Fréttir | 05. desember 2017 - kl. 09:59
Afsláttur af námslánum til að efla byggðir

Lilja Alfreðsdóttir, nýr menntamálaráðherra, hyggst beita námslánakerfinu til að efla búsetu í brothættum byggðum sem lið í uppbyggingu innviða um landið. „Þetta gengur út á að fólk sem býr og vinnur á svokölluðum aðgerðasvæðum og er með námslán gæti sótt um afslátt af námslánum,“ segir Lilja í Fréttablaðinu í dag. Hún vísar til reynslu Norðmanna af þessari leið þar sem fólk getur fengið 10% lækkun á námslánum árlega hafi það búið á tilgreindum svæðum í tólf mánuði.

Aðspurð í blaðinu um þau svæði sem myndu njóta þessa úrræðis segir Lilja að það gæti verið breytilegt en um yrði að ræða svæði þar sem erfitt reynist að halda uppi tiltekinni þjónustu vegna skorts á sérfræðimenntuðu fólki. Hún segir að ekki liggi fyrir hvenær frekari tíðinda sé að vænta af þessu úrræði en þetta verði unnið í tengslum við heildarendurskoðun námslánakerfisins.

Sjá nánar í Fréttablaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga