Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | Sameining A-Hún | 11. október 2017 - kl. 21:54
Skagabyggð tekur ákvörðun bráðlega

Hreppsnefnd Skagabyggðar ætlar að taka ákvörðun bráðlega um hvort sveitarfélagið hefji sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Í gær var haldinn íbúafundur í Skagabyggð þar sem sameiningarmál voru rædd og skoðanakönnun gerð meðal íbúa um sameiningu sveitarfélaga. Spurt var hvort þeir vildu hefja viðræður við önnur sveitarfélög um sameiningar og þá hvaða sveitarfélög. Þá kynntu á fundinum þau Stefanía Traustadóttir og Ólafur Kr. Hjörleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu nýlega skýrslu um stöðu og framtíð sveitarfélaga.

Ríkisútvarpið fjallaði um máli í fréttum sínum í dag og þar er haft eftir Vigni Sveinssyni, oddvita Skagabyggðar, að fundurinn hafi verið fjölsóttur. Hann segir að niðurstöður könnunarinnar liggi ekki fyrir en á næstu dögum verði boðað til fundar í hreppsnefnd þar sem ákvörðun um næstu skref verði tekin. Sú ákvörðun muni ráðast af niðurstöðum könnunarinnar.

Blönduósbær, Húnavatnshreppur og Skagaströnd hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu, að því gefnu að Skagabyggð taki þátt. Sveitarfélagið hóf hins vegar viðræður við Skagafjörð í byrjun sumars og því hefur þess verið beðið hvort Skagabyggð haldi áfram þeim viðræðum eða snúi sér að Austursýslunni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga