Fréttir | 24. nóvember 2017 - kl. 13:55
Vefsíða Húnahornsins óvirk í rúma viku

Algjört kerfishrun varð síðastliðinn miðvikudag hjá vefhýsingarfyrirtækinu 1984 ehf. Það hýsir þúsundir íslenskra vefsíðna og póstþjóna og þar á meðal vef og póstþjón Húnahornsins, huni.is. Vefurinn hefur legið niðri frá því á miðvikudaginn fyrir viku síðan þar til í dag. Aldrei hefur þetta gerst frá því vefurinn var stofnaður 14. júní 2001 eða í rúm 16 ár.

Pósturinn komst í lag seint síðastliðinn föstudag en varð svo aftur óvirkur á þriðjudaginn. Hann er í lagi núna þegar þetta er skrifað. Vefsíðan varð virk uppúr hádegi á miðvikudaginn en bakendinn óvirkur sem þýddi að við höfðum ekki aðgang að kerfinu til að setja inn efni. Það er komið í lag núna og vonum við að það haldi.

Við Húnahornsmenn eru auðvitað bæði sárir og svekktir yfir þessu og þykir þetta miður. Við biðjumst velvirðingar á ástandi síðustu daga og vonum að uppitími síðunnar verði hér eftir sem næst 100%. Þó má búast við einhverjum truflunum næstu daga.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga