Fréttir | 22. ágúst 2017 - kl. 15:25
Byggðarráð skorar á ráðherra og þingmenn

Byggðaráð Húnaþings vestra lýsir yfir miklum áhyggjum af boðaðri lækkun á verði til sauðfjárbænda á komandi sláturtíð. Í bókun ráðsins frá fundi þess á mánudaginn segir að um 28% íbúa sveitarfélagsins búi á sauðfjárbýlum og ljóst að fyrirhugað tekjutap bænda hafi ekki aðeins áhrif á einstaka fjölskyldur heldur samfélagið allt. Mikið sé af afleiddum störfum vegna sauðfjárræktar í sveitarfélaginu og ef rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa hrynji þá muni í kjölfarið draga úr annarri starfssemi s.s. fækkun starfa í sláturhúsi, minnkandi umsvif matvöruverslunar, pakkhúss og hafnarinnar, á bifreiðaverkstæðum, bókhaldsþjónustu, sem og annarri almennri þjónustu.

Haustið 2015 var vegið meðalafurðaverð til bænda um 600 kr./kg. Haustið 2016 lækkaði afurðaverð til sauðfjárbænda um ríflega 10% og var vegið meðalverð um 538 kr./kg. Haustið 2017 eru enn boðaðar verðlækkanir, allt að 35%, og gangi þær spár eftir mun afurðaverð falla niður í um 350 kr./kg. Miðað við þessar forsendur er heildarlækkun afurðaverðs í Húnaþingi vestra um 145 milljónir króna frá haustinu 2016. Sé hins vegar litið aftur til ársins 2015 er heildarlækkunin um 186 milljónir króna á tveggja ára tímabili.  

Í bókun byggðarráðs segir að verði af þeim lækkunum á verði til bænda sem afurðastöðvar á svæðinu hafi boðað nú í haust sé ljóst að um gríðarlegt tekjutap sé að ræða og í raun forsendubrest í rekstri flestra sauðfjárbúa. Afar ólíklegt sé að sauðfjárbændur geti staðið við þær skuldbindingar sem stofnað hafi verið til í gegnum árin og miðuðu við aðrar forsendur en menn standi frammi fyrir í dag. Hætt sé við að bændur lendi í fátækragildru með ófyrirséðum áhrifum fyrir samfélagið allt.   

Byggðarráð Húnaþings vestra skorar á ráðherra landbúnaðarmála og ráðherra byggðamála, ásamt þingmönnum kjördæmisins, að beita sér fyrir því að málefni sauðfjárbænda verði leyst með farsælum hætti.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga