Úr Sauðadal í A-Hún.
Úr Sauðadal í A-Hún.
Pistlar | 02. nóvember 2015 - kl. 09:32
Stökuspjall - Rennur saman haf og himinn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Meðan þeygi þrýtur minn
þyrnum sleginn vegur
vil ég feginn vera þinn
vinur eiginlegur.

Stökuna orti Agnar Jónsson á Gnýstöðum dóttursonur Guðmundar Ketilsson og verður honum notadrjúgt fornt neitunarorð, þeygi sem geymir bæði stuðul og innrím. Afi hans á Illugastöðum á sér í dag aðdáendur sem vilja helst hampa vísunum í hverju stökuspjalli þó misblíð séu orðin sem hann safnar til vísnagerðar sinnar:

Björg er falleg, blíð og svinn.
Brúðar galla neinn ei finn.
Árni karlinn, skröpu skinn
skítardallur, kúkmontinn.

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja sagði skáldið fyrrum, kannski mátti kalla það yfirlæti, en raunsæi var það öðru fremur því hver leggur sinn skilning í orð og hendingar. Hann tengir saman í eitt orð feginsfót, en hvað er nytja stórabót? Hvað bærðist í þanka Guðmundar, andvaka í Illugastaðabaðstofunni?

Lífið titrar myrkri mót,
mig þó viti ei saka hót,
heldur strita á feginsfót
fram að nytja stórubót.

Agnar Jónsson fórst í róðri 1875, í gríðarlegu suðvestanveðri, var aðeins 27 ára gamall og hafði nýverið sett saman bú. Tíu árum fyrr tók Ægir skáldbróður hans 24 ára, Sigurð Bjarnason frá Katadal. Sigurður kvað:

Mörg eru kjörin mannanna.
Mörg er förin breytinga.
Mörg er vörin meinbrima.
Mörg er örin freistinga.

Unnusta Sigurðar, Helga frá Bergsstöðum, giftist ekki. Hún átti líka skáldaæð:

Langt er yfir sjó að sjá,
samt er lognið hvíta.
Aldrei má ég æginn blá
ógrátandi líta.

Eðvald á Stöpum er hálfri öld yngri en Agnar og ann Vatnsnesinu. Hann sendir glaðlega kveðju vestur yfir flóann, til vinar síns á Ströndum:

Þegar sólarroðans rönd
rís í morgunblænum,
blaka ég til þín heillahönd
hér frá Stapabænum.

Útþrána yrkir Eðvald um:

Úti á hafsins breiða barmi
brunar knörr í suðurátt,
órætt strikið út í bláinn,
öldur þó að rísi hátt,
bárur rísa, bárur falla,
bárur það sem augað sér,
rennur saman haf og himinn,
heimur lokast fyrir mér.

Af Vatnsnesingum var kominn Sigfús bókavörður og ritstjóri Blöndalsorðabókar en afi hans og nafni var prestur á Tjörn og sálufélagi Guðmundar Ketilssonar:

Ég hef farið um hálfan heiminn
og heyrið þið orðin mín.
Bókin er gagnlegri en gullið
og gleður meira en vín.

Vísað er til:
Agnar frá Illugastöðum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=6030
Guðmundur á Illugastöðum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=14957
Eðvald á Stöpum: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=15895
Sigurður Bjarnason frá Katadal: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=15236
Helga á Bergsstöðum: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=16256
Sigfús Blöndal: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=14994 
Þór Magnússon – FÍ Árbók 2015 Vestur-Húnavatnssýsla

Eldra stökuspjall:
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=4820&ut=1
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga