Nöldrið | 10. janúar 2018 - kl. 12:28
Janúarnöldur

Gleðilegt ár og þökk fyrir samfylgdina árið 2017.

Það er ekki annað hægt að segja en s.l. ár hafi verið gott fyrir okkur Húnvetninga. Marga góðviðriskafla áttum við en ekki minnist ég neinna óveðra á árinu. Húnvetningar lögðust margir hverjir í ferðalög eins og landsmenn almennt og sumir muna ekki einu sinni hvað margar utanlandsferðir þeir fóru í á liðnu ári. Vonandi veit þetta allt á gott. Vonandi njótum við bæði veðurblíðu og batnandi efnahags.

Að venju efndu útvarpsstöðvarnar, Bylgjan og Rás 2 til vals á manneskju (manni) ársins og var tilkynnt um úrslitin á gamlársdag. Þau sem landsmenn völdu að þessu sinni voru sannarlega vel að þeirri vegsemd komin. Á Bylgjunni var valinn hinn geðþekki rannsóknarlögreglumaður Grímur Grímsson sem segja má að hafi veitt heilli þjóð áfallahjálp í janúar á síðasta ári þegar landsmenn sátu sem lamaðir við sjónvarpstæki sín og fylgdust með rannsókn á einhverju óhugnanlegasta morðmáli  hér á landi á síðari tímum.  Þar sat Grímur fyrir svörum kvölds og morgna dag eftir dag og allir sem hlustuðu og horfðu vissu að enginn var betri en þessi maður að komast til botn í þessu ógeðslega máli. Þetta var vel valið af hlustendum Bylgjunnar.

Á rás 2 voru það #metoo-konur íslands sem voru valdar manneskjur ársins 2017. Það  var einnig vel valið og kom svo sem engum á óvart eftir allan fréttaflutninginn utan úr heimi af konum sem loksins risu upp til að mótmæla ofbeldi, aðallega kynferðislegu ofbeldi, en einnig öllu öðru ofbeldi sem viðgengis hefur gegn bæði konum og körlum svo allt of lengi. Þetta hófst allt vestur í BNA þar sem nokkrar konur stigu fram og sögðu frá ofbeldi  framleiðandans og leikstjórans Harvey Weinstein og skriðan fór af stað um heim allan. Og það er víst til nóg af ljótum sögum, líka hér á okkar litla Íslandi og íslenskar konur hafa ekki farið varhluta af ofbeldinu.

Það var notaleg stund í kirkjunni okkar nóvemberkvöldið sem organisti kirkjunnar bauð til Bach tónleika og ánægjulegt hvað vel var mætt. Það var mikið happ að fá Eyþór Franzson fyrir organista kirkjunnar, jafnframt sem hann kennir við Tónlistarskólann. Í pistli hér á Húnahorninu þakkar Eyþór gestum fyrir rausnaleg framlög sem þeir greiddu þetta kvöld til viðhalds kirkjunni. Frítt var inn á tónleikana en tónleikagestum bauðst að láta fé af hendi rakna kærðu þeir sig um. Í þessum sama pistli lofaði Eyþór fleiri tónleikum í vetur svo við getum látið okkur hlakka til.

Ekki var fjölskylda Nöldra svo heppin að eignast sous vide hægeldunargræjuna sem var víst vinsælasta jólagjöfin í ár. Yfirleitt er gert létt grín að landanum þegar hjarðhegðunin tekur sig upp hjá honum og allir kaupa sama hlutinn til jólagjafa. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessari eldunaraðferð, enda ekki kynnst henni. En skondna grein um þessi mál las ég í blaði um jólin, þar sem sagði frá manninum sem fór í búðina með léreftspokann sinn og fyllti hann af matvælum til heimilisins, sagðist forðast alla plastpoka og formælti plastvæðingu heimsins. Gekk síðan heim með sinn tuskupoka , tók upp úr honum kjötstykki  sem hann síðan sauð í plasti eins og uppskriftin sagði til um. Já það mun þurfa plast til að plastsjóða kjöt í potti.

Ég vil þakka Sigurbirni Þorkelssyni fyrir frábæra pistla sem Húnahornið hefur birt að undanförnu. Þá ættu allir að lesa. Það er mannbætandi lesning.

Nú er mál að linni, bestu kveðjur þar til næst,

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga