Ljósm: Róbert Daníel
Ljósm: Róbert Daníel
Pistlar | 04. júní 2017 - kl. 21:49
Stökuspjall: Við hlutum þeirra strit í arf
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Þakkarefni er pistill Auðuns Steins í Húnavökunni nýju. Hann rekur þar nokkuð sögu vefsíðunnar Húnahornið sem má gjarnan minna okkur á hve stórt hlutverk þessi fjölmiðill hefur í samfélagi Húnvetninga og nágranna þeirra. Fréttamenn við vefsíðuna eru þau hjónin Auðunn Steinn og Magdalena Berglind á Blönduósi en Ragnar Zophonías er ritstjórinn og býr syðra. Þarna birtist gott dæmi um að láta ekki fjarlægðir tefja félags- eða menningarstarf. Hefst nú stökuspjall vestur í Dölum:

Dásamlega Dalabyggð
drottning allra vestursveita.
Glaðnar hugur, gleymist hryggð
góðar stundir efla dyggð.
Vötnin fríð og fagurskyggð
fjöll, sem gömlum nöfnum heita.
Dásamlega Dalabyggð
drottning fríðra vestursveita. ÞS

Höfundur ljóðsins, Þórhildur Sveinsdóttir, valdi ljóðabók sinni frumlegt heiti, Sól rann í hlíð, en Einar Kristjánsson fyrrum skólastjóri á Laugum í Sælingsdal skrifar inngang að ljóðum hennar og vitnar þar til frásagnar Þórhildar:„Oft heyrði ég Vilborgu móður mína segja frá bernskuárum þeirra systkina á Eiríksstöðum. Ljúft var henni að minnast glaðra stunda á æskuheimilinu, en þar var oft margt um manninn að þeirra tíðar hætti. Glaðværð ríkti á heimilinu og gestakomur voru tíðar. Þá var enn við lýði förufólk og átti það sem aðrir góðu að mæta. Mikið var sungið. Ólafur var mikill söng- og kvæðamaður, en svo var um þau fleiri Eyvindastaðasystkinin.“

Lítil staka gáska gædd
greiddi margan vanda strax
þó hún væri hversdagsklædd
komin beint frá önnum dags. ÞS

Einar skólastjóri lýsir aðstæðum fyrir fáeinum mannsöldrum og spyr hvort lífsgleðin væri þá skarðari en sú er við nú þekkjum. Einar segir:

„Í baðstofunni, við beitaryfirstöðu, á hestbaki, við árina eða orfið var ort og kveðið, sungið og sögur sagðar.  . . . Snjöllustu hagyrðingarnir náðu landsprófi þeirra tíma í fleygri stöku, þulu eða ljóði. Hins er vert að geta, að margir voru þeir sem þráðu hærra flug en vængir getunnar leyfðu. Fátæktin varð mörgum fjötur um fót, þegar leita skyldi aukinnar þekkingar. Enginn veit tölu þeirra, sem bókstaflega urðu úti á þeirri helgöngu, sem lífið varð mörgum fróðleiksleitandi ungmennum þeirra tíma. . . . Minni og athyglisgáfa náðu gífurlegri þjálfun. Að langstærstum hluta kom þessi varðveisla í hlut íslenskrar alþýðu. Þórhildur Sveinsdóttir er góður fulltrúi þessa fólks.“ Skammt var frá foreldrahúsum Þórhildar til ömmu á Eiríksstöðum:

Lýsir gull úr heimahögum.
Hljómar rödd frá liðnum dögum
brot úr gömlum sögum. –
Gott var að koma að ömmu hnjám
læðast þangað létt á tám.
Oft á stokkinn eg mér tyllti
eftirvænting hugann fyllti.
Þarna hlaut eg nokkurt nám. ÞS

Sölvi á Löngumýri, langafi Þórhildar var orðlagður hagyrðingur og nokkuð níðskældinn:

Þó að skrápist húð á hal
og hrundir glápi víða.
Eina drápu ég yrkja skal
um þann kápusíða.

Sá kápusíði var Ólafur frá Eyvindarstöðum, biðill dóttur hans Helgu Sölvadóttur. Önnur kersknisvísa um tengdasoninn hefur geymst:

Ástarloppinn ástarbör
oft í skoppar bónorðsför.
Hans er snoppan heldur rör
hefur topp á efri vör.

Síðasta ljóðið í bók Þórhildar yrkir hún um heimahéraðið og kallar Húnaþing, í fimmtu vísu finnum við sanna setningu í lokahendingu hjá höfundi sem verður yfirskrift þessa spjalls:

Já, fornar slóðir frægðir geyma
þó fátt sé rætt um klausturstarf.
Því helgir menn hér handrit skráðu.
Við hlutum þeirra strit í arf.

Við sem höfum starfað með Sögufélaginu Húnvetningi, hljótum oftar er ekki að hugsa til forvera okkar, fræðimannanna: Bjarna, Gunnars, Magnúsar, Páls Kolka læknis og margra fleiri sem hafa haldið uppi starfi Sögufélagsins og mig langar að bæta við nöfnum Elínborgar kennara Jónsdóttur, Gísla á Hofi og Péturs Ólasonar í Miðhúsum sem var við stjórnvölinn þegar Skjalasafn Austur-Húnvetninga þáði vísnasafnið góða af Sigurði frá Selhaga.

Í nýkomnu Húnavökuriti er birt dagbók Magnúsar frá Syðrahóli. Þar segir af Reykjavíkurferð hans 1939. Hann var þá fimmtugur og hafði ekki farið áður til borgarinnar. Góður fengur er að þessari ferðasögu og mergjuðum mannlýsingum sem Magnús hefur uppi í norðurferðinni. Þá var hópurinn hríðarfastur í Fornahvammi og „mundi hvergi verra veður en þar“ segir fræðimaðurinn glettnislega.                 

Tilvísanir:
Þórhildur frá Hóli/Eiríksstöðum http://stikill.123.is/blog/2017/05/17/765237/
Þórhildur Sveinsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5371
Gísli Ólafsson frá Eiríksst. móðurbróðir ÞS: http://stikill.123.is/blog/2012/05/27/615595/   
Sölvi Sölvason Syðri-Löngumýri: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=15788  
Gunnar prestur skrifar um Magnús á Syðrahóli og verk hans: http://stikill.123.is/blog/record/505883/

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga