Pistlar | 16. maí 2017 - kl. 14:04
Tækifæri til góðrar menntunar í heimabyggð
Eftir Ásdísi Ýr Arnardóttur

Nú er sá tími að grunnskólanemendur og foreldrar þeirra velta fyrir sér möguleikum sínum til náms í framhaldsskóla. Forinnritun nemenda í 10. bekk er lokið en innritunarferli er þó opið fram til 9. júní þar sem nemendur ýmist breyta eða staðfesta forinnritun. Við eflingu byggðar þurfum við að standa saman og nýta þau tækifæri sem okkur, og börnunum okkar bjóðast á svæðinu.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV) er góður skóli með flott námsframboð. Einn mælikvarðinn á gæði skóla sem notaður hefur verið er raðeinkunn nemenda fyrir og eftir framhaldsskóla. Við innritun í framhaldsskóla eru nemendur í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að jafnaði í 15. sæti á landsvísu en við útskrift  úr háskóla í 8. sæti. Að mati Viðskiptaráðs Íslands eru það merki um gæði skólastarfsins að raðeinkunn nemenda batnar umtalsvert á námsferlinum. Nemendaflóra skólans er fjölbreytt sem endurspeglar enn frekar styrk skólans til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.

FNV hefur svarað kröfum atvinnulífsins og sett á laggirnar ýmis konar starfstengt nám á borð við slátraraiðn, helgarnám í húsasmíði, hestabraut bæði til stúdentsprófs og til hestaliða og nýsköpunar- og tæknibraut, tveggja ára braut sem einnig er í boði til stúdentsprófs. Óháð námsvali þurfa allflestir nemendur að ljúka ákveðnum kjarnagreinum í íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku, lífsleikni, íþróttum, náttúrufræði og félagsvísindum. Þessum greinum má vel flestum ljúka í dreifnámi á Blönduósi. Dreifnám er ekki aðeins fyrir þá sem ætla sér að ljúka stúdentsprófi heldur hefur það reynst nemendum með ólíkar þarfir vel. Í dreifnámi er boðið upp á meira aðhald og meiri stuðning en gengur og gerist í framhaldsskólum.

Nemendur dreifnáms sækja daglegt nám í dreifnámssetur á Blönduósi, á 2. hæð Kjörbúðarinnar. Þar fer fram kennsla frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í rauntíma, notast er við nýjustu tækni við miðlun þekkingar. Um það bil 3 – 4 sinnum á önn sækja nemendur svo staðlotur á Sauðárkróki þar sem þeir búa á heimavist og taka þátt í skólalífinu í um vikutíma.

Dreifnám í A-Hún er verkefni styrkt og að hluta til rekið af sveitarfélögum í A-Hún. Auk þess að greiða almennan rekstarkostnað hafa sveitarfélögin hvert um sig gert ýmsar ráðstafanir til að auðvelda aðgengi sinna sveitunga að námi. Nemendur í dreifbýli Blönduóss hafa til að mynda haft aðgang að skólabílnum, Sveitarfélagið Skagaströnd hefur greitt nemendum akstursstyrk, nemendur úr Húnavatnshreppi hafa einnig haft aðgang að skólaakstri en þó í minna mæli. Allir nemendur sem sækja nám í Dreifnámi og búa utan póstnúmers 540 fá jöfunarstyrk LÍN (dreifbýlisstyrk). Nemendur í Dreifnámi greiða innritunargjald í FNV og dreifnámsgjald sem samtals eru rúmlega 42.000 kr á önn. Mun kostnaðarsamara er að sækja nám fjarri heimabyggð.

Kæru foreldrar, forráðamenn og tilvonandi útskriftarnemendur Blönduskóla, Húnvallaskóla og Höfðaskóla – stöndum saman og tökum upplýsta ákvörðun um innritun í framhaldsskóla. Lokainnritun lýkur 9. júní 2017.

Upplýsingar um brautaskipulag og heimavist er á heimasíðu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, www.fnv.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga