Kattarauga. Ljósm: ust.is
Kattarauga. Ljósm: ust.is
Fréttir | 14. nóvember 2017 - kl. 07:12
Undirbúa gerð verndaráætlunar fyrir Kattarauga

Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið Kattarauga við Kornsá í Vatnsdal. Áætluninni er ætlað að fjalla um markmið með verndun svæðisins og hvernig stefnt skuli að því að viðhalda verndargildi þess. Við gerð hennar er lögð mikil áhersla á samráð og samstarf við hagsmunaðila. Umhverfisstofnun hefur m.a. óskað eftir því að Húnavatnshreppur tilnefni fulltrúa í samstarfshóp um gerð áætlunarinnar.

Kattarauga var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Tjörnin Kattarauga er alldjúpur pyttur sem í eru tveir fljótandi hólmar sem reka undan vindi. Mikið og stöðugt rennsli er í gegnum tjörnina. Í botni tjarnarinnar er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjartur dagur. Af lindarauganu dregur tjörnin nafn sitt. Gróður á svæðinu er dæmigerður íslenskur mýrargróður.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með ríflega 100 friðlýstum svæðum á Íslandi. Samkvæmt lögum um náttúruvernd er eitt af hlutverkum stofnunarinnar að annast gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga