Gamli bærinn á Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Gamli bærinn á Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 11. janúar 2018 - kl. 21:23
Annar íbúafundur um verndarsvæði í byggð
Gamli bærinn á Blönduósi

Blönduósbær boðar til almenns íbúafundar í Félagsheimilinu á Blönduósi miðvikudaginn 17. janúar næstkomandi klukkan 17. Þetta er annar fundinn sem haldinn er vegna verkefnisins um verndarsvæði í byggð – Gamli bærinn á Blönduósi. Á fundinum munu fulltrúar Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur (TGJ) kynna drög að tillögu um verndarsvæði í byggð á Blönduósi og ræða málin við íbúa og aðra hlutaðeigandi aðila. Allir sem áhuga hafa á verkefninu eru hvattir til að mæta.

Fyrri fundurinn var haldinn 11. október síðastliðinn en þá kynntu fulltrúar TGJ vinnu sína sem Blönduósbær fól þeim að gera í samræmi við sérstök lög um verndarsvæði í byggð sem tóku gildi árið 2015. Samkvæmt þeim ber sveitarstjórnum landsins að meta „hvort innan sveitarfélagsins sé byggð, sem hafi slíkt gildi“ og hvort ástæða sé til að útbúa tillögur til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð. Í samræmi við þetta fól sveitarstjórn Blönduósbæjar TGJ að taka saman tillögur og greinargerð til ráðherra um að gamli bæjarkjarninn á Blönduósi verði gerður að verndarsvæði í byggð.

Gamli bæjarhlutinn á sér langa sögu, sem varðveitt er í gömlum húsakosti og heildstæðu svipmóti byggðarinnar. Fæstir þéttbýlisstaðir á Íslandi geta státað af slíkum bæjarkjarna og því mikilvægt að varðveisla hans og uppbygging takist vel. Slíkt gæti falið í sér fjölbreytt tækifæri fyrir íbúa á Blönduósi og styrkt bæjarfélagið í heild sinni, eins og segir í auglýsingu frá Blönduósbæ um fundinn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga