Hópur ungmenna frá Blöndustöð Landsvirkjunar að verki loknu við ágrædd móðurtré sem hafa verið frægjafar við verkefnið.
Hópur ungmenna frá Blöndustöð Landsvirkjunar að verki loknu við ágrædd móðurtré sem hafa verið frægjafar við verkefnið.
Steinn Kárason framkvæmdastjóri Brimnesskóga og Helga Gunnlaugsdóttir garðyrkjustjóri Skagafjarðar virða fyrir sér kynbætt Geirmundarhólabirki í gróðurreit á Sauðárkróki
Steinn Kárason framkvæmdastjóri Brimnesskóga og Helga Gunnlaugsdóttir garðyrkjustjóri Skagafjarðar virða fyrir sér kynbætt Geirmundarhólabirki í gróðurreit á Sauðárkróki
Fréttir | 21. ágúst 2017 - kl. 16:15
Endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði

Ungmenni frá Blöndustöð Landsvirkjunnar gróðursettu nýlega fjórtán hundruð birkiplöntur til endurheimtunar Brimnesskóga vestan við ána Kolku í Skagafirði. Landsvirkjun hefur lagt verkefninu lið um árabil undir yfirskriftinni "Margar hendur vinna létt verk".

Gróðursettar voru um fjögur hundruð plöntur í 1,5 lítra pottum og um eitt þúsund plöntur í 15 gata bökkum. Allar voru plönturnar gróðursettar með skít og skóflu, sem kallað er. Að þessu sinni var gróðursett kynbætt birki sem á rætur að rekja í Geirmundarhólaskóg í Hrolleifsdal.

Landið sem gróðursett er í er í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar, en það er Brimnesskógar, félag sem stendur að framkvæmdunum. Unnið hefur verið í sjálfboðavinnu að verkefninu um nokkurt árabil. Við endurheimt Brimnesskóga er einungis gróðursett birki og vefjaræktaður reyniviður sem upprunnin er í Skagafirði. Áfram verður gróðursett við endurheimt Brimnesskóga að ári.

Áður hefur verið á ræktunarsvæðinu gróðursett birki úr Gljúfurárgili í Út- Blönduhlíð og úr Fögruhlíð í Austurdal. Birkið sem notað er í verkefninu hefur verið rannsakað af sérfræðingum við Háskóla Íslands og er það sagt vera „mjög sérstakt“. Gert er ráð fyrir að kynbætta birkið verði fljótvaxið, beinstofna og ljósara á börk en það birki sem ekki er kynbætt. Kynbæturnar hafa farið fram í Gróðrarstöðinni Mörk í Reykjavík en ræktunin hefur að mestu farið fram í gróðrarstöðinni Barra á Valgerðarstöðum.

Margir hafa orðið til að leggja verkefninu lið. Að þessu sinni lögðu hönd á plóg auk Landsvirkjunar, Vörumiðlun, Skagfirðingabúð og Flokka á Sauðárkróki. Brimnesskógar félag, vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa endurheimt Brimnesskóga lið á einn eða annan hátt.

​/Fréttatilkynning

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga