Fréttir | 23. júní 2017 - kl. 06:35
Afmælisveisla í Líflandi

Laugardaginn 24. júní ætlar Lífland að fagna 100 ára afmæli í öllum verslunum sínum milli klukkan 12 og 15, þar á meðal í versluninni á Blönduósi. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, gos og afmælisköku ásamt skemmtun fyrir börnin. Þá verður boðið upp á spennandi afmælistilboð. Allir eru velkomnir á þennan fögnuð og óska forsvarsmenn fyrirtækisins eftir að sjá sem flesta.

Lífland tók til starfa árið 1917 og hét þá Mjólkurfélag Reykjavíkur. Félagið var stofnað af bændum í Reykjavík og nærsveitum til að annast vinnslu og dreifingu mjólkur í Reykjavík. Jafnframt því hóf félagið að útvega bændum rekstrarvörur til búskapar. Félagið byggði mjólkurstöð sem upphaflega var til húsa við Lindargötu í Reykjavík. Í kjölfar lagasetningar um vinnslu og dreifingu mjólkur árið 1935, varð Mjólkursamsalan einráð um dreifingu og vinnslu mjólkur á höfuðborgarsvæðinu.

Mjólkurfélag Reykjavíkur jók þá smá saman viðskipti með hvers konar rekstrarvörur fyrir bændur, svo sem kjarnfóður, sem félagið hóf síðar framleiðslu á. Á starfstíma sínum hefur Mjólkurfélagið einnig stundað ýmsa aðra framleiðslu svo sem völsun á þakjárni, framleiðslu á gaddavír og vinkilstaurum svo eitthvað sé nefnt.

Fyrirtækið hefur tekið breytigum í áranna rás en nafni þess var breytt í Líflandi árið 2005. Verslanir Líflands eru nú orðnar fimm talsins og eru í Reykjavík, Borgarnesi, Blönduósi, Akureyri og á Hvolsvelli. Lífland rekur tvær verksmiðjur, á Grundartanga fóðurverksmiðju og í Korngörðum í Reykjavík er eina hveitimylla landsins þar sem Lífland framleiðir Kornax hveiti.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga