Pistlar | 13. janúar 2016 - kl. 19:03
Stökuspjall - Túngarður í Tungunesi
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Fjölnismenn hrærðust úti í Kaupmannahöfn en andi þeirra hrærðist á Íslandi og skáldið Jónas Hallgrímsson bar fram tillögu 25. ágúst 1838 í Hinu íslenska bókmenntafélagi að safna saman skýrslum fornum og nýjum. Það varð til þess að nefnd var kosin sem samdi bréf til presta með 70 spurningar sem var svo sent með vorskipunum. Og Jónas sendi fleiri kveðjur heim en með þrestinum góða í sonnettunni Ég bið að heilsa:

Vertu nú sæl! þótt sjónum mínum falin
sértu, ég alla daga minnist þín;
vertu nú sæl! því dagur fyllir dalinn,
dunandi fossinn kallar þig til sín;
hann breiðir fram af bergi hvítan skrúða,
bústaður þinn er svölum drifinn úða.

Hér fær feiman kveðju í Hulduljóðum Jónasar. En prestarnir svöruðu velflestir kalli Íslendinga utan frá Sjálandi og sr. Jón Þórðarson á Auðkúlu tvisvar og skrifar í seinna svari 1873:

Áhugi manna er fremur að lifna á jarðræktinni, sér í lagi á þúfnasléttun og hafa menn þá aðferð að skera ofan af grassvörðinn, róta svo um þúfunum með plógi, herfa síðan flagið og tyrfa svo yfir og er á flestum bæjum í hreppnum búið að slétta dálítið og á sumum margar dagsláttur svo í Sólheimum, Tungunesi og Tindum. Túngarður hefur hvergi verið hlaðinn nema í Tungunesi, að sunnanverðu við túnið, axlarhár þrepagarður, h.u.b. 60 faðmar. Vatnsveitingaskurðir hafa sums staðar verið grafnir, t.d. á Tindum, en skriðugarða þarf hvergi með. Félag er í hreppnum, þó meir af nafninu til, sem örvað hefur til jarðabóta.

Vestur á Vatnsnesi svarar skáldpresturinn í Tjarnarsókn, Ögmundur Sívertsen í janúar 1940 og lætur fylgja vísukorn um prestsetrið sem er fullkomlega laust við lof:

Tjörn er hjólás sá
und hveli norðurs

um hvern óveður
eilíf snúast!

Annan kveðskap er einnig að finna í svari prestsins, þar sem Guðmundur Ketilsson á Illugastöðum kvartar yfir húsbyggingum, sjá tilvísun.

Annar Fjölnismaður, málfræðingurinn Konráð Gíslason, átti stundum káta spretti á engjum Braga og margur hefur átt erindi að fæðingarstað hans, Löngumýri í Vallhólmi. Þar hefur lengi staðið menningarsetur. Konráð orti haustið 1833 þegar landar ytra biðu eftir Jóni Sigurðssyni við annan mann heiman af Íslandi og voru farnir að óttast um þá:

Á sjávarbotni sitja tveir
seggir í andarslitrum,
aldrei komast aftur þeir
upp úr hrognakytrum.

Sjávarbylgjur belja oft,
bragnar undan hljóða,
aldrei sjá þeir efra loft
ellegar ljósið góða.

Sr. Jón á Auðkúlu var afi frú Sigríðar Stefánsdóttur prestskonu á Æsustöðum og bróðursonur Jóns Árnasonar frá Hofi, þjóðsagnasafnara.

Í Tungunesi bjó upp úr miðri síðustu öld búnaðarfrömuðurinn Erlendur Pálmason, afi systkinanna Elísabetar á Gili og Sigurðar skólameistara í MA, sömuleiðis var Erlendur afi Klemensar í Hlíð og langalangafi Jóns á Stóra-Búrfelli.

Tilvísanir:
Hulduljóð: http://bragi.info/ljod.php?ID=3286 
Sóknarlýsingar um 1840: http://stikill.123.is/blog/2011/04/22/518441/
Sr. Ögmundur Sívertsen á Tjörn: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=25951
GKetilsson/Svokölluð raðabygging bæja- og baðstofugafl af þiljutré: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=25968
Konráð Gíslason: http://bragi.info/visur.php?VID=24293
Halldóra Bjarnadóttir segir frá JÁ frænda sínum: http://stikill.123.is/blog/yearmonth/2014/12/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga