Guðmann og Snjólaug
Guðmann og Snjólaug
Keppendur á Norðurlandsmótinu
Keppendur á Norðurlandsmótinu
Frá Sumarmóti SA
Frá Sumarmóti SA
Ásgeir, Halldór og Snjólaug
Ásgeir, Halldór og Snjólaug
Frá Sporting, Snjólaug í aksjón
Frá Sporting, Snjólaug í aksjón
Fréttir | 14. júlí 2017 - kl. 14:03
Frábær árangur hjá keppnisfólki Markviss
Frá Skotfélaginu Markviss

Keppnisfólk Skotfélagsins Markviss gerði góða ferð á Norðurlandsmeistaramótið í Skeet sem fram fór á Akureyri um síðustu helgi. Guðmann Jónasson og Snjólaug M. Jónsdóttir hömpuðu Norðurlandsmeistaratitlunum í karla og kvennaflokki. Þetta í fyrsta sinn sem þessir titlar eru sameinaðir hjá Markviss en bæði Guðmann og Snjólaug hafa unnið þá í tvígang áður.

Auk þeirra kepptu þeir Ásgeir Þröstur Gústafsson og Höskuldur B. Erlingsson fyrir hönd félagsins á mótinu og stóðu sig vel. Ásgeir var á sínu fyrsta móti í þessari grein og Höskuldur bætti sitt hæsta skor frá landsmóti STÍ sem fram fór á Blönduósi í síðasta mánuði. Þess má geta að farandbikararnir sem keppt er um á mótinu voru á sínum tíma gefnir af N1 Píparanum.

Samhliða Norðurlandsmeistaramótinu var mótið NLM-OPEN,sem eins og nafnið gefur til kynna er öllum opið. Þar hafnaði Guðmann Jónasson í öðru sæti eftir harða baráttu við Guðlaug Braga Magnússon og Grétar Mar Axelsson úr skotfélagi Akureyrar. Snjólaug komst í úrslit og hafnaði í 5. sæti.

Nóg var um að vera á skotsvæði Akureyringa um helgina en á föstudagskvöldinu fór fram byrjendamót í Sporting og höfnuðu Ásgeir og Snjólaug í 2. og 3. sæti. Á sunnudeginum eftir að NLM-OPEN lauk var svo Eldhafsmótið í Sporting og kepptu bæði Ásgeir og Guðmann á því en náðu ekki í verðlaunasæti. Einnig er rétt að minnast á frábæran árangur Jóns Brynjars Kristjánssonar en hann keppti á Sumarmóti Skotfélags Akureyrar í BR-50 í síðustu viku og bar sigur úr bítum á frábæru skori 244/250.

Nú um Húnavöku helgina fer svo fram Höskuldsmótið í Skeet á skotsvæði Markviss og hefst það kl. 16.00 á laugardaginn að afloknum opnum degi á svæðinu í tengslum við Húnavöku.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga