Nöldrið | 09. apríl 2017 - kl. 20:24
Aprílnöldur

Ég veit að margir sakna „Gluggans“ sem kom vikulega út um árabil og flutti okkur auglýsingar um alla mögulega viðburði í samfélagi okkar. Vissulega þökkum við Skagfirðingum fyrir að senda okkur Sjónhornið sem er hið mesta þarfa rit og pósturinn skilar í hús á föstudögum. Ekki er þó allt í Sjónhorninu sem gott var að fletta upp í Gluggaum og á ég þá við t.d. símanúmer og opnunartíma ýmissa fyrirtækja í sýslunni. Og hvernig  á nú að finna út hvar seld eru hin ýmsu minningakort  sem ýmis góðgerðafélög selja til styrktar sinni starfsemi. En svona breytast tímarnir nýtt tekur við af því gamla og svo má alltaf deila um hvort breytingin sé til batnaðar.

Það voru orð í tíma töluð sem ég heyrði frá ungri konu í pistli um daginn þar sem hún gerir að umfjöllunarefni umgengni erlendra ferðamanna um landið okkar. Henni fannst nóg komið af tillitsleysinu þegar sagt var frá erlendum ferðamanni sem skeit á hlaðið við bóndabæ í Fljótshlíðinni. Við hér um slóðir höfum sem betur fer ekki þurft að kjálst við ámóta vanda og víða er orðin staðreynd á fjölmennustu ferðastöðunum og svo auðvitað það viðvarandi vandamál í miðbæ höfuðborgarinnar um helgar þar sem drukkið fólk bregður sér í næsta garð og gerir þarfir sínar. Ég er sammála konunni sem samdi þessa grein að þetta er ólíðandi framkoma við landið og íbúa þess og það er  hreinasti viðbjóður að vilji fólk setjast við nestisborð sem víða eru við þjóðveginn, bregðist ekki að mannaskítur sé í sjónmáli.

Maður spyr sig hversu lengi þeir sem stýra þessu landi ætli að sitja og gera ekki neitt nema skipa enn eina nefndina  sem gerir heldur ekki neitt og á meðan breyta ferðamennirnir Íslandi í einn allsherjar skítahaug. Auðvitað á að koma upp klósettaðstöðu meðfram þjóðvegunum. Efla löggæslu sem gæti stuggað hrossaskoðunarfólkinu af vegunum áður en það er keyrt niður og svo á að sjálfsögðu að finna lausn á þessari endalausu umræðu um hvernig gjaldtöku eiga að taka upp og lausnin þarf að koma strax. Á meðan svo er ekki gefa ferðamenn skít í landið.

Eftir þennan fádæma veðurblíða vetur styttist í sumardaginn fyrsta sem ég held að allir landsmenn fagni. Fyrst skulum við samt njóta páskahátíðarinnar sem er að bresta á. Ég vona að allir njóti frídaganna sem framundan eru og troði sig út af gómsætum páskaeggjum.

Kveðja, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga