Séð heim að Gautsdal, fjöllin upp af Mörk og Hvammi ber hátt við Gautsdalsbæinn. Ljósm: stikill.123.is.
Séð heim að Gautsdal, fjöllin upp af Mörk og Hvammi ber hátt við Gautsdalsbæinn. Ljósm: stikill.123.is.
Pistlar | 03. október 2017 - kl. 14:49
Stökuspjall: Mörk nú prýðir Guðmundur
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Athugagjarn og orðvar sért
einkum þegar þú reiður ert.
Formæling illan finnur stað
fást mega dæmin upp á það.

Þar birtist lesendum vísa úr skáldgarði sr. Hallgríms í Saurbæ sem Þórður í Skógum setur í nýja bók sína, Um þjóðfræði mannslíkamans. Þórður fjallar um þann flein í íslenskri þjóðarsál, sem reiði, skammir og skammaryrði geta verið. 

Þórður segir:„Ákveðin orð tóku mið af storminum sem blés um landið. Maður var fjúkandi vondur, fokvondur, fokillur. Til veðurs eru einnig sótt orðin bálvondur, bálillur, bálreiður (smb. bálviðri). Mið var tekið af eldi: Funi í skapi, funabráður, funavondur, funareiður. Snösur nefndust vægir óveðurskaflar að vetri og stóðu stutt. Til þeirra er sótt reiðiorðið snösur. Það snasaðist í hann var sagt er manni rann í skap og rann svo fljótt reiðin. Reiði hófst oft af söguburði manna milli. Mönnum er misjafnlega lagið að segja satt og rétt frá öllu. Sannindi og ósannindi eru miklar andstæður. Fólk sem dreifði sögum, sönnum eða lognum, var ekki vel séð. „Sögusmella, rægirófa" heitir það í gamalli vísu. Manngerðina hefur Jón Thoroddsen leitt inn í íslenska þjóðarsál í bók sinni, Pilti og stúlku:„Ólyginn sagði mér en berðu mig samt ekki fyrir því," sagði Gróa á Leiti." 

Snjöll vísa Jakobs Ólafs frá Hranastöðum erjar í sama akri:

Er lygin um loftið flýgur
og langvegu hæglega smýgur
um byggðir og víðavang
sannleikur seinn á fæti
um sveitir og borgarstræti
lötrar sinn lestargang.

Lestargangur merkir gönguhraði klyfjahesta, svo fræðir orðabókin.

Laxdælingurinn Erlendur á Mörk fræðir lesendur um hvernig var að sitja hjá og smala kvíaánum og segir frá ferðalagi með foreldrum sínum norður á Sauðárkrók: „Lagt var af stað um kvöld og var það venjan. Þegar kom út fyrir Hryggjabæinn, þangað sem fyrst sést á sjóinn, kom ég auga á eitthvað er mér sýndist helst bláleit þoka og spurði hvað þetta væri. Svaraði þá Jón Sigvaldason bóndi á Vesturá að þetta væri sjórinn. Þá varð ég hissa. Þegar nokkuð kom ofan fyrir Kringlu hefur kl. verið um 2, en gagnslaust að koma ofan í Krókinn fyrr en klukkan 6. Var farið af baki og áð, en ferðafólkið lagði sig fyrir og held ég flestir hafi sofnað, en það gat ég ekki skilið að nokkrum manni gæti komið dúr á auga, með hugann úttroðinn af eftirvæntingu og ekki hefði ég getað það þó ég hefði átt víst að losast við hjásetuna. Þessa nótt heyrði ég í fyrsta sinn til spóa því þeir komu aldrei í Laxárdalinn hver svo sem er orsök til þess. 

Snemma um morguninn var haldið ofan í Krókinn. Þegar kom svo langt ofan á Móana að masturstopparnir smástigu upp fyrir brekkubrúnina og ekki síður er við komum fram á brúnina sjálfa og höfðum þar allt í fanginu í senn, sjóinn, skipin, fólk og hross og fyrstu kofana, átti ég engin orð til að lýsa því uppnámi sem hugurinn komst í. Ekki man ég hvert ár þetta var, helst 1873. Þá var nýbúið að að reisa fyrsta verslunarhúsið á Sauðárkrók. Þar var og torfbær og seldar þar veitingar. Hét eigandinn Árni Árnason járnsmiður og rak hvorutveggja samhliða, járnsmíðar og drykkjuskap. Tvo eða þrjú kaupskip lága á höfninni og rugguðu sér ofurvært í logninu. Lausabryggjur frá skipunum voru skammt fyrir innan Eyrina og við þær lentu bátarnir sem gengu milli lands og skipa." Erlendur heldur áfram að lýsa því sem bar fyrir barnsaugum, á ofhlöðnum báti út til skips og krambúðarlyktinni ofan í lestinni/búðinni þar sem hann fékk þyngsli í höfuðið:„Mér gekk illa að komast upp stigann, hann var stöðugt á hreyfingu. Þegar ég kom upp var komin stinnings hafgola og öldurnar komnar miklu stærri en ég hafði séð á Móbergsselstjörninni." 

Leikfélagi Erlendar á Mörk var Ketilríður Friðgeirsdóttir í Móbergsseli, en faðir hennar, Friðgeir í Hvammi var sveitarskáld Hlíðhreppinga á sinni tíð og kvað vísur um alla búendur í sveitinni. Fjórar vísur þurfti í upptakt, mansönginn, svo hefst ríman hjá Guðmundi Klemenssyni í Bólstaðarhlíð, á þingstað sveitarinnar, telur þá bændur út að Strjúgi, ysta bæ í hreppnum, snýr þar upp Strjúgsskarðið, upp á Laxárdal í 13. vísu, Guðmundur á Mörk fékk 15. vísuna en skáldið sjálft þá 16. og sparar ekki að úthúða sjálfum sér:

15. Eyðir kvíða örlátur,
er sá lýðum geðfelldur
meiðir skíða menntaður,
Mörk nú prýðir Guðmundur.

16. Í Hvammi nú er sagt að sé
syndum búið ómenne,
þessum snúið frá er fé,
fyrðar trúi sögunne.

28. Metið glaða góðmenne
greiðahraður þjóð veitte
böl er það að brestur fé
Botnastaða Illuge.

42. Hrósið ber af bændunum,
bestu hér að kenningum,
mjög óþver í manndyggðum
Markús séra á Bergsstöðum.

60. Hjörleif, prestinn Hólum frá,
heyrði eg bestan lofstír fá,
helgra lestur syngur sá,
sama flestir um það tjá.

Tvær seinustu vísurnar eru um prestana í sveitinni, séra Hjörleif Einarsson, föður Einars og Tryggva Kvaran er sat þá í Blöndudalshólum, en síðar lengi að Undirfelli og kom þá mjög við sögu Kvennaskólans. Hinn er Bergsstaðapresturinn, sem einnig þjónaði Bólstaðarhlíðarkirkju, en Hólaprestur þjónaði Holtastöðum – og þar mörgum Laxdælingum.

Miðvísan er um mág Arnljóts Ólafssonar frá Auðólfsstöðum, söðlasmiðinn Illuga Jónasson á Botnastöðum sem flæmdur var af jörðinni vegna tengdasonar jarðeigandans. Jónas Illugason segir frá þessu í þætti sínum Eitt ár, sem birtist í Troðningum og tóftarbrotum. Þessi fræðaþulur Húnvetninga fer þar á kostum í frásögn sinni af  erfidrykkju eftir Björn bónda í Tungu, móðurbróður sinn. Þessi mannfundur í Finnstungu stóð fram undir morgun og snerist þá mjög um skuldaskil Guðmundar á Bollastöðum við sveitungana. Skráir Jónas vísur úr Andrarímum sem sveitarhöfðinginn sögufróði hafði sér til trausts í þrætubókum um fjárhag hreppsins. Uppi í Skyttudal, að baki Hlíðarfjalls, fundu þessir öndvegismenn sveitar sinnar sér svo jarðnæði, þó bauðst þeim ekki nema þriðjungur af þessu kotbýli, sem okkur þykir nú afskekkt en liggur milli höfuðbólanna í Þverárdal og Mjóadal. 

Tilvísanir:
Sæmundur/Um þjóðfræði mannslíkamans: https://www.facebook.com/bokakaffid/
Hallgrímur Pétursson 28. passíusálmur: http://bragi.info/ljod.php?ID=1410
Jakob Ólafur Pétursson frá Hranastöðum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26840
Nokkur orð um kjaftasögur: http://bragi.info/hunafloi/vardveisla.php?ID=8085
Bændaríma Friðgeirs í Hvammi: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=f0&ID=2202
Blöndudalshólar, Bergsstaðir og Auðkúlu prestatal: http://stikill.123.is/blog/record/454453/
Bj.Jónasson/Hólaprestar um 1850: http://stikill.123.is/blog/record/532617/
Meiri Erlendur á Mörk: http://stikill.123.is/blog/record/504051/
Um sr. Arnljót á Sauðanes: http://stikill.123.is/blog/2011/10/18/547408/
Illugason segir frá Guðmundi á Bollastöðum: http://stikill.123.is/blog/record/504272/

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga