Stikill í Blöndudal: Ljósmynd: Birgir Ingólfsson.
Stikill í Blöndudal: Ljósmynd: Birgir Ingólfsson.
Pistlar | 24. nóvember 2017 - kl. 14:20
Stökuspjall: Flóinn himinblái 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Að spegla sig í samtíðinni er nokkuð sem stjórnmálamenn, listamenn og raunar fjöldinn allur hlýtur að iðka, en hvað með karlakór, aldinn að árum, en þó skipaðan ungum mönnum eins og öldnum og kom norðan frá Húnaflóa til að taka þátt í kórakeppni Stöðvar 2, –  og til að skoða spegilmynd sína. Þeir skiluðu hlutverki sínu harla vel og hlutu fyrir fyrsta sæti í kosningu útvarpshlustenda. Þetta varð mörgum fagnaðarefni, sérstaklega þeim sem fylgst hafa með þessum sama kór frá ungum aldri eða tekið þátt í menningarstarfi hans. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hélt fyrstu söngskemmtun sína í Þinghúsinu í Bólstaðarhlíð sunnudaginn fyrsta í sumri 1925, er nú kominn á tíræðisaldur, en sýnilega í úrvalsformi. Ný ferðalög eru á döfinni en margs kyns ferðir hafa um dagana verið keppikefli kóra. Fyrstu söngförina fór Akureyrarkórinn Hekla til Noregs 1904 og hlaut frægð af eins og lesa má um í bókinni um Magnús Einarsson söngstjóra eftir sagnfræðinginn Aðalgeir Kristjánsson.

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hefur um dagana orðið félögum sínum drjúgur skóli og hvatning til að iðka tónfræðina. Orgelskólar á þykkum bókum  stóðu gjarnan opnir á þeim orgelum sem til voru í sveitinni eða handskrifuð nótnahefti með þeim lögum sem kórinn var að æfa. Fjárlögin áttu einnig heima á orgelinu.  Einn söngstjóranna, Jónas Tryggvason, hélt dagbók vel á annan áratug sem geyma einstaka heimild um starf kórsins á þeim tíma. Önnur samtímaheimild eru bréf Elísabetar á Gili en Stefán maður hennar var meðal stofnenda kórsins og Þorsteinn á Gili, tengdasonur þeirra var annar Eyvindarstaðabræðra, sem kornungir hófust handa við að móta unga kórinn og sömdu lög sín handa honum. Gísli á Eyvindarstöðum varð skammlífur, náði ekki 35 ára aldri, Gísli frændi þeirra á Bergsstöðum andaðist 1942 og Þorsteinn brá búi og flutti til Blönduóss, en þá kom til kasta þeirra Tungubræðra, Jónasar og Jóns í Ártúnum að æfa kórinn en eignuðust síðan langan og farsælan söngstjórnarferil með kórnum. Kórinn var óskabarn Tryggva föður þeirra og það var þeim aflvaki til að láta ekki sitt eftir liggja.  

Stilka af stofni kórsins má finna hér og þar: Síðastliðinn sunnudag hélt Eiríkur Grímsson upp á sjötugsafmæli sitt með söngveislu í Langholtskirkju, en hann fór að syngja með karlakórnum aðeins 15 ára gamall. Eiríksstaðabræður, þeir Guðmundur, Pétur og Jósef Sigfússynir, rómaðir einsöngvarar, fóru allir ungir að syngja með kórnum og sá elsti, Guðmundur, var einn af stofnendum kórsins ásamt föður þeirra Sigfúsi Eyjólfssyni. Sonur hans, Óskar Eyvindur Guðmundsson, hóf ungur tónlistarnám og var orðinn organisti við kirkjuna sína þegar hann lést í bílslysi tæplega 22 ára. Synir Péturs eru söngbræðurnir landsfrægu og kenndir eru við Álftagerði í Skagafirði. Sonardóttir Jóns söngstjóra er Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, sem stundar nú nám í djazzpíanóleik úti í Danmörku en kom með hljómsveit sína á minningarhátíð um Jónas frænda sinn í Blönduóskirkju fyrir ári síðan og flutti þau þar frumsamda tónlist hennar, m.a. við ljóð Jónasar.

Menningin getur blómstrað í svalveðrum nóvembermánaðar og blómin springa út fái þau vökvun og hlýju.

Fundaröð í Húnabúð Skeifunni 11 lýkur n. k. miðvikudag, 29. nóv. með þemanu, Hvar er ljóðið mitt? Nokkrir ljóðaunnendur munu lesa þar eftirlætisljóð sitt, Sigríður Árnadóttir flytur þátt af Þóru langömmu sinni frá Auðkúlu en Ingimar Halldórsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir standa vörð um okkar fornu tónlistarhefð og kveða. Samkoman hefst kl. 17.

Enn nú kemur hlé til að læða inn stökum. Vestur á Vatnsnesi bjó Eðvald á Stöpum:

Þar sem íslensk dafnar dyggð
dýrleg blómin gróa.
Því mun aldrei eyðast byggð
út við Húnaflóa.

Á góðbýlinu Litladal við Svínavatn ólst upp Sigrún Haraldsdóttir en horfir nú með hugarsjónum sínum til Húnaflóans sunnan af Norðlingaholti:

Bára á fleti tiplar tær
tindrar sólargljái
hrifning mína fangað fær                             
flóinn himinblái.

Sigrún á fleiri vísur um flóann:

Öldufaldur tognar tær
tindrar sjávargljái
Haraldsdóttur heillað fær
Húnaflóinn blái.

Sigrún kemur einnig til Húnabúðar miðvikdaginn 29. nóv. til að flytja ljóð sín. Faðir Sigrúnar, Haraldur Karlsson í Litladal, var einn félaganna í karlakórnum áðurnefnda og aldna.

Á síðustu fundum í Húnabúð hafa Tómas R. Einarsson tónskáld og Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur verið fyrirlesarar. Tómas rifjaði upp margar sögur af Tómasi afa og ömmu sinni á Blönduósi og lék lög af diski sínum, Strengjum, þar sem hann tekur öldugjálfur upp á myndband og semur við tónlist. Dr. Vilhelm kynnti nýútkomna bók sína, Sjálfstætt fólk –  Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Þar úir af sögum, flestum úr húnvetnskum fræðum og dómsskjölum, sem sagnfræðingurinn notar til að varpa ljósi á tilveru og réttindabaráttu vinnufólks og lausamanna eins og nafn bókarinnar bendir til: Árni Sveinsson, er fékkst við lækningar, Magnús sálarháski og Ísleifur seki frá Breiðavaði eru nöfn sem tíunda má af þeim fjölda er kemur fram á síðum þessarar nýju fræðibókar. Valdsmaður Húnvetninga, Björn sýslumaður í Hvammi, kemur einnig mjög við sögu. Bókin er ríkulega myndskreytt og rituð á ljósu og skýru máli.

Ljúkum stökuspjalli með vorlegu ljóði Sigrúnar:

Nú lægir vind
og fislétt alda
fellur þýtt
um fjörusteina máða.
Eitt stundarbil
er stafalogn
og stilla og þögnin ráða
svo grafarkyrrð
því grænklædd jörðin
gengin er til náða.

Tilvísanir:

Feykir/Kk Bólstaðarhlíðarhrepps: http://www.feykir.is/is/thad-var-lagid/kor-islands-er-karlakor-bolstadarhrepps 
Kk.Ból/Lag&ljóð Skarph.E og Bened.Bl.: http://www.visir.is/section/MEDIA99?fileid=CLP58484
Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps: http://www.karlakor.net/
Karlakórinn Hekla: http://www.sikk.is/page/saga-heklu  
Minningarljóð um Óskar Eyvind/e. JTr.: http://stikill.123.is/blog/2011/11/11/550654/
Sjötugsafmæli Eiríks Grímssonar: https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=14226
Minningarhátíð um Jónas Tryggvason í nóv. 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13350
Eðvald Halldórsson: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=e0&ID=15895
Sigrún Haraldsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=s0&ID=16120  
Stikill, grjóthóll fremst í Blöndudal, Rugludalur til vinstri en Blöndugil til hægri: http://stikill.123.is/photoalbums/52966/

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga