Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | Sameining A-Hún | 16. ágúst 2017 - kl. 20:37
Héraðsfundur sveitarstjórna um sameiningarmál undirbúinn

Á fimmtudaginn í næstu viku, þann 24. ágúst, er fyrirhugaður héraðsfundur sveitarstjórna í Austur-Húnavatnssýslu þar sem fjalla á um sameiningarmál sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Á fundinum mun ráðgjafi frá KPMG kynna hvernig staðið hefur verið að íbúakönnun og öðrum undirbúningi í sveitarfélögum þar sem sameiningarviðræður standa yfir.

Ákveðið var að halda fundinn eftir að Sveitarfélagið Skagafjörður sendi sveitarfélögum á Norðurlandi vestra bréf þar sem lýst var áhuga á að styrkja sveitarstjórnarstigið á svæðinu með sameiningu sveitarfélaga. Í bréfinu var gerð grein fyrir því að sveitarfélagið hafi átt í óformlegum viðræðum um sameiningu við Skagabyggð í Austur-Húnavatnssýslu og að í kjölfarið hafi sveitarfélögin sammælst um að hefja formlegar viðræður um kosti þess að sameinast. Önnur sveitarfélög á Norðurlandi vestra voru boðin velkomin til viðræðna um enn stærri sameiningu. Áður en slíkar viðræður hefjast telja sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu, þ.e. í Húnavatnshreppi, Blönduósbæ og á Skagaströnd, ástæðu til að ræða sameiginlega um sameiningar á svæðinu.  

Oddviti byggðaráðs Blönduósbæjar sagði í fréttum nýverið íbúa á Blönduósi alltaf tilbúna til viðræðna um sameiningu sveitarfélaga. Að hans mati er bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að fækka sveitarfélögum á svæðinu. Oddviti Húnaþings vestra hefur sagt í fréttum að allsherjarsameining sveitarfélaga á Norðurlandi vestra komi ekki til greina eins og staðan sé í dag. Slík sameining væri afar flókið mál, svæðið stórt landfræðilega og allir þjónustuþættir verði að vera til staðar á hverjum stað. Húnaþing vestra mun þó fylgst með framvindu viðræðna um sameiningar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga