Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | Sameining A-Hún | 17. október 2017 - kl. 22:19
Skagabyggð vill sameiningarviðræður við sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu

Sveitarstjórn Skagabyggðar hefur ákveðið að fara í sameiningarviðræður við sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu. Sveitarstjórnir Blönduósbæjar, Skagastrandar og Húnavatnshrepps hafa verið látnar vita af ákvörðuninni. Þar með hafa allar sveitarstjórnirnar fjórar í sýslunni samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Gera má ráð fyrir að viðræðurnar hefjist fljótlega.

Skagabyggð hóf sameiningarviðræður við Skagafjörð í byrjun sumars. Eftir að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu ákváðu að kanna hvort grundvöllur væri fyrir sameiningu allra sveitarfélaganna í sýslunni tók málið nýja stefnu hjá Skagabyggð.

Sveitarstjórn Skagabyggðar hélt íbúafund 10. október síðastliðinn þar sem staðan var rædd og skýrsla um stöðu og framtíð sveitarfélaga var kynnt. Á fundinum var lögð fram skoðanakönnun meðal íbúa þar sem spurt var hvort þeir vildu á annað borð hefja viðræður um sameiningu við önnur sveitarfélög og þá hvaða sveitarfélög. Meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni voru andvígir sameiningu við önnur sveitarfélög en meirihluti þeirra sem svöruðu seinni spurningunni töldu álitlegri kost að sameinast Austur-Húnavatnssýslu heldur en Skagafirði.

Í bókun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 12. október síðastliðnum kemur fram að sveitarstjórnin telur að það geti orðið sveitarfélögunum í Austur-Húnavatnssýslu til framdráttar að hefja sameiningarviðræður. Á fundinum var ákveðið að fara í sameiningarviðræður þrátt fyrir að meirihluti íbúa sem svöruðu skoðanakönnuninni hafi verið því andvígir.

Vignir Sveinsson, Dagný Rós Úlfarsdóttir og Magnús Björnsson voru tilnefnd í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna og hafa þá öll sveitarfélögin tilnefnt fulltrúa til viðræðna.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga