Nöldrið | 09. nóvember 2017 - kl. 13:52
Nóvember nöldur

Það hefur verið gaman að fylgjast með sigurgöngu Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í keppninni „Kórar Íslands“  þar sem þeir standa sig með mikilli prýði og heilla jafnt dómara sem áheyrendur. Fyrsta kvöldið sungu þeir afskaplega vel, en fóru svo á kostum  sunnudaginn 5. nóvember þegar þeir fluttu lagið hans Skarphéðins söngstjóra. Stórgott lag sem ég spái að eigi eftir að heyrast oft og víða. Enda flugu þeir inní úrslit og nú er bara að vona það besta og styðja okkar menn á lokakvöldinu. Ég vissi að Skarphéðinn er snjall hagyrðingur en  það kom mér á óvart að hann gæti líka samið svona  skemmtilega tónlist. Það er aðeins eitt sem mér hefur þótt betur mátt fara á þessari sigurgöngu kórsins og það er að undirleikarinn, organistinn okkar ungi, standi við hlið stjórnandans og formanns kórsins þegar dómararnir kveða upp sinn dóm, því hann á sannarlega ekki lítinn þátt í þessari velgengni allri annar eins snilldar hljóðfæraleikari sem hann er. Gangi ykkur vel og ég þakka fyrir mig.

Það er athyglisvert framtak sem fjallað er um á Húnahorninu 8. nóvember. Pistillinn heitir „Eins manns rusl er annars gull“. Þar segir frá góðgerðarsamtökunum Gærunum í Húnaþingi vestra.  Þær halda úti nytjamarkaði  á Hvammstanga  sem tekur við alls konar hlutum, ekki endilega fatnaði, sem hætt er að nota og selja vægu verði og gefa andvirðið til góðra verka í sínu nærumhverfi. Fatasöfnun Rauða krossins er þarft framtak sem vitað er að fólk um allt land nýtir sér og gefur þangað notuð föt og alls konar textíl sem það hefur ekki lengur Þörf fyrir. En hjá Gærunum getur þú losnað við gömul húsgögn og alls konar búshluti sem nýtast ekki lengur á þínu heimili og veist að andvirði þeirra gerir gagn í samfélaginu. Frábært framtak sem gaman væri að sjá hér á okkar svæði.

Það er nauðsynlegt að vera bjartsýnn og ausa lofi á náungann nú þegar myrkrið hellist yfir landið okkar og svartasta skammdegið gengur í garð, en þó verð ég að segja að ég var ekki kátur þegar ég einhvern daginn í vikunni átti erindi í búðina okkar Kjörbúðina og mér mættu fram við dyr fánar og veifur á kælikistum verslunarinnar sem voru fullar af ferskum fiski af öllu tegundum, unnum og óunnum.  Nú er það svo að hér opnaði nýlega ungt fólk fiskbúð sem hefur boðið upp á ótrúlega gott úrvar af fersku fiskmeti. Þau sögðust kaupa fiskinn á fiskmörkuðum í nágrenninu og síðan vinna þau hann sjálf, flaka og salta, leggja í allskonar mareneringu, búa til bollur og klatta og nostra við þetta eins og best er verður á kostið. Ég veit það fyrir víst að það eru ekki mörg þorp úti á landi þar sem er fiskbúð með jafn fjölbreyttu úrvari og hjá þessari búð.  Ætlar nú stóri bróðir að reyna að drepa þetta einstaklingsframtak niður með þessum hætti? Ég hélt satt að segja að svona aðferðir þekktust ekki lengur. Ég skora á Húnvetninga að sniðganga ferska fiskinn í Kjörbúðinni og beina viðskiptum sínum til okkar ágætu fiskbúðar „Fisk á disk“.

Já veturinn er kominn og jólin nálgast. Nú er rétti tíminn til að draga fram seríurnar og greiða úr flækjunum og tékka á perum, sem við vitum að klikka alltaf þegar mest ríður á að kveikja.  Ég hlakka til að jólastússast en ætla þó að hafa hemil á mér á flestum sviðum.

Skammdegiskveðjur frá Nöldra.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga