Framkvæmdir við hótelið á Blönduósi. Kýraugun farin. Ljósm: Einar Logi Vignisson.
Framkvæmdir við hótelið á Blönduósi. Kýraugun farin. Ljósm: Einar Logi Vignisson.
Fréttir | 20. apríl 2017 - kl. 12:49
Framkvæmdagleði á Blönduósi

Í skýrslu sveitarstjóra Blönduósbæjar á sveitarstjórnarfundi 11. apríl síðastliðinni er sagt frá framkvæmdum á svæðinu, m.a. að unnið sé við lagfæringa og breytingar á hótelinu á Blönduósi og að nýir eigendur Retró, að Blöndubyggð 9, séu að vinna að úrbótum hjá sér. Þá hafi Aðalgata 8 verið seld til nýrra eigenda sem ætli sér að nýta hana í ferðaþjónustu.

Fram kemur í skýrslunni að mikil og lífleg sala hafi verið á fasteignum á Blönduósi síðustu vikur og að  margar eignir hafi verið seldar. „Er það afar jákvætt að mikill áhugi sé fyrir eigum hér og eru nokkrir aðilar að leita að húsum“, segir í skýrslunni. Einnig er nefnt að verið sé að ljúka breytingum á pósthúsinu og að stefnt sé að því að starfsemin flyti aftur þangað inn um miðjan maí, sem og að miklar framkvæmdir standi yfir við veiðihúsið Ásgarð við Laxá á Ásum þar sem verið sé að tvöfalda stærð hússins.

Viðhaldsvinnu lokið í Íþróttamiðstöðinni
Fram kemur í skýrslunni að lokið sé vinnu við viðhald í Íþróttamiðstöðinni en verið var að endurflísaleggja bakka vaðlaugarinnar og mála kvennaklefann. Fram kemur að skoðað hafi verið að koma hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla, sem Orkusalan gaf bæjarfélaginu, upp við gafl Íþróttahússins. Í skýrslunni segir að það sé einföld aðgerð þar sem við frágang lóðarinnar hafi verið sett rör inní kjallara sundlaugarinnar úr brunni við húsgaflinn. „Með þessari tengingu værum við að setja okkur enn grænni markmið en ekki má gleyma því að við byggingu sundlaugarinnar var ákveðið að nota ekki hefðbundið klórkerfi til sótthreinsunar og fórum í eigin framleiðslu úr salti á klórgasi og rekum þar með eitt umhverfisvænasta sundlaugarmannvirki á Íslandi sem hefur hlotið verðskuldaða athygli,“ segir í skýrslunni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga