Pistlar | 27. október 2017 - kl. 17:02
Frá innsta dal á ystu nafir
Eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur og Teit Björn Einarsson

Mikil eru forréttindi okkar Íslendinga að hafa hlotið í arf eins gjöfult land og Ísland, með öll sín miklu og vaxandi tækifæri í veröld sem leggur æ meira upp úr hinu hreina, hinu lífræna, hinu sjálfbæra og hinu náttúrulega. Mikil er líka ábyrgð okkar að fara vel með þennan arf en nýta jafnframt tækifærin til að skapa verðmæti og góð lífsskilyrði um allt land.

Orðið byggðastefna kann að þykja eilítið trénað og stofnanalegt. Í þrasi stjórnmálaumræðunnar hefur það fengið á sig neikvæða merkingu í hugum sumra. Ekkert er þó fjær sanni. Með byggðastefnu er einfaldlega átt við þá viðleitni samfélagsins að tryggja öllum íbúum fullnægjandi opinbera þjónustu og viðunandi skilyrði til sjálfsbjargar.

Það vill gleymast í umræðu um hin ýmsu byggðatengdu mál að á bak við öll Excel-skjölin, kostnaðartölur og reiknilíkön er fólk. Fólk frá innsta dal á ystu nafir, eins og skáldið komst að orði, og alls staðar þar á milli. Fólk sem hefur á grunni réttmætra væntinga fest rætur, stofnað fjölskyldu og byggt heimili, sótt sér menntun og unnið sig upp í starfi eða fjárfest í eigin rekstri.

Vandi eins er vandi allra

Í samfélagi eins og Íslandi eru hagsmunir fólks samofnir. Það þýðir að samfélag okkar verður aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn. Erfið staða sauðfjárbænda um þessar mundir er því áhyggjuefni okkar allra - að minnsta kosti allra sem skilja þetta samhengi hlutanna - enda vofir yfir keðjuverkandi hrun víða í hinum dreifðari byggðum ef fram heldur sem horfir. Það samfélagslega tjón sem af kann að hljótast verður erfitt eða ómögulegt að bæta.

Vanda sauðfjárbænda er ekki hægt að leysa með einu pennastriki. Augljóslega þolir þó enga bið að grípa til bráðaaðgerða sem miða að því að hækka afurðarverð til bænda nú í haust. Í framhaldinu verður samtal stjórnvalda og bænda um næstu skref að leiða til niðurstöðu helst í vetur. Svo er að sjá að þokkalega breiður pólitískur skilningur sé á alvarleika málsins. Það gefur vonir um að sátt takist um nauðsynlegar aðgerðir. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki skorast undan ábyrgð og mun leggja sitt af mörkum til lausnar vandans með bændum.

Horft fram veginn

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt í verki að honum er treystandi til að taka forystu um uppbyggingu mikilvægustu innviða um allt land. Dæmi um það er átakið Ísland ljóstengt, sem þingmaður okkar Haraldur Benediktsson á hvað mestan heiður af, að öðrum ólöstuðum. Á tveimur árum hefur um 900 milljónum króna verið varið til að ljósleiðaravæða næstum 2.500 heimili og markmiðið um að útvega 99,9% heimila slíka tengingu er innan seilingar.

Hafin er skoðun á því hvort beita megi svipaðri nálgun við að útvega fleirum aðgang að þriggja fasa rafmagni, sem getur skipt sköpum um margvíslega atvinnuuppbyggingu.

Efling flutnings- og dreifikerfis raforku lýtur lögmálum sem eru orðin sérstakt umhugsunarefni, en þrátt fyrir allt hefur hin síðustu ár tekist að stórbæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þar sem það var árum saman út úr öllu korti í samanburði við aðra landshluta. En betur má ef duga skal.

Jöfnun húshitunarkostnaðar um landið skiptir líka miklu og þar hækkuðum við Sjálfstæðismenn framlögin á fjárlögum nú í haust um tæp 10% á milli ára, upp í 3,3 milljarða.

Ráðast þarf í átak til að lagfæra malarvegi og leggja á þá bundið slitlag. Sjálfstæðisflokkurinn boðar fyrir þessar kosningar stórátak í samgöngumálum sem hlýtur meðal annars að beinast að þessum mikilvæga þætti.

Ferðaþjónusta hefur verið mikil lyftistöng fyrir margar byggðir og hún getur enn vaxið. Stjórnvöld hafa stutt þessa þróun með margvíslegum hætti. Mun meira tillit er nú tekið til þarfa ferðaþjónustunnar við ráðstöfun fjármuna til samgangna og löggæslu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið efldur. Ákveðið hefur verið að stórauka stuðning við markaðsstofur landshlutanna svo að þær geti sinnt svæðisbundinni stefnumótun enn betur. Flugþróunarsjóður er smám saman að byrja að sinna því hlutverki sínu að stuðla að því að ferðamenn fljúgi á fleiri áfangastaði. Þannig mætti lengi telja en ljóst er að þarna liggja mörg tækifæri.

Sóknarfærin eru fleiri. Til dæmis er ástæða til að skoða í fullri alvöru möguleika á samkomulagi milli ríkisins og bænda um samstarf á sviði loftslagsmála, eins og reifað hefur verið í fundaröð þingmanna okkar um landið undir yfirskriftinni Ísland allt blómstri.

Látum verkin tala - fjárfestum í landinu

Eins og nefnt var í upphafi eru sumir með sjálfkrafa neikvætt viðbragð við allri umræðu um “byggðastefnu”. Að sama skapi eru sumir sem sjá þá lausn helsta á vanda sauðfjárbænda að lokka unga og metnaðarfulla bændur út úr greininni. Að okkar mati komumst við aldrei langt með neikvæðu hugarfari. Ef hvorki vilji né bjartsýni eru til staðar komumst við aldrei úr sporunum.

En þótt hugurinn beri okkur hálfa leið náum við ekki settu marki nema með sterkri forystu, samvinnu og áræðni. Ísland stendur vel að vígi en hagvextinum hefur verið misskipt. Nú er lag að nýta sterka stöðu okkar til að fjárfesta í landinu öllu og styrkja grundvöllinn undir blómlega byggð frá innsta dal á ystu nafir. Það eru hagsmunir okkar allra.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Teitur Björn Einarsson
Höfundar skipa 2. og 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga