Fréttir | 25. júlí 2017 - kl. 19:05
Fleiri koma í sund á Blönduósi

Góð aðsókn hefur verið í sundlaugina á Blönduósi í sumar eins og síðustu sumur. Í júlí hafa vel yfir 8.000 sundlaugagestir heimsótt laugina og stefnir í að fjöldinn fari yfir 10.000 í lok mánaðarins. Á sama tíma í fyrra voru sundlaugargestirnir 6.616 talsins og er aukningin því um 20% milli ára og stefnir í að verða enn meiri. Þess má geta að í júlí 2015 komu 6.229 gestir í sundlaugina og er því stöðug aukning ár frá ári.

Að sögn Róberts Daníels Jónssonar, forstöðumanns Íþróttamiðstöðvarinnar á Blönduósi, hafa sundlaugagestir í júlí verið á bilinu 7.500-9.000 en flestir voru þeir árið 2011 þegar sundlaugin opnaði, alls 9.500. Það megi því gera ráð fyrir að met verði slegið í fjölda sundgesta í júlí á þessu ári. Mesti fjöldi sem komið hefur í sundlaugina á Blönduósi í einum mánuði er júní árið 2015 en þá komu um 11.000 manns í sundlaugina.

Frábær sundlaug og umhverfisvæn
Sundlaugin á Blönduósi er hreint út sagt frábær. Hún er tilvalin fyrir alla og draumur fyrir barnafólk. Sundlaugin er 25 x 8,5 metrar að stærð, tveir heitir pottar, gufa, vaðlaug, ísbað, tvær stórar rennibrautir og mikið af skemmtilegum leiktækjum og leikföngum.

Umhverfisvænar lausnir eru notaðar í sundlauginni. Klór er framleiddur á staðnum og er matarsalt eina afurðin sem þarf í framleiðsluna ásamt rafmagni og vatni. Framleitt er klórgas og það sett beint inn í sótthreinsun auk þess sem kerfið framleiðir klórvatn sem notað er til að mæta dagssveiflum í notkun. Tækið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Helstu kostir nýja kerfisins eru enginn flutningur á milli staða á hættulegum efnum, klórlykt minnkar, sviði í augum minnkar verulega, húðerting minnkar, vistvænt fyrir starfsfólk og stuðlar að umhverfisvænu umhverfi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga