Húsfrúin | 27. október 2017 - kl. 12:12
Hlægjum meira

Hlátur getur skipt sköpum og hefur löngum verið sagt að hann lengi lífið. Sumir er hræddir við hlátur og telja sig vera að bera tilfinningar sínar á borð. Nefna má að viðskiptalífið hræðist hlátur. Hlátur er óvinur hins formlega því hann afhjúpar hið mannlega. En hlátur er góður. Hann hefur jákvæð áhrif. Hlátur eykur endorfínframleiðslu líkamans, lætur þann sem hlær slaka á og við það dregur úr stressi. Blóðþrýstingur þess sem hlær lækkar. Við það batnar andleg og líkamleg líðan. Hlátur og gleði eykur hamingju fólks. Það finnur til öryggis. Áhrifin eru jákvæð á heilastarfsemi og sköpunarferlið. Niðurstaðan er jákvæð.

Til eru margar rannsóknir á gleði og hlátri á vinnustöðum. Í þeim kemur oftar en ekki fram að fólk í skapandi greinum eigi að huga að húmor. Það sé heilbrigðismál, enda jafnist góður hlátur í hálfa mínútu, þar sem hlegið er langt ofan í maga, við það að sitja á áravél í líkamsræktarstöð og róa af krafti í þrjár mínútur.

Þá segja niðurstöður rannsókna oft að hlátur starfsmanna á vinnustað dragi úr spennu og hreinsi andrúmsloftið. Hlátur eykur vinnugleði. Hann tengir fólk saman. Hann eykur traust innan hópsins. Traustið gerir ákvarðanatöku einbeittari og eykur samvirkni.

Hlægjum meira og hlægjum saman.

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga