Skjáskot af Fréttablaðinu í dag
Skjáskot af Fréttablaðinu í dag
Fréttir | 20. júlí 2017 - kl. 08:11
Sýna vídeóverk í fjárhúsunum að Kleifum

Á laugardaginn klukkan 14 verður opnuð sýning í fjárhúsunum að Kleifum á Blönduósi þar sem stór nöfn í myndlist sýna vídeóverk. Finnur Arnar Arnarson er á meðal þeirra sem standa að sýningunni en hann hefur lengi unnið að undirbúningi og uppsetningu hennar ásamt konu sinni, Áslaugu Thorlacius. Sýningin verður opin í rúma viku. Fréttablaðið segir frá þessu í dag.

„Þau sem sýna hérna verk eru Dodda Maggý, Ragnar Kjartansson, Egill Sæbjörnsson, Olga Bergmann og Anna Hallin en þær tvær síðastnefndu sýna saman eitt verk. Þetta eru fjögur vídeó-verk og í hverri kró fjárhúsanna er sýnt eitt verk. Nú er því verið að rækta hugann í útihúsunum og auðvitað er lambakjötið alltaf fínt en þetta sýnir okkur að það er hægt að rækta fleira en kjöt í íslenskri sveit. Það sorglega er þó að hér eru engar rollur lengur eftir að hér kom upp riða fyrir mörgum árum með þeim afleiðingum að allt var fellt. Þannig að nú er bara menningarbúskapur fram undan,“ segir Finnur Arnar í samtali við Fréttablaðið.

Finnur segir að tengdamóðir hans, Ásdís Kristinsdóttir, eigi þetta slot á Blönduósi og að faðir hennar hafi byggt það á sínum tíma. „Við erum búin að vera saman í þessu ég og konan mín, hún Áslaug Thorlacius, en margir aðrir úr fjölskyldunni hafa einnig lagt hönd á plóg. Kannski verður svo framhald á þessu næsta sumar. Kannski er þetta eitthvað sem er komið til að vera og þá ekkert endilega myndlist, það getur verið eitthvað annað næst eins og leiklist eða bókmenntir eða hvað sem er. En það verður að segjast eins og er að það er ekkert mikið framboð af menningarviðburðum á þessu svæði. Þannig að okkur langaði til þess að gera það sem við kunnum og við höfum þessi sambönd innan myndlistarinnar og ákváðum að nýta okkur það. Við fórum í að fá listamennina til þess að koma og vera með og það er svo merkilegt að það segja bara alltaf allir já. Þetta fólk sem er að fara að sýna hikar ekki eitt andartak. Hingað koma listamenn beint frá Feneyjum í fjárhúsin og það þykir bara sjálfsagt mál. En þetta er líka merki þess að það er enginn hroki í gangi hjá þessu listafólki. Ég reyni því líka að setja þetta fram með þeim hætti að ekkert er slegið af kröfum, er með fyrsta flokks hljóð- og sýningargræjur. Reyni svona að gera þetta eins vel og hægt er.“

Finnur Arnar segir að allir séu velkomnir á opnunina sem verður á laugardaginn klukkan 14 og síðan verður opið frá og með laugardeginum frá klukkan tíu á morgnana til klukkan tíu á kvöldin í rúma viku. „Þannig að það gefur fólki rúman tíma til þess að koma við og það kostar ekkert inn. Það er frekar að við bjóðum fólki kaffibolla ef það rennir við.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga