Nöldrið | 13. mars 2017 - kl. 15:33
Marsnöldur

Aldrei hefði ég getað látið mér detta í hug öll þau ógrynni af pappír og plastumbúðum sem geta safnast saman á einu heimili í viku hverri. Þetta hefur orðið vel sýnilegra eftir að farið var að flokka ruslið í margar tunnur/poka. Á mínu heimili var sú ákvörðun tekin, þegar bláa pappírstunnan kom við hliðina á sorptunnunni síðasta sumar að hefja fyrir alvöru flokkun á öllu heimilissorpi. Nú eru það ekki bara áldósir og plastflöskur sem skilað er. Allur pappír og pappi fer í bláu tunnuna, járndósir og lok úr járni fara í sér poka og allt plast í sinn poka. Heimilisfólkið fær samviskubit ef það nennir ekki að þvo plastumbúðir sem eru með matarleyfum og laumar þeim í heimilissorpið. Alltaf er reynt að muna eftir fjölnota innkaupapokanum þegar farið er í búðina og styttist í að farið verði með taupoka, ef kaupa á ávexti eða grænmeti í lausu. Árangur þessarar vinnu sést vel á því að nú þarf ekki að fara út með heimilissorpið nema kannski einu sinni til tvisvar í viku miðað við að áður var ruslapokinn fullur á öðrum degi eftir að hann var tekinn í notkun. Ég veit að það er ekki bara á mínu heimili sem farið er að flokka ruslið samviskusamlega og því er dapurlegt að sjá alla plastnotkunina í verslununum. Þar er öllum matvælum pakkað í plast og stundum mörgum lögum af plasti. Ávextir og allskonar matvæli eru sett í plast- eða frauðbakka og svo plastað yfir. Væri t.d. ekki hægt að skipta út einnota þunnu plastpokunum og hafa pappírspoka í staðin? Þó held ég að enginn slái MS við þegar kemur að pökkun matvæla. Að ein plast skyrdolla sé með eitt állok og eitt plastlok og svo innpakkaða plastskeið í plastlokinu finnst mér bruðl og atlaga að lífríkinu sem okkur ber öllum að huga að, og hana nú.

Seint í febrúarmánuði sá ég pistil í Morgunblaðinu frá Jóni okkar Sigurðssyni fréttaritara Moggans, þar sem hann segir frá bæjarlífinu á Blönduósi. Hann segir okkur frá væntanlegri opnun fiskbúðar í bænum sem er sannarlega tilhlökkunarefni og eftir því sem best er vitað verður fyrsta fiskbúð sem hér hefur verið starfrækt. Þá hefur Jón áhyggjur af grágæsinni Blöndu sem merkt var hér í fyrrasumar með gervihnattasendi og engin merki koma lengur frá. Það er skiljanlegt að Jón óttist um afdrif gæsarinnar, jafn áhugasamur og hann hefur löngum verið um þessa bæjarfugla okkar og notað þær sem ljósmyndafyrirsætur árum saman.

Í þessum pistli sínum í Mogganum segir Jón frá því að enn sé unnið í að fá hingað gagnaver. Ég er ekki einn um að finnast sem verið sé að vekja upp gamlan draug að vera enn og aftur að tala um gagnaver.  Sem betur fer eru ráðamenn héraðsins farnir að hlífa okkur við að verða að atlægi með því að ræða um fyrirhugað álver við Hafursstaði.

Jón fagnar stækkun Hótel Blönduóss og í stað Ljónsins á vesturbakkanum er nú komið Retró og svo er væntanlegt 100 herbergj hótel við Félagsheimilið en félagsheimilið sem slíkt á að haldast óbreytt. Nú þarf bara að finna góða aðferð til að stoppa ferðamennina sem bruna gegnum bæinn, því bráðlega verður hægt að bjóða þeim allar tegundir gistingar. Hvenær öll þessi gistirými eiga að vera tilbúin á svo eftir að koma í ljós.

Það virðist vera rífandi gangur hjá Vilko eftir að þeir komust í stærra og hentugra húsnæði og gaman að starfsemi sé komin í mjólkurstöðvarhúsið. Þá er ekki annað hægt en að óska starfsfólki Kjörbúðarinnar til hamingju með vel heppnaðar breytingar.

Senn kemur vorið, eftir þann mildasta vetur sem menn muna eftir. Fjölærar plöntur í beðum eru farnar að vaxta og arfinn hefur verið að í allan vetur.

Njótum lífsins og látum okkur líða vel.

Með kveðju Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga