Ljósm: FB/Prjónagleði 2017/Róbert Daníel
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017/Róbert Daníel
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017/Róbert Daníel
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017/Róbert Daníel
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017
Ljósm: FB/Prjónagleði 2017
Fréttir | Pistlar | 14. júní 2017 - kl. 10:41
Að lokinni Prjónagleði 2017
Frá undirbúningshópnum

Prjónagleðin 2017 var haldin um helgina á Blönduósi í blíðskapar veðri. Þó að vindur og smá kul væri þá voru allir brosandi glaðir og ánægðir. Tæplega 70 skráðu sig á námskeið og fyrirlestra sem öll gerðu góða lukku enda er lögð gríðarleg áhersla á að fá hingað færustu kennara og fyrirlesara.

Kennarar leggja metnað sinn í að vera með stutta og skýra framsetningu svo allir geti lært sem mest á þeim þremur tímum sem eru til umráða. Einn erlendann kennara fengum við en hún hefur komið á báðar hátíðarnar. Anne Eunson er frá Hjaltlandseyjum en hún er hraðasta prjónakona sem heyrst hefur af hér á landi. Hún hefur gengið svo langt í prjóni að hún prjónaði girðingu í kring um garðinn sinn með blúnduprjóni! Spurning er með húnvetnska bændur að taka það upp?

Hörðustu prjónakonur lærðu eitthvað nýtt á hverju námskeiðinu á eftir öðru og fóru glaðar og reynslunni ríkari heim í lok helgarinnar.

Fyrirlestrar
Fyrirlesturinn "Dætur mínar skulu allar fá að læra að skrifa“, saga Kvennaskólans á Blönduósi 1879-1978" sem Iðunn Vignisdóttir, sagnfræðingur flutti hlaut verðskuldaða athygli þeirra sem heyrðu. Það sama má segja um merkilegan fyrirlestur Ásdísar Jóelsdóttur lektors um upphaf íslensku lopapeysunnar en hún vann rannsóknarverkefni um efnið á vegum Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, Hönnunarsafns Íslands og safnsins að Gljúfrasteini. Nýtt var að þessu sinni að bæta hekli við hátíðina en Tinna Þórudóttir Þorvaldar  er sú sem hefur haft veg og vanda að því að gera hekl að þjóðarsporti í hannyrðum. Hún flutti „prjónagraff“ bæði til Íslands og Danmerkur á sínum tíma. Hennar fyrirlestur fjallaði um þau áhrif sem Havana hefur haft á sköpun hennar í hekli.

Salurinn
Opið var inn á sölubása og veitingarsölu og myndaðist skemmtileg stemming þar. Alls 19 aðilar mættu með vörur sínar og listmuni. Einnig voru sýnd vinnubrögð og deild úr reynsla til allra sem áhuga höfðu á, beint úr básunum. Gerður var góður rómur af þeim vörum og því fólki sem var í básunum og má segja að þarna hafi verið saman komin þverskurður af íslensku prjóni og vörum tengdum prjóni.

Það nýnæmi var tekið upp núna en það var að hafa fræðsluhorn fyrir þá sem keypt höfðu sér armband og var þónokkur aðsókn í það. Fengnir voru flinkir reynsluboltar og þeir deildu kunnáttu sinni í uþb hálftíma og fólk gat komið og lært og notið í sófahorninu.

„Flytjanlegt textílhótel“
Fyrir utan spennandi námskeið og fyrirlestra var haldin prjónahönnunarkeppni sem tengdist verkefni sem Textílsetrið er þátttakandi að ásamt Fanø í Danmörku og Orkanger í Noregi. Verkefnið kallast „Færanlegt textílhótel“ og hafa þessi þrjár prjónahátíðir hlotið styrk frá Norræna menningarsjóðnum til að vinna undirbúningsvinnu fyrir hótelið. Þrír arkitektar frá arkitektastofunni Norrøn mættu á svæðið og kynntu verkefnið. Þessi arkitektastofa er margverðlaunuð fyrir nákvæma rannsókn á samfélagi og menningu þeirra í nærumhverfi þeirra verkefna sem þeir eru að vinna að, sem þeir nýta síðan í hönnunina. Þeim var það mjög mikilvægt, að sögn, að hafa komið, upplifað stemminguna, heimsótt námskeiðin, skoðað þær hugmyndir sem komu í samkeppninni og svo ekki sé talað um að þeir lærðu að fitja upp á, prjóna og fella af! Þeir sögðu að það væri allt önnur útkoma að upplifa þetta sjálfir en að lesa og teikna við borðið í Kaupmannahöfn. Sigrún Indriðadóttir á Stórhól í Skagafirði vann keppnina en allt tóku 12 manns þátt. Hennar tillaga þótt listræn, spennandi áferðir og hún sýndi grunnhráefni okkar sem er ullin á einstakan hátt. Þeir fóru með allar tillögurnar með til að nýta í hönnuninni. Síðar fara þeir á hinar hátíðirnar bæði í Noregi og Danmörku.

„On our own time“
Prjónagjörningurinn fór fram seinni partinn á laugardeginum. Kerstin Lindstrøm er sænskur listamaður sem dvelur í textíllistamiðstöðinni á Blönduósi. Hún hóf þetta verkefni fyrir allmörgum árum í samvinnu við alþjóðlegan félagsskap sem kallast Gavstrik en félagar þess prjónuðu sinn hvern rauða bútinn sem síðar var settur saman í Færeyjum.

Hugmyndin fæddist eftir að hún hafði setið lengi við tölvu en þá uppgötvaði hún að lítið lægi eftir hana og hugsaði þá um tímann og hvernig við verjum honum. Í framhaldi af því hugsaði hún að prjón er eins og klukka, hver lykkja eins og sekunda og prjón skilur alltaf eitthvað eftir sig. Prjónagjörningurinn hefur að auki farið til Hjaltlandseyja, Kanada, Parísar og Svíþjóðar. Hvert land hefur sinn lit.

Prjónagjörningurinn á Blönduósi fór fram í Fagrahvammi við Blöndu og þrátt fyrir golu naut fólk sín í þessu fagra umhverfi. Fólkið stillir sér upp í hring utan um prjónlesið. Þegar merki er gefið eru prjónarnir teknir upp en teygja festir þá saman. Þegar búið er að fjarlægja teygjurnar er byrjað að prjóna. Hver og einn heldur í annan endann á hringprjón og prjónlesið gengur frá vinstri til hægri eins og um leið minnir það á sekundurnar sem tifa.

Á meðan á gjörningurinn er í gangi áttu þátttakendur að íhuga um tímann og hvernig við nýtum hann og njóta. Einnig áttu þeir að huga að hvaða þýðingu svartur litur hefur fyrir þá en litir Íslands voru þrír mismunandi svartir litir sem minntu á hraun og nokkrar dokkur af dökkrauðu sem minntu á eldgos. Ístex studdi verkefnið með léttlopa. Ekki var laust við að gamli keppnisandinn træði sér í sálir þátttakenda þrátt fyrir fyrirmæli um að dvelja við og njóta, enda náðist að prjóna jafnmikið og Kanada og Færeyjar 😊.

Hringurinn myndar síðan svið sem eitthvert annað listform nýtir. Að þessu sinni komu snillingarnir Skarphéðinn Einarsson á trompet og Benedikt Blöndal á hljómborð og spiluðu létta og skemmtilega músik, sem góður rómur var gerður að. Var þetta einstök upplifun.

Undirbúningshópurinn þakkar fyrir sig og sjáumst að ári.

Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Prjónagleðinnar.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga