Pistlar | 06. október 2017 - kl. 13:48
Vaskur hópur VG!
Eftir Lilju Rafneyju Magnúsdóttur

Kosningar til alþingis á hverju ári er ekki óskastaða en bregðast verður við þegar ríkisstjórnin ræður ekki við hlutverk sitt eins og raun ber vitni.

Nú liggur fyrir öflugur listi VG í  norðvesturkjördæmi sem ætlar að berjast fyrir hag landsbyggðarinnar og réttlátu og heiðarlegu samfélagi sem gerir ungu fólk kleift að mennta sig og stofna heimili og öldruðum og öryrkjum fært að lifa mannsæmandi lífi. Fátækt er óásættanleg í ríku samfélagi.

Við viljum færa íslenskt samfélag af braut eiginhagsmunahyggju og græðgisvæðingar og byggja á samfélagslegri ábyrgð og félagshyggju þar sem afrakstur sameiginlegra auðlinda og skattfés nýtist almenningi í landinu í alhliða innviðauppbyggingu.

Við viljum að landsbyggðin byggi á styrkleikum sínum í sátt við umhverfið og fái að njóta auðlinda sinna í sínu nærumhverfi á sjálfbæran hátt.

Við viljum styðja við nýsköpun og framþróun sem nær til landsins alls og jafna búsetuskilyrðin.

Hvert og eitt einasta samfélag á Íslandi er dýrmætt atvinnulega, menningarlega, félagslega og sögulega. Hellissandur, Hofsós, Þingeyri, Akranes eða Árneshreppur; allt eru þetta staðir sem okkur sem samfélagi ber að standa vörð um þegar erfiðleikar steðja að. Það sama á við um aðra bæi, sveitir og þorp um allt land sem geta lent í áföllum.

Því oftar en ekki eru áföllin komin til af mannanna verkum, leikreglum sem settar hafa verið af stjórnmálamönnum og leiða til afleiðinga sem bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum.

Við verðum að taka á vitlausu kvótakerfi sem stuðlað hefur að samþjöppun í greininni og bitnað harkalega á mörgum byggðarlögum sem geta ekki rönd við reist þegar fjármagnið eitt stjórnar ferðinni og ekkert tillit er tekið til fólksins sem skapað hefur arðinn. Þessi þróun hefur leitt til auðs og valda fárra aðila sem eru ráðandi í greininni í dag og skapað óvissu og óöryggi íbúa sjávarbyggða sem vita ekki hvort eða hvenær kvótinn verður seldur úr byggðarlaginu.

Það er nauðsynlegt að byggðafesta aflaheimildir að hluta og að ríkið geti leigt og úthlutað aflaheimildum úr leigupotti og að strandveiðar verði efldar og kerfið opnað fyrir nýliðun. Þá þurfa veiðigjöldin að endurspegla hagnað í greininni eftir útgerðarflokkum.

Landbúnaðurinn er okkur mikilvægur og fólk er orðið meðvitað um hve mikilvægt er að neyta heilnæmra afurða sem framleiddar eru í nærumhverfinu. Það er umhverfisvænt að flytja ekki matvæli um hálfan hnöttinn sem við getum framleitt sjálf og tryggir okkur matvælaöryggi og grundvöll fyrir matvælaiðnaði í landinu með fjölda afleiddra starfa. Það þarf að vinna að varanlegri lausn á vanda sauðfjárbænda í samvinnu við greinina og neytendum til hagsbóta og koma í veg fyrir þá miklu kjaraskerðingu sem blasir við sauðfjárbændum og er óásættanleg.

Það þarf virkilega að spýta í lófana hvað varðar viðhald helstu innviði landsins svo sem vega, hafna, flugvalla og fasteigna ríkisins. Uppsöfnuð þörf þar er talin vera hátt í 400 milljarðar sem sýnir að það verður okkur dýrt ef við förum ekki að forgangsraða og taka til hendinni nú þegar vel árar. Það er óásættanlegt að fjöldi fólks búi enn við malarvegi og ótryggt rafmagn og hafi ekki möguleika á að tengjast þriggja fasa rafmagni eða góðum háhraðatengingum.  

Fjárlagafrumvarpið sem fráfarandi ríkisstjórn mælti fyrir sýndi að áfram ættu t.a.m heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, löggæslan og nátttúrustofurnar að vera fjársveltar og samgöngur vanfjármagnaðar. Það er ólíðandi þegar svokallað góðæri ríkir.

Hvenær ætlum við að endurreisa innviðina eftir hörmungar hrunsins ef ekki þegar betur árar og skilað þjóðinni til baka hagnaði af betra árferði?

Við Vinstri græn höfum haldið uppi öflugum málflutningi á Alþingi m.a. fyrir alþýðu þessa lands, fyrir nátttúruna, fyrir landsbyggðina, fyrir öflugt heilbrigðis- og menntakerfi, fyrir femínisma og réttindum minnihlutahópa og talað fyrir samfélagslegri ábyrgð.

Við getum gert svo miklu betur í okkar góða samfélagi og byggt á réttlæti og jöfnuði.

Gerum betur með Vinstri grænum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga