Gauti Ásbjörnsson. Mynd: Feykir.is/úr einkasafni
Gauti Ásbjörnsson. Mynd: Feykir.is/úr einkasafni
Fréttir | 24. júlí 2017 - kl. 10:46
Synti yfir Hrútafjörð í minningu ömmu sinnar

Gauti Ásbjörnsson synti á fimmtudaginn yfir Hrútafjörð, frá Gilsstöðum til Borðeyrar. Gauti var að endurtaka afrek ömmu sinnar, Ástu Snæbjörnssonar, sem synti sömu leið yfir fjörðinn þann 27. ágúst árið 1937. Vegalengdin er um 1100 metrar og synti Ásta hana á um 29 mínútum en það tók Gauta, sem er 32 ára Sauðkrækingur, um 18 mínútur að synda leiðina. Veður var gott, logn og blíða. Feykir.is greinir frá þessu.

Fyrir nálægt 80 árum síðan eða þann 27. ágúst 1937, birtist svohljóðandi frétt í Vísi: „Síðastliðinn þriðjudag syntu yfir Hrútafjörð frá Gilsstöðum til Borðeyrar Baldur Pálsson 27 ára, Ásta Snæbjörnsson 20 ára og Hulda Pétursdóttir 16 ára, öll frá Borðeyri. Vegalengdin er um 1100 metrar og synti Hulda hana á 23 mínútum og var um 6 mínútum á undan hinum. Sjávarhiti var 8 stig. Ekki er kunnugt um að áður hafi verið synt yfir Hrútafjörð."

Eins og áður segir er Gauti barnabarn Ástu, eins þremenninganna sem sundið  þreyttu fyrir 80 árum, en Steinunn Hjartardóttir, móðir Gauta er dóttir Ástu. Gauti æfði sund á yngri árum en hóf að stunda sjósund fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan. Hann segist alltaf hafa vitað af sundi ömmu sinnar, það hafi bara verið spurning um hvenær hann fetaði í fótspor hennar og form og veður leyfðu. Nú var reyndar tvöfalt tilefni til þar sem 80 ár eru liðin frá sundinu og þá ekki síður það að Ásta hefði orðið 100 ára fyrir nokkrum dögum síðan.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga