Fréttir | 09. ágúst 2017 - kl. 13:35
Vill fund um erfiða stöðu sauðfjárbænda

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, hefur farið þess á leit við formann atvinnuveganefndar að boðað verði til fundar í nefndinni við fyrsta tækifæri til að ræða erfiða stöðu sauðfjárbænda sem til er komin vegna yfirlýsinga um lækkun afurðaverðs í haust.

Óskað er eftir því að á dagskrá fundarins verði umfjöllun um þau áhrif sem líklegt er að verðlækkun á sauðfjárafurðum hafi á afkomu sauðfjárbænda og byggð í sveitum landsins, viðbrögð stjórnvalda við stöðunni og tillögur þeirra til lausnar málsins. Þess er óskað að landbúnaðarráðherra verði boðaður til fundarins og enn fremur fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga