Nöldrið | 11. september 2017 - kl. 09:25
Septembernöldur

Ég er ekki einn um það að finna til söknuðar þegar maður sér á eftir sumrinu og haustið fer að gera vart við sig. Hauststörfin í sveitunum á fullu og flestir komnir með kartöflurnar og alls konar grænmeti  í hús. Þar sem ég þekki til hefur uppskera allskonar jarðargróðurs verið með besta móti og ennþá mun vera hægt að fara í berjamó  og um að gera að nota sér það meðan ekki frystir.

Þeir sem ég hef talað við merkja mikla aukningu ferðafólks hér um slóðir á þessu sumri og hafa veitinga- og gistihús bæjarins eflaust notið góðs af því. Ég efast samt um að fjölgað hafi gestum, í þeim fáu söfnum sem eftir eru  í bænum og opin eru yfir sumartímann. Er það vissulega dapurlegt því áhugaverðar sýningar eru alltaf í Heimilisiðnaðarsafninu og eins hefur Kvennaskólinn með t.d. refilinn og fleira verið opinn fyrir gesti í sumar. Mörgum fannst það líka undarlegt að Blönduóskirkja, það hús sem líklega flestir ferðamenn í bænum vilja skoða, skyldi vera lokuð fyrir gesti nánast allan júlí og í ágúst. Er nú ekki tímabært að þeir sem  stjórna þessum stöðum setjist niður með fulltrúum ferðamála bæjarins (sem væntanlega eru einhverjir) og leiti lausna á því hvernig efla má aðsókn að þessum stöðum og mætti þá jafnvel ræða möguleika á að sameinast yrði um aðgangseyri. Það væri satt að segja sorglegt, já og beinlínis grátbroslegt ef færi eins fyrir þessum ágætu söfnum og fór með Hafíssetrið og Laxasetrið. Það vantaði ekki að þau voru á sínum tíma opnuð með pompi og prakt. Síðan virtust þau eiga að sjá um sig sjálf og eftirfylgnin engin og því fór sem fór. Þegar rætt er um deyfð yfir söfnum og setrum hér í bæ á ekki það sama við um sundlaugina okkar. Þar er alltaf líf og fjör og þar starfar fólk með gríðarlegan metnað fyrir því að þjónusta gesti sem allra best og hafa  hlutina í lagi og það skilar sér sannarlega til þeirra sem sækja sundlaugina og ég þakka því ágæta fólki sem þar starfar fyrir vel unnin störf og umhyggju fyrir gestum. Þá hefur ærslabelgurinn sem kom á skólalóðina í sumar heldur betur slegið í gegn og enn er von á fleiri leiktækjum sem eiga eftir að verða vinsæl hjá yngi kynslóðinnni.

Það hefur oft verið nöldrað hér á þessum síðum um lélegar merkingar gatna í bænum og engar úrbætur eru í sjónmáli. Ég trúi því ekki að ég sé eini bæjarbúinn sem verður var við vandræði gesta með að finna hús eða götur þar sem allar mekingar vantar. Í tvígang í sumar hef ég orðið að lóðsa gesti mína símleiðis heim að mínu húsi og finnst mér þetta frekar hallærislegt fyrir bæjarfélagið að hér skuli ekki vera komið upp sómasamlegum merkingum gatna og húsa. Varla getur kostnaðurinn verið svo gríðarlegur við það.

Ég þakka fyrir pappírstunnuna sem við fengum síðastliðinn vetur og er, merkilegt nokk alltaf orðin full þegar losað er.  Það er ótrúlegt hvað heimilissorpið minnkar eftir að farið er að flokka pappír sér og plastið sér. Nú er bara að slást í hóp æ fleiri bæjarfélaga sem segja plastinu stríð á hendur og losa bæinn eins og hægt er við allt plast.

Njótið rómantískra haustkvölda og borðið ekki yfir ykkur af íslenska grænmetinu þó það sé gott, bæði hrátt og soðið.

Kveðja frá Nöldra.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga