en hörgótt því landið er stórt en uppblásið víða. Fremur er hún kjarngóð. Laxveiði dálítil í Blöndu, borgar aðeins rúmlega fyrirhöfnina. Kolaviður fæst til dengslis.[3]

Þau Elín og Guðmundur áttu mörg börn og er til þeirra rakin svokölluð Móbergsætt sem er afar fjölmenn í Húnaþingi. Að Móbergi fluttu þau 1801 en þá komu hingað að Hnjúkum nýir ábúendur, Jón Björnsson (1762-10. janúar 1811) og Ragnheiður Jónsdóttir (f. 1765) og bjuggu hér á árunum 1801-1809. Strax verður breyting á búskapnum, trúlega hefur verið erfitt að jafnast á við fagmennsku Elínar og Guðmundar, því tíund á Hnjúkum hrapar niður í 4 hundruð og hélst á því róli öll ár þeirra Jóns og Ragnheiðar hér. Þau voru þannig í flokki þeirra bænda í hreppnum sem lægsta tíund greiddu. Það verður þó að hafa í huga að einmitt um aldamótin 1800 harðnaði veðurátta mjög norðanlands og mátti heita harðindatíð allt fram um 1820 þótt stöku ár væru ögn skárri. Má hér til dæmis taka lýsingu úr annál Hallgríms Jónssonar djákna um veturinn 1802 en þar segir:

Vetur frá nýári einhver hinn harðasti yfir allt land, sem menn til mundu, með snjóþyngslum, blotum og áfreðum svo tók fyrir jarðir, hvergi seinna en með þorra, víða fyrri. Frost voru og mjög mikil og hvergi sást hin minnsta vitund af jörð fyrir útigangspening utan í einstöku jarðsældaplássum, litlar snapir öðru hverju frá 30. mars og var vetur þessi harðari talinn en nokkur á umliðinni öld. Vorið var og vetrinum samboðið, með sífelldum stórköföldum, með frosti og hörðustu vetrarveðuráttu. Hafís kom fyrir jól og umkringdi Vestur-, Norður- og Austurland og fór ei burt fyrr en um höfuðdag.[4]

Til er ein búnaðarframtalsskýrsla frá búskaparárum þeirra Jóns og Ragnheiðar á Hnjúkum, frá árinu 1803. Þá eru sex manns á heimilinu en bústofninn er 2 kýr, 19 mylkar ær og 3 lömb og loks 3 tamin hross. Líkur þessu hefur bústofninn væntanlega verið næstu árin, það sem heyjaðist á túninu hefur dugað til að fóðra kýrnar en hárin af engjunum farið í þessar 20 kindur og hefur þó væntanlega jafnframt verið treyst á útiganginn.

Manntal var tekið á Hnjúkum haustið 1807. Þá var að vísu komin þangað önnur fjölskylda í tvíbýli sem verður brátt vikið að, en á heimili Jóns og Ragnheiðar eru skráðar fjórar manneskjur, dóttir þeirra Sólveig, 6 ára, og vinnukona, Margrét Illugadóttir, 31 árs. Næstu ár urðu tilfærslur á fólki á Hnjúkum en Margrét þessi var kyrr og átti síðan alla ævi sína heima á Hnjúkum.

Sólveig Jónsdóttir (11. ágúst 1801-21. desember 1856) Björnssonar var alla ævi vinnukona, seinast á Móbergi. Eina dóttur eignaðist hún í lausaleik, Önnu Maríu Hansdóttur/Ólafsdóttur, sem einnig gekk inn í vinnukonustéttina.

Þess var getið hér í upphafi að jörðin Hnjúkar var í eigu prestshjónanna á Hjaltabakka. Séra Rafn lést í janúar 1807 og nýr prestur, séra Halldór Ámundason, kom að staðnum um vorið. Prestsekkjur áttu rétt á svokölluðu „náðarári“ sem fólst í því að þær gátu setið á prestssetrinu næsta ár eftir lát maka síns. Einhverra hluta vegna hugðist frú Kristín Eggertsdóttir ekki gera það heldur áætlaði hún að flytja að eignarjörð sinni Hnjúkum með dóttur sinni og tengdasyni. Þá þurfti að rýma til og kom til álita að Jón og Ragnheiður flyttu burt.

Um þessar mundir var Hamrakot í eyði en sú jörð var í eigu Holtastaðakirkju. Erlendur Guðmundsson (Hraknings-Erlendur) bóndi á Holtastöðum hafði umráð jarðarinnar, seldi hana á leigu og lét afraksturinn renna til viðhalds kirkju sinnar. Árið 1806 hafði hann leigt jörðina Hannesi Hannessyni, sem þá bjó á Orrastöðum, síðar á Tindum, og var í miklum uppgangi, fjölgaði fé sínu og stefndi að því að koma upp sauðahjörð. Í vanda prestsekkjunnar komu forráðamenn sveitarinnar auga á þann möguleika að Jón og Ragnheiður flyttu í Hamrakot, sem var í raun í eyði þótt Hannes nytjaði landið. Þeir rituðu sýslumanni bréf þar sem málavextir voru reifaðir:[5]

Með því svo er ástatt, að prestsekkjan, mad. Kristín Eggertsdóttir, ekki virðist þar til að halda, þó hún vildi, sitt náðarár á Hjaltabakkastað og neyðist því til að rýma prestagarðinn fyrir þeim eftirkomandi presti, hvör helst sem verða kann, en hefur ekkert undanfæri nema til Hnjúka, sem tilheyra sterbúinu á Hjaltabakka, af því hennar sál. egtamanni, henni áður í þessu tilfelli til athvarfs fyrirhugaðir, en téðrar jarðar ábúandi Jón Björnsson í sömu kringumstæðum vegalaus, en getur ekki jarðnæðislaus af komist.[6] Þess vegna höfum við undirskrifaðir vinsamlega um beðið mr. Erlend Guðmundsson á Holtastöðum, umráðanda Hamrakots hér í hrepp, gjöra svo vel og byggja næstkomandi fardagaár jörðina Hamrakot nefndum bónda, Jóni Björnssyni á Hnjúkum, hvörju hann þverlega neitað hefur vegna undangengis loforðs við bóndann Hannes Hannesson á Orrastöðum, sem næst umliðið ár hefur með velnefnds Hamrakots húsbónda leyfi lagt téða jörð Hamrakot undir sitt bú. Í svo þröngum kringumstæðum og þar prestsekkjan á í sókninni, eftir lögunum, ábýlisjarðar að njóta, sem hún líka sjálf á fulla tölu til, biðjum vér yðar eðlaheit auðmjúkast afgjörandi úrskurðar og tillagna, að meirnefndur Jón Björnsson á Hnjúkum, vel búfær og fullveðja, fái í slíku nauðsynja tilfelli Hamrakot til ábúðar næstkomandi fardagaár, eður hvað lengur verða kann, með húsbóndans og hans góðu samkomulagi, báðum að skaðlausu Torfalækjarhrepp.

20. mars 1807,
Þorsteinn Steindórsson, Sveinn Halldórsson

Hér er komið upp áhugavert mál um réttlæti eða hvað sé skynsamlegt fyrir heildarhagsmuni sveitarinnar og hreppstjórarnir, Þorsteinn og Sveinn, tala fyrir ákveðinni lausn, sem þó ekki varð. Manni sýnist eftir á að hyggja að Hannes á Orrastöðum hefði getað þrengt að sér og eftirlátið Jóni Björnssyni Hamrakotið. En honum hafði verið lofuð jörðin og Erlendur á Holtastöðum vildi ekki ganga á bak þeirra orða sinna. Málið virðist þó hafa leyst, hvort sem það var til farsældar eða ekki, með því að Jón og Ragnheiður þrengdu að sér en Kristín prestsekkja flutti í Hnjúka með dóttur sína, tengdason og eitt barnabarn, þ.e. Önnu Maríu Rafnsdóttur, Jón Jónsson mann hennar og Sigurð Jónsson eins árs son þeirra. Þetta sambýli virðist hafa varað tvö ár en síðan flutti Kristín fram í Fjósa í Svartárdal til elstu dóttur sinnar Valgerðar Rafnsdóttur ljósmóður sem þar bjó. Þau Jón og Anna María skildu fáum árum síðar, en svo æxluðust mál að Sveinn Halldórsson, annar hreppstjóranna sem skrifar undir bréfið, flutti að Hnjúkum að þessu fólki öllu brott förnu, giftist Margréti Illugadóttur vinnukonu og bjó þar til dauðadags, en það bíður síðari tíma að gera nokkra grein fyrir ævi hans.


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 558.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 857.
[3] Jarðamat 1849-1850. Aðgengilegt á vefslóðinni „heimildir.is.“ Slóðin er: https://icdb.landsbokasafn.is/document/ICDB/Jar%C3%B0amat%201849-1850%20H%C3%BAnavatnss%C3%BDsla/.
[4] Annáll Hallgríms Jónssonar djákna. Handritasafn Landsbókasafns, J.S. 348 4to.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 7.
[6] Átt mun við að Jón hafi það stóran bústofn að hann gæti hvergi komist að í húsmennsku.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið