Pistlar | 03. janúar 2016 - kl. 20:29
Stökuspjall - Pamfílar lukkunnar
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Stundin deyr og dvínar burt
sem dropi í straumaniðinn.
Öll vor sæla er annaðhvurt
óséð – eða liðin.

Svo orti skáldið Einar Benediktsson einhverju sinni en pistil flutti Jón Kalman í útvarpið á nýársdag, greindi hlustendum frá töfrum áramóta, sagði frá blekkingunum, alræði markaðshyggjunnar inn í alla kima menningarinnar, hvernig sneytt var hjá skoðun eða djúpri hugsun þegar gerð var athugun á RUV og þar væri stefnan að taka magn fram yfir gæði. Andri Snær einfaldaði svo skýrsluna sem kennd er við Eyþór Arnalds:„Markmiðið er að framleiða sem flestar klukkustundir af innlendri dagskrá á sem fæstar starfsmannaeiningar.“ Jón Kalman ræddi frekar um hernaðinn gegn ríkisútvarpinu og segir:„Við eigum að gera sömu kröfur til rásar 1 og skáldskaparins“, en tengill á nýárspistil hans er hér neðan við stökuspjallið.

 Aldin ætt á Ísalandi kennir sig við Setberg á Snæfellsnesi og er frægastur hagyrðinga af þeirra ætt, Jón S. Bergmann, fæddur á Króksstöðum í Miðfirði en ól aldur sinn syðra. Sjómaður, lögreglumaður og skáld í Hafnarfirði fræðir Íslendingabókin. Eftir hann orti Valdi Kam:

Beina kenndi listaleið,
lag til enda kunni.
Orðin brenndu og það sveið
undan hendingunni. VKB

Fundvís þóttist ritari spjalls að grafa upp huggunarvísu Jóns en þá hina sömu setti hann í minningabækur skólafélaga sinna á unglingsárunum:

Þó að leiðin virðist vönd
vertu aldrei hryggur;
það er eins og hulin hönd
hjálpi er mest á liggur. JSB

Hringhend var haustvísa Jóns:

Blómin falla bleik í dá,
bylgjuhallir rjúka,
breiðist mjallarblæja á
bera fjallahnjúka. JSB

Í öðrum Bergmanni eiga Íslendingar mikinn rithöfund og góðan, Árna ritstjóra sem gaf út fyrir jólin bókina Eitt á ég samt og ritar þar ýmis vísdómsorð s. s.:„Hvað er betra en ástin gangi ekki fram  hjá dyrum þínum?“ Öldungur er hann orðinn þessi einarði rithöfundur og segist tæpast þora að segja neitt þegar „sá skæði prakkari Amor“ kemur til hjartnanna. En þeir afkomendur Steins biskups eru á heimavelli að raða stuðlum í hendingarnar:

Við lifum sem pamfílar lukkunnar
leirinn við hnoðum í krukkurnar
og bækur við skrifum
og í bókum við lifum
og sléttum á hvort öðru hrukkurnar.

Tilvísanir:
Einar Benediktsson: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26664&ut=1
Nýárspistill Jóns Kalman á RUV aðgengilegur til 31.3 http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/nyarspistill/20160101
Valdimar Kamillus Benónýsson: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=v0&ID=15241
Jón S. Bergmann: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=j0&ID=15321
Um Stein biskup: https://is.wikipedia.org/wiki/Steinn_J%C3%B3nsson
Árni Bergmann/Eitt á ég samt: http://www.forlagid.is/?tag=arni-bergmann

Eldra stökuspjall:
Blikar á dökkan sandinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12461                         
Svellar að skörum: http://www.huni.is/index.php?cid=12430
Mjallar fríða trafið: http://www.huni.is/index.php?cid=12398
Kalda vatnið kemur mér upp: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12381
Stjarnlaus nóttin: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12367
Rennur saman haf og himinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12328
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://www.huni.is/index.php?cid=12221
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Ingi Heiðmar Jónsson 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga