Nöldrið | 16. júní 2017 - kl. 09:40
Júní nöldur

Það hefur heldur betur fjölgað í bænum um síðustu helgi og enn fleiri verða í bænum um komandi helgi. Lopakallarnir eru mættir til sumardvalar og ekki allir frýnilegir. Nokkrar prjónakonur bæjarins hafa prjónað kalla og kellingar og allskonar skraut sem þær setja á ljósastaurana eins og undanfarin sumur. Þetta framtak vekur mikla athygli hjá ferðamönnum og gleður bæði þá og heimafólk. Þær voru einbeittar á svipinn með nálina að vopni eitt kvöldið í vikunni við að festa upp skrautið þrátt fyrir 4 stiga hita og rok og athygli vakti hversu margar erlendar konur sem hér eru við listsköpun í Textílsetrinu taka þátt í þessu verki og virðast hafa gaman af og láta ekki íslenska „sumarveðrið“ skjóta sér skelk í bringu þó  margar hverjar komi frá suðlægum löndum. Ég þakka þetta frábæra framtak sem vonandi er komið til að vera og ég veit að ferðamenn mynda mikið þessar prjónuðu fígúrur á staurunum, þó þær hafi ekki náð Blönduóskirkju að vinsældum hvað það snertir.

Ég eins og landsmenn flestir hef fylgst með hamaganginum í kringum komu verslunarkeðjunnar Costco hingað til lands. Það er kannski ekki skrítið að fólk flykkist í verslun sem selur margt af vörum sínum á helmingi lægra verði en við höfum mátt greiða fyrir sambærilega vöru. Við öfum látið okkur hafa það að búa við verslunareinokun árum saman þar sem engin samkeppni hefur liðist og álagning bæði á matvöru og fatnað hefur verið svívirðilega. Það hefur verið skondið að lesa umsagnir fólks um verslunina á netinu. Einn sagði að það væri lykt af eplunum eins og var í gamla daga og í 500 gr. öskju af jarðarberjum hefði ekki verið eitt einasta ber farið að mygla og askjan kostað eins og 50 gr. askja í öðrum búðum. Annar sagði að klósettpappírinn í Costco væri eins og silki miðað við þann sem hann væri vanur úr Bónus sem væri eins og sandpappír. En hvað sem segja má um vöruúrval og verð í Costco verð ég að segja að mér finnst  vinir okkar á höfuðborgarsvæðinu alltaf detta í nesjamennskuna þegar ný verslun er opnuð á höfuðborgarsvæðinu. Hver man ekki eftir næturlöngum biðröðum til að kaupa kleinuhringi? eða íþróttaskó í sérstökum lit? eða lætin vegna Bauhaus, sem ég veit ekki hver verslar í núna? já eða þegar landinn fór eins og engisprettufaraldur um Lindex á fyrsta sólarhring og kláraði lagerinn? Það verður fyrirkvíðanlegt þegar H&M opnar í haust. Vona að enginn slasist. Var einhver að tala um sveitamennsku í landsbyggðaliðinu sem fer kannski í rólegheitum í Costco í næstu suðurferð. Ég er að minnsta kosti kominn með aðgangskort.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Júní hálfnaður, komið að sautjánda júní og Smábæjarleikjunum. Prjónagleðin nýbúin með fjölmennum prjónagjörningi í Fagrahvammi og áður en við vitum af er brostin á Húnavaka. Vonandi verður hún fjölbreytt og fjölmenn í ár. Ég óska öllum sem þessar línur lesa gleðilegrar Húnavöku og að sumarið verði ljúft fyrir menn og dýr og gróður.

Með sumarkveðju Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga