Pistlar | 25. júlí 2017 - kl. 20:01
Sauðfjárbændum brugðið
Eftir Gunnar Rúnar Kristjánsson

Í gær (24. júlí) kynntu forsvarsmenn Kjarnafæðis og SAH-afurða verðlagningu dilkakjöts næsta haust og greiðslufyrirkomulag. Flestir ef ekki allir sauðfjárbændur gerðu sér grein fyrir að verðið myndi örugglega ekki hækka milli ára og að greiðslufyrirkomulagi yrði breytt en þrátt fyrir það held ég að allir sem voru á fundinum hafi ekki gert sér grein fyrir þeim svakalegu breytingum á greiðslufyrikomulaginu sem kynnt var á fundinum.

Ég tel að viðbrögðunum er best lýst með því að sauðfjárbændum var mjög brugðið. Þess má geta að það sem kynnt var er ekki endanleg útfærsla og það er háð skilyrðum sem bankinn setur Kjarnafæði um veitingu afurðalána. Fulltrúar Kjarnafæðis og SAH-afurða sögðu ástæður þessarrar breytinga á greiðslufyrikomulagi megi alfarið rekja til viðskiptabankans þeirra. Til að geta staðgreitt alla haustslátrun verður viðskiptabankinn að veita þeim 900 miljóna afurðalán.

Hver er svo útfærslan á greiðslufyrirkomulaginu og hvert verður verðið. Forsvarsmenn kváðust geta greitt sama verð og í fyrra en það gildir einungis um 65% af innlegginu. Greiðslan fyrir þessi 65% verður skipt í fernt og greiðslutímabilið nær yfir 9 mánuði (15. október – 15. júní). Greiðslan fyrir 65% innleggsins nemur því 16,25% af innleggi fyrir hvert skipti. Segja má að af 100 lamba innleggi verður staðgreiðslan 16,25 lömb. Greiðslufyrirkomulagið og verðið er háð því skilyrði að 35% innleggsins verði tappað af markaðinum með því t. d. að lögleiða útflutningsskyldu eða að ríkið kaupi upp þetta magn eins og þekkt er víða til að taka á markaðsbrestum. Þess má geta að uppkaup ríkisins er kostnaðarsamast fyrir ríkissjóð en útflutningsskylda kostar ríkið ekkert. Greiðslur fyrir 35% innleggsins verða ekki inntar af hendi fyrir en kjötið hefur verið selt ef miðað er við útflutningsskyldu. Uppkaup ríkisins ættu að koma til greiðslu mun fyrr. Bændasamtökin og Landsamband sauðfjárbænda hafa lagt þessar tillögur fram við Landbúnaðarráðherra ásamt fleiri tillögum sem hafa að markmiði að fækka sauðfé s. s. að bændur fari í landbótarverkefni m. a. til að kolefnisjafna framleiðsluna en öllum tillögum hefur verið hafnað. Landbúnaðarráðherra vill ekki fara í aðrar aðgerðir en þær sem rúmast innan núverandi búvörusamnings.

Miklar umræður spunnust um greiðslufyrirkomulagið og ekki síst hverju um væri að kenna. Ljóst er að bændur sjálfir eiga nokkra sök en það eiga afurðafyrirtæki líka. Bændur hafa fjölgað fé að eigin hvötum og verið hvattir til þess af forsvarsmönnum afurðafyrirtækja. Í kjölfar hrunsins fékkst gott verð fyrir útflutninginn í krónum talið en strax um 2013 var vitað að um offramleiðslu var að ræða. Þrátt fyrir það heyrðist ekkert í viðvörununarbjöllum og framleiðslan jókst. Miklar umræður spunnust einnig um hvort halda eigi óbreyttu framleiðslumynstri og flytja framleiðsluna sem er umfram innanlandsmarkað út eða stefna að því að framleiða eingöngu fyrir innanlandsmarkað. Auk forsvarsmanna Kjarnafæðis og SAH-afurða voru mætt á fundinn Oddný Steina Valsdóttir formaður Landsambands sauðfjárbænda og Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Markaðsráðs. Greinilegt var að þeirra sýn var ekki sú sama. Skilja mátti að Oddný vill fara leið fækkunar sauðfjár en Svavar telur að við eigum að halda framleiðslumagninu óbreyttu.

Umframframleiðslan nemur um 3 þúsund tonnum sem er örlítið brotabrot af heimsframleiðslunni. Hæsta verð í útflutningi eru hryggir (2000 kr/kg). Verðið er á hágæðamarkaði sem krefst að uppruni kjötsins er þekkt. Megnið af kjötinu (2.500 tonn) er selt á lágvörumarkaði þar sem ekki er krafist upprunavottunar. Verðið á því er jafnvel undir heimsmarkaðsverði. Ljóst er að mikil vinna bíður þeirra sem vinna að sölumálum erlendis. Þetta litla magn þarf að selja á hágæðamarkaði. Þá er það ljóst að ef þetta á að takast verða afurðafyrirtækin að starfa saman að útflutningi en mikillar sundrungar gætir milli þeirra. Þar sem 30-35% af innleggi bænda verður í umboðssölu (gangi það eftir) er eðlilegt að bændur hafi eitthvað um það að segja hvernig sölumálum verði háttað og eðlilegt að þeir sitji í stjórn fyrirtækis sem vinnur að útfluningi kindakjöts.

Verði farin sú leið að miða framleiðsluna við innanlandsmarkað verður að grípa til framleiðslustýringar. Fyrir framleiðslu utan innanlandsmarkað verður ekkert greitt fyrir. Í dag mega allir framleiða kindakjöt og eru engar takmarkanir á því. Slíkt frameiðslumynstur gengur ekki ef miða á eingöngu við innanlandsmarkað.    

Verði ofangreint greiðslufyrirkomulag að raunveruleika munu margir bændur þurfa fyrirgreiðslu hjá sinni lánastofnum. Hvernig munu bankarnir bregðast við? Fá bændur yfirdrátt eða aukinn yfirdrátt og ef svo er á hvaða kjörum? Eru yfirdráttarlán ekki með 11% ársvexti? Verður krafist einhverrar trygginga svo sem veð í jörðinni? Er það tilfellið að banki Kjarnafæðis vilji frekar semja við bændur um fyrirgreiðslu? Eru sauðfjárbændur betri skuldarar en Kjarnafæði? Getur verið að bankinn mun meta hvern bónda fyrir sig þannig að sumir fá fyrirgreiðslu en aðrir ekki?

Gunnar Rúnar Kristjánsson
bóndi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga