Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Ljósm: kraftur.is
Fréttir | 21. júlí 2017 - kl. 08:53
Blað brotið með kaupum á nýrri slökkvibifreið

Nýlega fjárfestu Brunavarnir Austur-Húnavatnssýslu í nýrri MAN slökkvibifreið sem keypt var af Feuerwehrtechnikberlin og var bifreiðin til sýnis á Húnavöku um síðustu helgi. Bifreiðin er vel útbúin, með 6 þúsund lítra vatnstanki, 500 lítra froðutanki og öllum nauðsynlegum aukabúnaði sem velútbúin slökkvibifreið þarf að hafa. Stjórn BAH er afar stolt af þessum áfanga en segja má að með kaupunum hafi verið brotið blað í sögu BAH.

Í fundargerð stjórnar Brunavarna Austur-Húnavatnsýslu frá 18. júlí síðastliðinn er slökkviliðsstjóra færðar þakkir fyrir vinnuframlag hans í tengslum við kaupin á bifreiðinni. Þar kemur einnig fram að slökkviliðið fór í fjögur útköll á síðasta ári sem er talsvert færri útköll en árið áður en þá voru þau 15.

Á fundinum var ársreikningur Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu fyrir 2016 lagður fram og samþykktur. Í honum kemur fram að rekstrartekjur námu kr. 1.228.145 en áætlaðar tekjur voru kr. 450.000. Rekstrargjöld námu kr. 12.802.711 en voru áætluð kr. 18.297.619. Framlög sveitarfélaga námu 18 milljónum króna. Rekstrarniðurstaða ársins er því jákvæð um 6,4 milljónir króna. Handbært fé í árslok var rúmlega 400 þúsund krónur og bókfært eigið nam 15,4 milljónum króna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga