Pistlar | 30. ágúst 2017 - kl. 09:23
Átján hundruð og fimmtíu íbúar í Austur Húnavatnssýslu og fjögur sveitarfélög
Eftir Gunnar Rúnar Kristjánsson

Nú er aftur farið að ræða sameiningu sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu. Ég segi bara loksins enda tímabært. Sveitarstjórnir í A-Hún. héldu sameiginlegan fund þar sem eftirfarandi var samþykkt samhljóða.

“Héraðsfundur sveitarstjórna í Austur-Húnavatnssýslu, haldinn 24. ágúst 2017, beinir því til sveitarstjórna að taka afstöðu til hvort hefja eigi formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. 

Jafnframt tilnefni hver sveitarstjórn tvo fulltrúa ásamt framkvæmdastjóra í sameiningarnefnd ef  niðurstaða sveitarstjórnar verður að hefja það ferli”.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps samþykkti eftirfarandi ályktun.

Vegna hugmynda um sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra samþykkir sveitarstjórn Húnavatnshrepps eftirfarandi:

„Sveitarstjórn Húnavatnshrepps telur eðlilegast að sveitarfélögin fjögur í Austur-Húnavatnssýslu kanni möguleika á sameiningu. Samstarf sveitarfélaganna hefur verið mikið meðal annars í byggðasamlögum um rekstur stórra málaflokka. Það samstarf hefur verið með ágætum en óneitanlega þyngra í vöfum en ef um eitt sameinað sveitarfélag væri að ræða.

Í sameinuðu sveitarfélagi í Austur Húnavatnssýslu byggju um 1850 íbúar og vegalengdir innan sveitarfélagsins eru ekki hamlandi. Að mati sveitarstjórnar Húnavatnshrepps ætti sameinað sveitarfélag Í Austur Húnavatnsýslu að hafa burði til að veita íbúum sínum góða þjónustu og hefði nægilegan styrk til að bæta hag íbúanna til framtíðar“.

Margt hefur verið ritað um stærð sveitarfélaga, samstarf þeirra í milli eða um nauðsyn sameiningar bæði fræðigreinar og greinar frá leikmönnum. Hagkvæmni sameiningar og lýðræðið eru stærstu málin þegar sameiningar bera á góma. Það hefur sýnt sig að það er hagkvæmt að sameina sveitarfélög hreinlega vegna fækkun sveitarstjórnar manna og fólks í nefndum. Annað gildir um lýðræðið. Í stjórnarskránni er lagt til þátttöku sem flestra íbúa í samfélaginu. Sveitarfélög eru einmitt vettvangur fyrir íbúa að taka þátt í lýðræðinu. Gerðar hafa verið kannanir nýlega eftir að sveitarfélög voru sameinuð þar sem fyrrverandi fulltrúar í sveitarstjórn, núverandi sveitarstjórnarfulltrúar og almennir borgarar voru spurðir um lýðræði og þjónustuna eftir sameiningu m.a. Sveitarstjórnarmenn, fyrrverandi og núverandi, voru almennt jákvæðir gagnvart þessum þáttum. Almennir borgarar fannst lýðræðið hafa minnkað og því lengra sem þeir bjuggu frá stjórnsýslunni því meiri var óánægjan. Almennt voru íbúar þó jákvæðir með þjónustuna og sögðu hana hafa batnað, sérstaklega íbúar úr minni dreifbýlishreppum sem sameinuðust stærri sveitarfélögum í þéttbýli. Helst var að íbúar voru óánægðir með að grunnskólar voru lagðir niður.

Það er mikil vinna að skoða sameiningu sveitarfélaga. Tryggja þarf að lýðræði íbúa skerðist ekki og að allir íbúar hafi sama rétt. Vissulega verður að taka tillit til aðstæðna í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ég nefni hér að í Húnavallaskóla hefur það tíðkast að tónlistanámið hefur verið tengt daglegu starfi í skólanum þannig að börnin hafa ekki þurft að fara á Blönduós í tónlistarnámið eftir skóla. Það hefur því miður skort á að börnin hafa getað sótt íþróttir eða annað félagsstarf sem er á Blönduósi nema foreldrar hafi keyrt þau. Nú þegar liggur fyrir að af sameiningu verður er klárt að skólahaldi verður hætt á Blönduósi og í samningum verða fulltrúar þéttbýlissveitarfélaganna að gera sér grein fyrir þessu. Það verður að samfletta starf grunnskólanna á Blönduósi og Skagaströnd, tónlistaskólans, íþróttaiðkunar og annars félagsstarfs við hið daglega líf skólabarnanna.

Að sameina sveitarfélög er heilmikið verk. Þetta verða flokkar eða listar að gera sér grein fyrir og að val á lista taki mið af því. Listarnir sem buðu fram í Húnavatnshreppi pössuðu að fulltrúar úr gömlu hreppunum skipuðu fimm efstu sæti í fyrstu tveimur kosningunum. Í síðustu kosningum var A-listinn skipaður tveimur fulltrúum úr gamla Svínavatnshreppnum í fjórum efstu sætunum. Ég man ekki til þess að nokkur hafi gert athugasemdir við þessa uppstillingu. Ég er viss um að vinnan við framkvæmd sameiningar geti tekið tvö kjörtímabil og verkefni kjörinna fulltrúa auk starfsmanna sveitarfélagsins verði mikil.

Verkefni sveitarfélaga eru mörg og fer fjölgandi. Sum verkefnin eru það stór að lítil sveitarfélög geta ekki sinnt þeim öðruvísi en í samstarfi við önnur sveitarfélög. Þá er stofnað byggðarsamlag utan um verkefnið sem almennur borgari í sveitarfélaginu hefur lítil eða engin áhrif hver velst til stjórnar en oftast kemur fulltrúinn frá meirihlutanum. Ég man ekki eftir að nokkur fulltrúi af lista hafi lagt fram áherslur listans í málefnum sem byggðasamlögin halda utan um. Eftir því sem byggðalögum fjölgar verður minna og minna fjármagn innan hvers sveitarfélags fyrir sig og þá minnka áhrif sveitarfélaganna. Vegna þess hve verkefnum, réttindum og skyldum aukast sífellt finnst mér eðlilegt að fulltrúar í sveitarstjórn eru ráðnir í ákveðið starfshlutfall því það gengur ekki lengur að sveitarstjórnarfulltrúar vinni allt sem lítur að sveitarfélaginu í sínum frítíma. Þetta á sumpart líka við fulltrúa í nefndum.

Nú þegar það liggur fyrir að skoða skuli sameiningu sveitarfélaga er eðlilegt að þeir sem til verksins veljast fari með því hugarfari að sameina sveitarfélögin. Öll höfum við heyrt að það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann þegar sótt er um aðild að Evrópusambandinu. Það finnst mér líka gilda þegar sveitarfélög fara að skoða sameiningu.

Gunnar rúnar Kristjánsson
Áhugamaður um sveitarstjórnarmál

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga