Heilbrigðisstofnun HSN á Blönduósi
Heilbrigðisstofnun HSN á Blönduósi
Fréttir | 18. maí 2017 - kl. 13:19
Fresta uppsögnum um viku

Sjúkraflutningamenn við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hafa frestað gildistöku uppsagna um eina viku. Boðað hefur verið til samningafundar í dag. Alls sögðu sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hjá HSN á Blönduósi upp störfum og átti uppsögnin að taka gildi á morgun.

Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í hádeginu þá nú hafa ákveðið að fresta aðgerðum að ósk yfirmanna hjá HSN. „Yfirmenn óskuðu fast eftir því, enda ekki um neina aðra að hlaupa í þessi störf. Þannig að þeir hafa samþykkt að fresta uppsögnum um eina viku."

Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að samninganefnd ríkisins hafi boðað til samningafundar í dag, en Valdimar segist ekki vita við hverju er að búast þar. „Nei ég í raun veit það ekki. Þessu átti náttúrulega öllu að vera lokið fyrir áramót, en ég er bjartsýnn á að það þokist eitthvað í rétta átt í dag."

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga