Fréttir | Pistlar | 29. júní 2017 - kl. 12:44
Landsmót STÍ 24.-25. júní
Frá mótanefnd Markviss

Landsmót Skotíþróttasambandsins (STÍ) í leirdúfuskotfimi fór fram á svæði skotfélagsins Markviss um síðastliðna helgi. Þetta var fimmta landsmótið á yfirstandandi keppnistímabili sem hófst um mánaðamót apríl maí. Mæting var með ágætum en 18 keppendur frá 5 skotfélögum tóku þátt í mótinu. Veðrið á laugardeginum var aðeins að stríða okkur en N-A strekkingur og kuldi var allan keppnisdaginn og báru skor þess glögglega merki. Keppni í kvennaflokki lauk á laugardeginum og varð Helga Jóhannsdóttir úr Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar hlutskörpust. Í öðru sæti hafnaði Snjólaug M. Jónsdóttir úr Markviss og Dagný H. Hinriksdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur (SR) í því þriðja. Í fjórða og fimmta sæti urðu svo þær Þórey Inga Helgadóttir og Eva Ósk Skaftadóttir báðar úr SR. Aðeins eitt lið var í liðakeppni í kvennaflokki  lið SR og luku þær keppni aðeins 4 stigum frá gildandi Íslandsmeti.

Á sunnudeginum hélt keppni í karlaflokki áfram og höfðu veðurguðirnir heldur tekið sig á og buðu upp á sól og blíðu, keppendum og mótshöldurum til mikillar ánægju.

Að loknum fimm umferðum var Hákon Þór Svavarsson úr Skotfélagi Suðurlands efstur með 113 stig af 125 mögulegum. Á eftir honum komu norðanmennirnir Guðlaugur Bragi Magnússon og Grétar Mar Axelsson úr Skotfélagi Akureyrar með 112 og 111 stig, aðrir inn í úrslit voru Hörður Sigurðsson, Aðalsteinn Svavarsson og Jakob Þór Leifsson allir úr Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Í úrslitum varð Hákon Þór svo hlutskarpastur eftir harða keppni við Hörð Sigurðsson sem hafnaði í öðru sæti, þriðji varð svo Grétar Mar.

Skotfélagið Markviss átti fimm keppendur á mótinu í fjórum flokkum og stóðu þeir sig vel.

Daníel Logi Heiðarsson tók þátt í sínu fyrsta STÍ móti í unglingaflokk og lauk keppni á góðu skori. Sighvatur S. Steindórsson og Höskuldur B. Erlingsson kepptu í Öldungaflokki þar sem Höskuldur hafði betur, en Sighvatur lauk ekki keppni sökum axlarmeiðsla. Brynjar Þór Guðmundsson keppti í 1 flokk karla og hafnaði þar í sjötta sæti og Snjólaug M.Jónsdóttir varð önnur í 1 flokk kvenna og í öðru sæti í kvennakeppninni eins og áður sagði.

Næstu mót eru SIH-OPEN sem er alþjóðlegt mót í Hafnarfirði um næstu helgi og svo Norðurlandsmeistaramótið NLM-OPEN á Akureyri helgina 8-9 júlí.

Að lokum viljum við minna á opinn dag á skotsvæðinu laugardaginn 15 júlí (Húnavaka) þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri til að kynnast starfsemi félagsins og þeim greinum sem félagsmenn leggja stund á.

F.h. Mótanefndar Markviss
Guðmann Jónasson
Jón Brynjar Kristjánsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga