Ljósm: eldurihun.is
Ljósm: eldurihun.is
Fréttir | 26. júlí 2017 - kl. 09:21
Opnunarhátíð Eldsins er í dag

Opnunarhátíð Elds í Húnaþingi fer fram í dag á Hvammstanga klukkan 19:00. Hátíðin hefst á skrúðgöngu frá Félagsheimilinu sem endar á hafnarsvæðinu hjá Sjávarborg. Skrúðgangan verður sérstaklega glæsileg þar sem eldfuglar og fleiri skemmtilegar verur verða í fararbroddi. Þá verður tónlist og almenn gleði í göngunni. Þegar á hafnarsvæðið er komið tekur Eldurinn á móti hátíðargestum sem geta hlýtt á tónlist, gætt sér á kjötsúpu, fylgst með Húlludúllu leika listir sínar, keypt góðgæti í Elds-sjoppunni og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Klukkan 18:00 í dag verður nytjamarkaður Gæranna með sérstaka opnun í tilefni hátíðarinnar. Á markaðnum kennir ýmissa grasa og hafa Gærurnar varla haft undan við að taka á móti vörum í sumar. Markaðurinn er staðsettur ská á móti Landsbankanum. Markaðurinn verður einnig opinn á laugardaginn frá klukkan 11 til 16 og á sunnudaginn frá klukkan 11 til 14.

Í kvöld klukkan 22:30 stendur Fókus-hópurinn fyrir tónleikum á Sjávarborg. Hópurinn er skipaður fimm söngvurum sem kynntust í gegnum Voice Ísland 2017. Í hópnum eru tveir Húnvetningar, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Sigurjón Örn Böðvarsson. Að auki eru í hópnum þau Karítas Harpa Davíðsdóttir, Eiríkur Þór Hafdal og Rósa Björg Ómarsdóttir. Aldurstakmark 18 ár. Miðaverð er 2.500 kr. og verður aðeins hægt að greiða með reiðufé eða Aur appinu.

Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og ættu allir aldurshópar að finna eitthvað við sitt hæfi. Fastir liðir eins og undanfarin ár verða hverfakeppnin, tónleikar í Borgarvirki, Melló Músíka,fjölskyldudagur á laugardeginum og böll á laugardagskvöldinu.

Sjá nánar á heimasíðu Elds í Húnaþingi

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga